Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 16:20:46 (4494)


     Össur Skarphéðinsson ( andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir telur sig ekki hátt söðlaða í samanburði við forvígismenn íslensks athafnalífs þegar kemur að því að meta ávinninga Evrópska efnahagssvæðisins. Ég er henni sammála. Ég tel að þeir hafi mun meira vit á því heldur en hv. þm. og flestir aðrir sem hér eru inni. Ég tel að við eigum auðvitað að fara að ráðum sérfræðinga eins og þeirra.
    Hún sagði í sinni fyrri ræðu að hún gerði sér ekki fyllilega grein fyrir ávinningum Evrópska efnahagssvæðisins. Í svari sínu hér áðan við spurningum mínum kom eigi að síður fram að hún fellst á að það er verulegur ávinningur fólginn í tollalækkunum. Gera menn sér ekki grein fyrir því hvernig veröldin er að þróast í kringum okkur? Við hverja erum við helst að keppa? Við erum helst að keppa við Norðmenn. Hvað er að gerast í Noregi? Þeirra sjávarútvegur og þeirra fiskveiðar eru að stóreflast. Þeir hafa aðgang að fiskstofnum í Barentshafi sem eru á ótrúlegri uppleið. Það er talið að áður en þessi áratugur er úti muni þeir draga úr Barentshafi, ásamt Rússum, 800 þús. tonn af þorski. Getur hv. þm. ekki gert sér í hugarlund hvernig samkeppnisstaða okkar væri gagnvart þessari þjóð ef þeir væru innan Evrópska efnahagssvæðisins en við ekki? Ef þeir ættu kost á að hella inn á þessa markaði miklu magni af þorski meðan við með okkar tiltölulega veikburða stofna núna en ætlum að keppa við mikið magn þeirra og þar að auki við tollfrelsi þeirra, ef við ættum að búa við þessa tolla. Hvaða afleiðingar hefði það til að mynda fyrir ýmsa staði sem byggja á útgerð eins og Suðurnesin. Ég nefni þau sérstaklega vegna þess að Samtökum um

kvennalista er tíðrætt um atvinnuástand á Suðurnesjum. Evrópskt efnahagssvæði mun taka við þeim fullunnu sjávarafurðum sem einmitt eru unnar þar, sem einmitt hafa verið þróaðar þar. Ég tek þetta sérstaklega sem dæmi vegna þess að það er ekkert svæði á Íslandi sem mun fara jafnilla út úr því ef stjórnarandstöðunni og hv. þm. tekst að koma því svo fyrir að við ferðumst utan Evrópska efnahagssvæðisins, en einmitt þessu kjördæmi þar sem atvinnuleysið er mest og sem Samtök um kvennalista hafa ítrekað gert að umræðuefni einmitt hér. ( Gripið fram í: Hver er með málþóf núna?)