Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 15:32:23 (4491)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er tímanna tákn að þessi umræða sem hér á sér stað fer fram undir háværum mótmælum utan dyra sem minnir okkur á að ýmislegt er að gerast úti í þjóðfélaginu sem eru afleiðingar af því sem ákveðið var á þingi fyrir jól. Okkur er hollt að minnast þess að okkar bíða líka mjög mikilvægar umræður í næstu viku sem snerta ríkisfjármálin en það breytir ekki því að við erum að ræða eitt allra mikilvægasta mál sem rætt hefur verið á Alþingi Íslendinga á lýðveldistímanum eins og margoft hefur komið fram.
    Sannleikurinn er sá, virðulegi forseti, að ég hafði alls ekki hugsað mér að taka til máls við framhald 3. umr. Ég taldi mig vera búna að koma því á framfæri sem ég hef að segja um þennan samning. En síðan hefur það gerst að hæstv. utanrrh. og síðast hv. þm. Karl Steinar Guðnason hafa komið með þvílíkar fullyrðingar og dembur yfir þing og þjóð að það er ekki hægt annað en svara ýmsu því sem þar hefur komið fram.
    Hv. þm. Karl Steinar Guðnason flutti hér ræðu sem ég hygg að muni vekja allmikla athygli, ekki vegna þess að það sé að koma í ljós í fyrsta sinn að hv. þm. er því hlynntur að Íslendingar sæki um aðild að Evrópubandalaginu, heldur ekki síður vegna þess í hvaða samhengi þessi yfirlýsing hans kemur fram. Það var auðvitað eins og mann grunaði að þess yrði ekki langt að bíða að umræðan hæfist um það hvort Íslendingar ættu að sækja um aðild að Evrópubandalaginu.
    Í áliti meiri hluta utanrmn. kemur fram að ekki sé á dagskrá að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og er þar m.a. vitnað til orða Davíðs Oddssonar sem hann lét falla í stefnuræðu sinni 12. okt. árið 1992. En við minnumst þess að hæstv. forsrh. var á fundi forsætisráðherra Norðurlanda fyrir skömmu og kominn af þeim fundi lét hann þau orð falla að það gæti verið hyggilegt að fylgja straumnum og athuga hvað kæmi út úr samningaviðræðum því að varla gæfist annað eins tækifæri.
    Ég verð að segja það að þegar ég tók sæti á þingi fyrir rúmlega einu og hálfu ári reyndi ég að

nálgast þessi mál með opnum huga án þess að mynda mér einhverja fyrirframskoðun. Ég vildi skoða þessi mál opið og athuga kosti og galla bæði hins Evrópska efnahagssvæðis og Evrópubandalagsins, en eftir því sem ég hef kynnt mér þessi mál betur þeim mun sannfærðari verð ég um að við eigum að standa utan hins Evrópska efnahagssvæðis og í mínum huga kemur aðild að Evrópubandalaginu, eins og málum er þar háttað, alls ekki til greina. Þar verða að eiga sér stað mjög miklar breytingar og nánast alger bylting til þess að aðild Íslands að Evrópubandalaginu sé yfirleitt hugsanleg. Ég ætla ekki að fara mjög langt út í þá umræðu en eins og ég segi grunaði mig að þetta yrði næsta skrefið þrátt fyrir ýmsar yfirlýsingar í aðrar áttir.
    Ég er í sjálfu sér ekki hissa á því að hv. þm. Karl Steinar Guðnason skuli vera þessarar skoðunar. Hans sjónarmið minna mjög á það sem fram hefur komið hjá Evrópukrötunum, eins og ég kalla þá, þ.e. hjá þeim sem eru leiðandi í Evrópubandalaginu, en eins og menn vita er staða sósíaldemókrata mjög sterk í mörgum löndum Evrópu.
