Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 15:24:44 (4487)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Í því andsvari sem ég gat hér um í þingskapaumræðu áðan var ég borin þeim sökum að ég hefði glottandi fagnað atvinnuleysi á Suðurnesjum --- ég gat ekki skilið meiningu hv. þm. á annan hátt --- þegar álverið (Gripið fram í.) var til umræðu og hætt var við það. Þetta er minn skilningur og ég er að bera þær sakir af mér að ég hafi fagnað því að það er atvinnuleysi á Suðurnesjum. Ég held að það að hætt var við, alla vega að sinni, að byggja álver á Keilisnesi hafi engin úrslitaáhrif á atvinnustig á Suðurnesjum. Það sem hefur áhrif er stefna ríkisstjórnarinnar. Suðurnesjamönnum er því miður boðið upp á patentlausnir eins og her, álver og EES og það stendur í mínu máli og ég vil ekki að mér sé brigslað um það nokkurn tíma að mér sé ekki annt um atvinnuástand á Suðurnesjum. Það vita þeir sem hér hafa hlustað að er ekki rétt.