Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 16:49:48 (4499)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég skulda e.t.v. þá skýringu að hafa ekki tekið það nógu skýrt fram að ég var að ræða um almenn viðhorf til þessara mála og ég var í sjálfu sér ekki að tala beint til þingmanna í salnum. Ég var að tala um þau viðhorf sem eru í gangi í þjóðfélaginu. Þar eru vissulega til og ég hef heyrt uppi þau sjónarmið að við ættum meira að segja að ganga svo langt að loka sendiráðum okkar í Evrópu og snúa okkur helst nánast alfarið að öðrum hlutum heimsins. Nú er það einu sinni svo að við erum á hverjum tíma að leita fyrir okkur með viðskipti hvar sem við komum því við og við höfum notað til þess þær tollaívilnanir sem við höfum fengið m.a. hjá GATT. Á því byggjast samningar okkar um tollfrelsi sjávarafurða og ullarvarnings, bæði við Bandaríkin og Japan. Við höfum gert samninga inn á við við Evrópu og þannig er það einu sinni enn þann dag í okkar heimi, hvernig sem það verður í framtíðinni, að annars vegar er um að ræða alþjóðaviðskipti sem byggjast á reglum sem þar að lúta og síðan þrengri viðskiptaheildir. Bandaríkin hafa verið að mynda sína viðskiptaheild og ég get fullyrt það að ég deili þeirri skoðun, sem ég tel vera skoðun hv. þm. sem hér var með andsvar, þess efnis að það æskilega form er að þetta færist sem mest yfir í almennar reglur á alþjóðasviðinu. En hitt er engu að síður staðreynd að ríkjahópar hafa tekið sig saman, næstu ríki, og myndað nánari reglur um sín viðskipti. Það er væntanlega á þeim forsendum sem hv. þm. telur, eins og ég, að það sé nauðsynlegt að ná hagstæðum viðskiptasamningi við Evrópubandalagið.