Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 15:22:15 (4485)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mig langar að inna forseta eftir hvort heimilt sé að koma hér upp og svara andsvörum eftir andsvörum annarra löngu eftir að þau hafa farið fram og þegar það er alveg tryggt að sá sem kom með andsvarið hefur ekki möguleika á að svara fyrir sig. Hæstv. forseti getur kannski upplýst það því þetta kom fyrir mig núna áðan og mér þykir það nokkuð lúalegt ef menn eru að koma upp í andsvörum og bera menn ósönnum brigslum þegar ekki er mögulegt að svara fyrir sig. Kannski er það til hagræðingar að ég fái að bera af mér sakir í leiðinni. Ég skal víkja úr stóli og bera af mér sakir sérstaklega sé það er betra eftir forminu því að ég virði það. ( Forseti: Forseti metur það svo að svör eigi að berast frá viðkomandi ræðumanni eftir andsvar þingmannsins en ekki síðar þar sem þá hefur þingmaðurinn ekki tækifæri til að bregðast við því svari frá viðkomandi þingmanni.) Ber forseta þá ekki að benda hv. þm. á þetta að gefnu tilefni? ( Forseti: Forseti vildi kannski nota einhver tækifæri þegar væri þægilegra að tala við hv. þm. en einmitt þessa stundina vegna hávaðans úti. Forseti getur ekki haft nein áhrif á það hvað hv. þm. segja eftir að þeir eru komnir í stólinn eins og hv. þm. er kunnugt.) Virðulegi forseti. Ég tek þessi svör gild en það hefði verið heppilegt að eftir að þingmaður hafði lokið máli sínu hefði komið athugasemd en ég tel að hún hafi nú komið fram og er það þakkarvert.
    Ég þarf að bera af mér sakir og ég held að það sé best að ég víki úr ræðustól og geri það sérstaklega. Ég hafði beðið um það og mun gera það þegar að því kemur því það sem ég á eftir tekur meira en 20 sekúndur.