    Á þingi Evrópuráðsins í október vildi svo til að það sat fyrir framan mig krati. Ég held ég muni það rétt að hann sé belgískur, ég þori þó ekki alveg að fara með það því ég gat ekki alveg áttað mig á því eftir nafninu en svo mikið er víst að hann talaði frönsku. Hann lét þau orð falla að Evrópuhugsjónin væri eina hugsjónin sem eftir væri í pólitík. Hann vildi sem sagt meina að allar þær hugsjónir sem menn hafa fylgt undanfarin 200 ár væru meira og minna úr sögunni og væntanlega þá allar hugmyndir um ýmiss konar ríkisform en sameining Evrópu og þær hugsjónir sem þar búa að baki væru einar eftir. Mér fannst maðurinn taka býsna stórt upp í sig og gleyma því að það eru ýmsir hugmyndastraumar á ferð jafnt í Evrópu sem annars staðar. Ég nefni þar kvennahreyfinguna og umhverfishreyfinguna sem fætt hafa af sér margs konar pólitískar hugmyndir. Ég fæ ekki betur séð en með þeim breytingum sem nú eru fram undan í Bandaríkjunum kunni þar að vera fram undan miklar áherslubreytingar í rekstri bandarísks samfélags, nýir hugmyndastraumar og aðrar áherslur. En allt á það eftir að koma í ljós.
    En þar sem hv. þm., sem flutti ræðu á undan mér, Karl Steinar Guðnason, er krati af Evrópugerðinni, þá kemur það auðvitað ekki á óvart að alþjóðahyggja kratanna skuli skína svo sterkt í gegnum hans orð. En þá er þess vert að minnast að það hafa verið miklar sveiflur í alþjóðahyggjunni og reyndar litu menn svo á að hún hefði beðið mikið skipbrot árið 1914 þegar m.a. þýskir sósíaldemókratar ákváðu að styðja stríðsrekstur Þjóðverja. Fannst þá mörgum að þeir væru að bregðast hinum sönnu hugsjónum þegar verkamenn ættu að fara að berjast við verkamenn annarra landa. Það hefur því gengið á ýmsu í þeim efnum.
    Það kom fram mikil trú á að við sameiningu Evrópu væri að fæðast hið nýja fyrirmyndarríki, að því er mér skildist. En við hljótum að spyrja okkur: Sameining til hvers? Hvernig á hún að eiga sér stað? Hver er tilgangurinn? Þó að kratar hafi mikil áhrif innan Evrópubandalagsins --- sem betur fer hefur það þýtt að menn hafi haldið þar til haga ýmsum félagslegum réttindum og félagslegum áherslum --- þá sitja hagsmunir stórfyrirtækjanna í fyrirrúmi og tilgangurinn er sá að mynda mótvægi við Bandaríkin og Japan. Það kemur kannski ekki síst fram í Maastricht-samkomulaginu og Vestur-Evrópusambandinu, hinu nýja hernaðarbandalagi sem þeir eru að byggja upp í Evrópu, að þeir ætla sér mikið hlutverk sem ríki. Ég get tekið undir það með þingmanninum og endurtekið það sem ég sagði í ræðu minni í gærkvöldi að það er mjög skiljanlegt og auðvitað gott að það sé mikið og náið samstarf á milli ríkja Evrópu í ljósi þeirra miklu átaka sem einkennt hafa það svæði öldum saman, en það er ekki sama hvernig það samstarf fer fram og hvernig það er skipulagt. Og þar er ég svo gersamlega ósammála þingmanninum því þó að hann segi að markvisst sé unnið gegn skrifræði, þá er það staðreyndin að Evrópubandalagið er ákaflega miðstýrt. Þar sitja karlar í nánast öllum stöðum. Þar er mikið embættismannaveldi. Það er einfaldlega skipulagt þannig þetta bandalag. Evrópuþingið hefur sáralítil áhrif, enda reyna þingmenn þess mjög að auka áhrif þingsins.
    Ég get nefnt það hér að norskir og sænskir þingmenn sem ég hef rætt við, fyrst og fremst kratar sem eru fylgjandi aðild sinna þjóða að Evrópubandalaginu, hafa mjög miklar áhyggjur af því hvað Evrópubandalagið er ólýðræðislega skipulagt, hvað áhrif almennings eru lítil, hversu sterk áhrif stórfyrirtækjanna eru o.s.frv. Þetta mál er því engan veginn einfalt. Ég vara við því að menn stari svona blint á Evrópubandalagið og finnist það hafa um sig mikinn geislabaug því að við megum ekki gleyma því að við erum býsna langt frá ströndum Evrópu. Við erum úti í miðju Atlantshafi, mitt á milli Evrópu og Ameríku, og þó að menning okkar sé af evrópskum rótum, sem menning Ameríku er reyndar að hluta til líka, þá erum við mitt á milli og það markar okkur aðra stöðu en Evrópuríkjunum sem tengjast fastalandinu.
