Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 14:20:59 (4466)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson lét svo ummælt að nú mundu áreiðanlega einhverjir talsmenn stjórnarliðsins koma hér upp og segja: Framsfl. er á móti útlendingum. Ég hygg að það hvarfli ekki að nokkrum manni. Hins vegar verður því ekki neitað að í ræðu hv. þm. komu fram kynþáttafordómar og trúarbragðafordómar sem eru sem betur fer nær einsdæmi að heyra hér á hinu háa Alþingi og það hvarflar ekki að mér að hv. þm. tali hér fyrir hönd Framsfl. Þvert á móti er ég alveg sannfærður um að margir flokksbræður hans fyrirverða sig fyrir þann málflutning sem hann hefur hér haft uppi. Það er ég alveg sannfærður um og vonandi er hann einn um það á Alþingi Íslendinga að vera talsmaður þeirra skoðana sem hann flutti hér áðan.
    Raunar talaði hann hér mjög langt mál eins og hann hefur áður gert í þessu máli og í ræðu hans kom ekkert nýtt fram. Hann hefur áður látið svipaðar skoðanir uppi, kynþáttafordóma eins og hann gerði í þessari ræðu sinni hér áðan svo að það kemur kannski ekkert sérstaklega á óvart. Hins vegar var þessi ræða hans enn ein málþófsræða stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu eins og þeir sem hér í þingsalnum eru geta vitnað og allir þeir fjölmörgu sem fylgjast með þessum umræðum í sjónvarpi heima hjá sér. Þessi ræðuhöld eiga ekkert skylt við málfrelsi. Þau eru miklu frekar málæði og þau eru málþóf. Orðið málþóf þýðir þjark eða málalengingar til að tefja umræður og það er nákvæmlega það sem þessi ræða og margar aðrar sem hér hafa að undanförnu verið fluttar eru.