Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 12:25:28 (4463)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er einhver misskilningur hjá hv. þm. Páli Péturssyni, ég er í ljómandi góðu skapi og liggur ákaflega vel á mér. Hins vegar eru slíkar ræður eins og hann flutti áðan ekki beinlínis til þess fallnar að létta skap manna þegar það er haft í huga að hægt er að segja það sem hann sagði í miklu styttra og miklu skýrara máli og það getur hv. þm. því honum er nú einkar lagið að vera stuttorður og gagnorður ef hann vill það við hafa, en hann vildi það ekki í þessu tilviki.
    Hér er um að ræða eitt mikilvægasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar í áratugi og þegar málið verður skoðað í ljósi sögunnar þá hygg ég að þeir sem haldið hafa hinar löngu og efnislitlu ræður um þetta mál muni auðvitað hljóta sinn dóm þegar sagnfræðingar skoða ræður þeirra. En málið skiptir þjóðina miklu og það er ábyrgðarhluti sem stjórnarandstaðan hefur tekið að sér að tefja fyrir og þvæla málið með öllum þeim hætti sem hugsast getur og fyrir það mun stjórnarandstaðan á sínum tíma auðvitað hljóta sinn dóm á spjöldum sögunnar.