    Við gætum farið út í langa umræðu um þjóðríki, sjálfstæði, fullveldi og annað slíkt. Það sem er mikilvægast í mínum huga er það að við ráðum sjálf okkar för, að við getum tekið þær ákvarðanir sem við teljum vera réttastar en þurfum ekki að sveigja okkur undir vald annarra. Það getur verið rétlætanlegt í einstaka tilvikum, m.a. þegar um er að ræða alþjóðasamninga sem eru réttlætanlegir og við erum auðvitað alltaf að vega það og meta hvað eru kostir og hvað eru gallar, hvað er réttlætanlegt fyrir okkar þjóðfélag, en skipulag af því tagi sem er á ferð úti í Evrópu tel ég ekki vera æskilegt fyrir okkur.
    Ekki er ég sammála þeirri kenningu hv. þm. að Evrópubandalagið sé eins konar samvinnuhreyfing í besta skilningi þess orðs. Það er það nefnilega ekki vegna þess að hver einstakur félagi, hver einstaklingur í Evrópu, hefur sáralítil áhrif á þróun þessa bandalags og skipulag. Það eru stjórnmálamenn og embættismenn á æðstu toppum sem ráða þar för og það er flókið fyrir einstaklingana og nánast ómögulegt að hafa þar nokkur áhrif.
    Það skein út úr ræðu þingmannsins, eins og reyndar allra hans félaga og mjög margra þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunni um Evrópska efnahagssvæðið, að það séu bara viðskiptahagsmunir. Kjarninn sem málið snýst um eru viðskiptahagsmunir, sagði hv. þm. Karl Steinar Guðnason í sinni ræðu. En það eru svo mörg önnur rök sem tengjast þessu máli og við megum ekki festast í því að skoða mál eins og þetta eingöngu út frá viðskiptasjónarmiðum. Mér þykir þessi málflutningur fela í sér miklar einfaldanir á þessum stóru, stóru spurningum sem hann var að reifa hér og væntanlega munu koma frekar til umræðu síðar.
    Ég get ekki sleppt að nefna það af því að þingmaðurinn vitnaði í Íslandsklukkuna að það má margt finna í þeirri merku bók og ég vil benda honum á --- hann brá sér reyndar út úr salnum en ég reyni að koma því til hans síðar --- að hann ætti að lesa þann kafla þar sem þeir ræðast við Arnas Arnæus og Úffelen hinn þýski þegar til stóð að selja Ísland í hendur þýskra kaupmanna og Arnas Arnæus spurði þeirrar spurningar hvor væri betur staddur, feitur þjónn eða barður þræll. Og hann spurði líka hver yrðu áhrif Íslendinga þegar þýskar hallir tækju að rísa.
    Ég vil taka það skýrt fram vegna þess að það er stöðugt verið að halda því fram að andstæðingar EES séu að bera mönnum á brýn landráð, óþjóðhollustu og annað slíkt, að með því að vitna í þennan kafla Íslandsklukkunnar er ég að sjálfsögðu ekki að bera neitt slíkt upp á þingmanninn. Ég tel að við eigum að ræða þessi mál málefnalega og reyna að komast að kjarna málsins. En það eru margar hliðar á þessu mikla máli eins og ég hef nefnt.
    Hitt er svo annað að það getur auðvitað ekki annað en vakið athygli okkar í hvaða stöðu þetta mál er komið við 3. umr. Ég stóð í þeirri meiningu, og ég held við kvennalistakonur, áður en umræðan hófst í gærkvöldi að það væri að líða að lokum og ekki harla mikið eftir. En bæði í gærkvöldi og í dag hafa alþýðuflokksmenn unnið að því hörðum höndum að hleypa miklu fjöri í umræðuna með makalausum yfirlýsingum sem menn komast auðvitað ekki hjá að svara. Þessir ágætu ráðherrar og þingmenn kvarta mjög mikið yfir málþófi en síðan koma þeir sjálfir og flytja hér öfgakenndar trúboðsræður sem eru af þeirri tegund að maður hefur varla heyrt annað eins. Maður heyrir þá ganga út á ystu nöf í sínum málflutningi og ég verð að segja það að mér finnst þetta vera afar ómálefnalegur málflutningur og furðu sæta að þeir menn sem eiga kannski mest undir og þrá það mest að sjá þennan samning samþykktan á Alþing skuli ganga fram með þessum hætti. Það er ekki beinlínis til að greiða fyrir gangi mála að menn skuli tugum saman sjá sig knúna til þess að standa upp til þess að svara makalausum árásum utanrrh. Þetta er vægast sagt allt með ólíkindum, virðulegi forseti.
