Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 16:47:41 (4498)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. talaði um það að það væri mjög sérkennilegt að heyra það frá andstæðingum þessa samnings að þeir teldu að það ætti að auka viðskiptin við Bandaríkin. Ég er ein af þeim sem hafa sagt það að við ættum að efla og halda tengslum við Bandaríkin, sem og reyndar önnur svæði. En síðan sagði hann --- ég man ekki nákvæmlega orðalagið --- að ausa sér yfir EB og vilja ekki gera viðkiptasamning við Evrópubandalagið. Það á alla vega ekki við mig né aðrar kvennalistakonur, við höfum aldrei nokkurn tímann sagt að við værum á móti því að gera viðskiptasamning við Evrópubandalagið. Við hvern átti þingmaðurinn þegar hann segir að einhverjir --- ég hef ekki heyrt það hér að neinn sé á móti því að gera viðskiptasamning við Evrópubandalagið, hvorki ég né aðrir sem ég hef hlustað á. Við höfum alltaf lagt áherslu á að eiga viðskipti við allar þjóðir, ekki aðeins við EB heldur einnig við Bandaríkin og önnur svæði. Ég hef aldrei heyrt neinn annan halda neinu öðru hér fram í þessum þingsal. En Evrópska efnahagssvæðið og aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu er allt annað en viðskiptasamningur. Það er miklu meira heldur en það. Með Evrópska efnahagssvæðinu eru sjálfstæðar þjóðir ekki að gera með sér venjulegan viðskiptasamning heldur eru þær að gera miklu meira, þær eru að afsala sér ákveðnum völdum sem eru miklu víðtækari heldur en bara á viðskiptasviðinu og þær eru að láta í hendur yfirþjóðlegra stofnana vald sem annars er falið þingi, ríkisstjórn og dómstólum. Þannig að mér þykir þingmaðurinn skulda okkar ákveðna skýringu á þessum orðum sínum.