    Ég ætla að ræða nokkur atriði í framhaldi af máli utanrrh. í gærkvöldi. Þá verður auðvitað ekki komist hjá því að nefna fyrst þessar endalausu ásakanir um málþóf stjórnarandstöðunnar. Hér var vitnað í orðabækur fyrr í dag og ég fletti upp í einni slíkri til að athuga hvernig menn skilgreina málþóf. Í orðabók Menningarsjóðs segir, með leyfi forseta: ,,Málþóf: þjark, málalengingar sem tefja umræður um mál.`` Ég hef skilið orðið málþóf þannig að það séu einmitt málalengingar þegar menn fara að draga inn alls konar atriði sem koma málinu lítið við.
    Ég mótmæli því harðlega fyrir hönd Kvennalistans að við höfum haldið uppi einhverju málþófi hér. Við höfum allar talið okkur skylt að taka til máls í umræðunum vegna þess að hér er um mikið stórmál að ræða, framtíðarmál, þar sem m.a. hagsmunir kvenna koma mjög við sögu og auðvitað framtíð barna landsins. Og ég ítreka það að ég mótmæli þessum síendurteknu fullyrðingum um málþóf og tel að hæstv. utanrrh. væri hollara að halda þannig á spöðunum að menn þyrftu ekki að vera að rjúka hér upp hvað eftir annað til þess að verja sig.
    Það var margt makalaust í málflutningi ráðherrans í gærkvöldi. Það vakti ekki síst athygli mína að hann ásakaði Framsfl. fyrir það að tefla fram einum ræðumanni en síðan gat ég ekki skilið orð hans öðruvísi en svo að hann væri alveg furðu lostinn yfir því að Kvennalistinn skyldi ekki tefla fram bara einum ræðumanni, sérfræðingi flokksins í EES, eins og hann kallaði það. En það vill nú þannig til að við erum kannski öll orðin sérfræðingar í þessu máli því að þingmenn hafa legið yfir þessu mánuðum saman jafnt í nefndum sem í umræðum á Alþingi og þetta er þannig mál að nánast allir þingmenn hljóta að þurfa að tjá sig um það.
    Ég ætla enn að nefna það sem dæmi um þann makalausa málflutning að ég minnist þess að nokkrum vikum fyrir jól brást hæstv. utanrrh. mjög hart við þegar honum var líkt við Þórð kakala og þar vitnað til ákveðins kvæðis, en hann leyfir sér sjálfur að líkja þingmanni við Adolf Hitler, ,,ein Volk, ein Führer``, sagði hann um ákveðinn þingmann í gær. Þótt sá ágæti þingmaður sé fullfær um að verja sig sjálfur, þá get ég ekki annað en minnst á þetta. Auðvitað er engum sama þegar verið er að líkja fólki við nasista í Þýskalandi. Þetta er einfaldlega fyrir neðan beltisstað og menn ættu að forðast svona samlíkingar í umræðum sem eiga að vera málefnalegar.
    Mig langar að beina tveimur spurningum til hæstv. utanrrh. Ég held að hann sé í hliðarherbergi. Ég endurtek þær þá ef hann heyrir ekki mál mitt. Þetta eru ekki stór atriði en ég vildi gjarnan fá skýringar á þeim. Fyrri spurningin varðar niðurfellingu á tollum. Tölum í nál. meiri hlutans ber ekki saman við tölur ráðherrans, en ég geng út frá því að menn hafi vandað nokkuð til nál. og ég vona að það megi nokkuð treysta þeim upplýsingum sem þar koma fram. Spurningin er: Hver er hin raunverulega tollalækkun?

Hæstv. utanrrh. gerði mikið úr því að það næðist 96% lækkun á tollum sem gæfi honum einkunnina 9,6, eða fyrstu ágætiseinkunn á EES-prófinu, en samkvæmt nál. meiri hluta utanrmn. er þetta 93% lækkun. Þarna skeikar kannski ekki neinum ósköpum en þegar horft er á heildardæmið skiptir þetta auðvitað miklu máli og það skiptir máli hvað rétt er í þessu sambandi. Hver er tollalækkunin í raun þegar maður reynir að meta allt dæmið?
    Síðara atriðið sem ég vil spyrja ráðherrann beint um varðar þá fullyrðingu sem fram kom í ræðu hans þess efnis að Þjóðhagsstofnun meti ávinninginn af EES upp á 7 milljarða kr. Ég heyrði í Ríkisútvarpinu í hádeginu viðtal við Þórð Friðjónsson þar sem hann bar þetta að nokkru leyti til baka og vildi meina að þetta mundi skila sér á fleiri árum. Það hefur verið talað um það að tollalækkunin ein og sér skili eitthvað á bilinu 1--2 milljörðum kr. Þær tölur rokka nokkuð eftir því hvernig er metið. En ég vil gjarnan að hæstv. utanrrh. rökstyðji þessa tölu fyrir okkur. Hann sagði í ræðu sinni að á einu ári mundi samningurinn skila okkur 7 milljörðum kr. Hvernig er þessi tala fundin og hvernig stendur á því að henni ber ekki heim og saman við það sem Þjóðhagsstofnun hefur haldið fram?
    Þetta eru þær tvær skýringar sem ég vildi fá á fullyrðingum ráðherrans í gærkvöldi.
    Ráðherrann eyddi nokkuð miklu máli í að skamma stjórnarandstæðinga og var m.a. að vitna í það að menn hefðu á sínum tíma mótmælt inngöngunni í EFTA. Það var löngu fyrir mína tíð en ég get ekki stillt mig um að nefna það þegar menn eru að tala um að enginn deili um það að EFTA hafi skilað okkur miklu að ég kannast ekki við að hafa séð neitt mat á því. Er til eitthvert mat á því hverju aðildin að EFTA hefur skilað íslenskri þjóð? Við getum að vísu ekki svarað því hvað hefði gerst ef við hefðum ekki gengið í EFTA en ég man ekki annað en ýmsar iðngreinar, svo sem húsgagnaiðnaður, hafi lent í miklum erfiðleikum og nánast lognast út af í samkeppninni við innflutning frá EFTA-þjóðunum. Það kann að vera að það hafi skilað neytendum einhverju. Það hefði verið afar fróðlegt, og ég hefði í rauninni talið það sjálfsagt, að áður en menn færu að meta samninginn um EES hefði verið gerð úttekt á því hverju EFTA hefur skilað, ef við reynum að meta það hverju svona samningar skila, í stað þess að þurfa að hlusta á endalausar órökstuddar fullyrðingar um að þessir samningar og samningurinn um EES skili svo og svo miklu. Hann skilar tækifærum í atvinnulífinu, hann skilar 96% tollalækkun, segir utanrrh., hann skilar 7 milljarða gróða og ég veit ekki hvað og hvað. (Gripið fram í.) Já, skuldirnar hverfa.
    Þetta er málflutningur af því tagi sem mér finnst ekki hæfa svona stóru máli og því er það sem ég segi að þessir menn og einkum og sér í lagi utanrrh. tali eins og trúboði. Það gildir reyndar um viðskrh. líka. Þeir eru svo innilega sannfærðir og þeir tilheyra svo sterkt þeim hópi sem betur þykist vita en allir aðrir að þeir telja sig færa um að slá fram endalausum fullyrðingum. Eins og ég hef margoft tekið fram í umræðum um þetta mál, þá er alveg ljóst að þessum samningi fylgja bæði kostir og gallar. Við erum stöðugt að reyna að meta bæði kosti og galla, en þessir menn tala eins og það sé ekki nokkur einasti galli eða nokkurt spurningarmerki sem þarf að setja við þetta mál. Ef maður færi út í fullyrðingar um að hér sé ekkert afsal á fullveldi, ekkert afsal á valdi, hvorki löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi né dómsvaldi, eins og kemur fram, þá er það náttúrlega í hött miðað við það sem sérfræðingar hafa haldið fram þar sem menn eru að velta málunum fyrir sér.
    Ég endurtek það enn einu sinni að ég virði þá skoðun ef menn eru sannfærðir um að þessi samningur færi Íslendingum ávinninga og þeir rökstyðji þá afstöðu sína, en þessar rakalausu fullyrðingar og hroki sem menn leyfa sér í þessari umræðu eru ekki sæmandi svona stóru og alvarlegu máli.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um fullyrðingar utanrrh. um Kvennalistann, sem hann lét falla hér í gær. Þær eru a.m.k. ekki svara verðar en sýna náttúrlega viðhorf ráðherrans sjálfs og hvað hann leggst lágt í umræðunni.
    Ráðherrann gerði mikið mál úr því að þjóðin biði viðþolslaus, hinir atvinnulausu og aðrir biðu eftir því að þessi samningur yrði samþykktur á Alþingi Íslendinga. En ég vil minna á það að býsna margir hafa enn þá von í brjósti að þessi samningur verði ekki að veruleika og telja að gallar hans séu svo miklir að hann beri að fella eða reyna að finna einhverjar leiðir til þess að reyna að koma í veg fyrir að hann verði samþykktur. Menn skulu því fara svolítið varlega í öllum þessum fullyrðingum.
    Eitt atriði til viðbótar verð ég að nefna, virðulegi forseti, og fram kom í umræðunni í gærkvöldi. Það varðar það sem fram kom í ræðu hv. þm. Árna R. Árnasonar þar sem hann fjallaði um landbúnaðarmálin. Mér sem fulltrúa í landbn. kom nokkuð á óvart sú fullyrðing hans að niðurstaða landbn. hefði verið ágreiningslaus varðandi innlendar landbúnaðarafurðir. Ég átta mig ekki á því hvert hann er að fara með þessari fullyrðingu. Það er rétt sem fram hefur komið hér í umræðunni að landbn. fór afar vel ofan í þetta mál og kallaði til fjölda sérfræðinga og fékk álitsgerðir en ég kannast ekki við það að nefndin sjálf hafi gefið frá sér einhverja niðurstöðu. Það hefur þá algerlega farið fram hjá mér ef slíkt hefur átt sér stað. Það var skrifað bréf, og reyndar fleiri en eitt bréf til utanrmn., m.a. til að biðja nefndina að kanna þetta mál rækilega. Síðar var sent bréf eftir að sú rannsókn, sem landbn. stóð fyrir, hafði farið fram. Í þessum bréfum, sem undirrituð er af Agli Jónssyni, formanni landbn., kemur ekki fram neitt álit landbn.
    Það má kannski segja að nefndin hafi komist að niðurstöðu um það hvernig landið lá. Það er einfaldlega þannig að ríkisstjórnin hefur samþykkt ákveðna túlkun á bókun 3 og það verður að koma í ljós hvernig hún verður túlkuð í framtíðinni. Eftir því sem ég best veit liggur ekkert fyrir um túlkun Evrópubandalagsins á þessum málum og það mun koma í ljós, eins og ég sagði, hvert þetta leiðir. Ég er í rauninni að gera athugasemd við þessa fullyrðingu hans en ég hef sjálf ekki haft miklar áhyggjur af því sem snertir landbúnaðinn heldur fyrst og fremst því atriði að það vakti auðvitað áhyggjur að sjá hversu illa hafði verið gengið frá bókuninni. Það voru hreinlega samningaglöp hvernig bókunin var orðuð og síðan er ríkisstjórnin að reyna að bjarga því með því að samþykkja ákveðna túlkun á málinu. Fulltrúar ráðuneytanna, sérstaklega utanrrn., töldu ekki ástæðu til þess að hafa neinar áhyggjur af þessari umdeilanlegu bókun. Reyndar var landbrn. ekki alveg sammála en þetta er í raun og veru nokkuð opið.
    Að mínum dómi komst nefndin að niðurstöðu um það hvernig málið væri statt en gaf ekki frá sér neitt álit eða ágreiningslausa niðurstöðu, eins og þingmaðurinn sagði. Ég vildi gjarnan að hann rökstyddi þessa fullyrðingu. Hann virðist túlka það þannig að fyrst ekki komi einhvers konar tvískipt álit eða einhverjar skýrar skoðanir hafi verið alger samstaða í nefndinni en ég veit reyndar að svo er ekki.
    Virðulegi forseti. Það væri hægt að hafa hér langt og mikið mál um mörg fleiri atriði. Við 2. umr. hafði ég ætlað mér að taka fyrir nál. meiri hluta utanrmn. vegna þess að það álit er yfirfullt af alls konar fullyrðingum sem er vert að ræða, en ég veit ekki hvort ástæða er til að vera mikið að fara út í þá umræðu hér. Það hefur þegar farið fram atkvæðagreiðsla um þetta mál í þinginu og ég held að okkur sé öllum ljóst hvernig staðan er. En það breytir því auðvitað ekki að enn hafa menn ýmislegt að segja.
    Ég ætla aðeins að nefna það sem kom m.a. fram í máli forsrh. í gærkvöldi að forustumenn stjórnarflokkanna eru alltaf að býsnast yfir því að hér hafi umræðan verið löng og meiri en hjá öðrum EFTA-ríkjum. Ég velti því fyrir mér hvernig þeir sjá fyrir sér stöðu Íslands. Mér finnst það svo augljóst að við erum í allt annarri stöðu en önnur ríki EFTA. Við erum ekki tengd við fastalandið. Við erum örlítil smáþjóð sem ætíð hlýtur að velta fyrir sér hverju skrefi sem stigið er í samvinnu við aðrar þjóðir. Eins og öllum má ljóst vera, þá er einfaldlega miklu meiri andstaða við þetta mál hér en í öðrum EFTA-ríkjum. Það rifjar upp fyrir mér það sem fram kom í ræðu hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar áðan um það að þjóðir Norðurlandanna ætluðu sér inn í EB. Það eru reyndar fyrst og fremst stjórnmálamennirnir sem ætla þangað og svo virðist samkvæmt skoðanakönnunum sem þar sé nú meiri hluti á móti aðild að EB. Þannig að jafnvel þar sem kratarnir eru svona sterkir eru uppi miklar efasemdir um hvaða skref er rétt að stíga í samvinnu við aðrar þjóðir. Menn hljóta að skilja að það er ekkert undarlegt við það að Alþingi Íslendinga og íslenska þjóðin liggi vel og lengi yfir þessu máli og vilji vita vel hvað hún er að gera.
    Virðulegi forseti. Þetta er mín síðasta ræða í þessu máli. Ég held að ég hafi það sem mín lokaorð að ég tel að hagsmunum Íslendinga væri betur borgið utan EES en innan og tel að við eigum aðra möguleika í stöðunni en að ganga inn á hið Evrópska efnahagssvæði. Ég hef miklar efasemdir um þá hugmyndafræði sem býr þar að baki og ég get ekki leynt þeim ótta mínum að með þessu skrefi sé verið að tengja okkur Evrópubandalaginu og að það verði hugsanlega ekki aftur snúið.
    Við erum mikið spurð að því hvaða möguleikar það eru sem við eigum og ég viðurkenni það fúslega að það er ekkert eitt sem hægt er að benda á sem einhverja lausn. Lausnin felst fyrst og fremst í því að leita í margar áttir, leita allra leiða, í austur, vestur, austur til Asíu og út um allan heim og að horfa á okkur í miklu stærra samhengi en þessu Evrópusamhengi. Það er mín skoðun að viðskipti okkar við Evrópubandalagið séu orðin hættulega mikil, að við séum farin að treysta alltof mikið á einn ákveðinn markað og að það verði affarasælast fyrir okkur að leita til fleiri átta.
    Síðast en ekki síst, virðulegi forseti, tel ég að með þessum samningi, ef af honum verður, það er nú reyndar óljóst enn þá hvað um samninginn verður og kann að vera að ýmislegt eigi eftir að gerast --- nú hristir hv. 17. þm. Reykv. höfuðið, hann er mjög sannfærður um það að af þessum samningi verði eins og fleiri kratar hér í þinginu, en það getur ýmislegt átt eftir að gerast á þeim mánuðum sem fram undan eru. Maður veltir því auðvitað fyrir sér hvort Evrópubandalaginu þyki taka því að ganga í gegnum þennan millileik eða þennan hálfleik sem EES hugsanlega er. Úr því verður nú framtíðin að skera. En allra síðast, virðulegi forseti, er það nú svo að við kvennalistakonur erum hingað komnar á Alþingi Íslendinga til þess að reyna að gera allt það sem í okkar valdi stendur til þess að bæta stöðu kvenna og barna í okkar þjóðfélagi og ég tel að þessi samningur um Evrópskt efnahagssvæði, ef hann verður að veruleika, verði kvennabaráttu fremur til trafala en til hins betra. Ég tel að við séum með honum að stefna að aðlögun að þjóðfélagsþróun sem mér er ekki að skapi. Ég tel að sú þróun gangi þvert á það sem æskilegt er og þá er ég að tala um þjóðfélög sem bjóða þegnum sínum upp á meira jafnrétti, meira öryggi og meiri jöfnuð en við sjáum nú. Ég held að því miður séum við að stefna að aðlögun sem muni draga úr þeim réttindum sem við höfum hér og að fram undan sé þróun sem því miður muni ekki færa okkur börg í bú.