Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 16:53:21 (4501)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér varð það á við upphaf umræðu í gær að fara viðurkenningarorðum um hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, hv. 6. þm. Norðurl. e. Nú heyri ég að hann hefur tekið það mjög nærri sér og mér þykir alveg sjálfsagt að sýna honum þá nærgætni í framtíðinni að láta vera að hæla honum jafnvel þótt hann kynni að gefa tilefni til.
    Hv. þm. beindi til mín spurningum um afstöðu til þess að íslensk stjórnvöld leituðu eftir því að breyta EES-samningnum að formi til í tvíhliða samning. Þessa spurningu höfum við rætt nokkuð oft áður. Það fyrsta sem um hana er að segja er að ef EES-samningnum verður hafnað á Alþingi Íslendinga þá verður honum náttúrlega ekki breytt í eitt eða neitt. Til þess að verða við þessum tilmælum hv. þm. þarf með öðrum orðum að samþykkja samninginn. Og liðveisla hans í því efni væri að sjálfsögðu vel þegin þar af leiðandi. Síðan er þess að geta að þótt þetta sé þjóðréttarsamningur milli Íslands og Evrópubandalagsins að formi til eru samningarnir tilkomnir sem fjölþjóðasamningar. Nú er spurningin sú: hin ríkin hafa sótt um aðild að Evrópubandalaginu. Við vitum ekki á þessari stundu hvort það verður niðurstaðan, hvort sú afstaða stjórnvalda í þessum löndum hlýtur stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þaðan af síður vitum við hvenær það yrði. Við vitum með öðrum orðum ekki hvort Ísland að lokum verður eitt EFTA-ríkjanna gagnvart Evrópubandalaginu. Þá spurningu höfum við hins vegar rætt í tvígang með formlegum hætti við forsvarsmenn Evrópubandalagsins, þ.e. við utanríkisráðherra þess, Andriessen, og við þann utanríkisráðherra sem gegndi síðast formennsku, Douglas Hurd. Í báðum þessum samtölum varð sameiginleg niðurstaða milli okkar, þ.e. að ef svo færi að Ísland yrði eitt eftir þá myndum við taka upp samninga sem þýddu eftirfarandi: Brott féllu stofnanir til eftirlits og dómstólsstofnun og við tæki sameiginleg nefnd til þess að stýra framkvæmd samningsins. Þá hefði hann í reynd breyst í tvíhliða samning. Ég segi fyrir mitt leyti og segi það að höfðu samráði við forsrh. að við erum báðir reiðubúnir til þess að taka þetta mál upp formlega þá í þriðja sinn í formi bréfs til framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins og óska eftir formlegum umræðum við bandalagið. En það verður hins vegar að ráðast af atburðarásinni hvenær tímabært væri að fara í slíka samninga. Forsendan í því öllu saman er náttúrlega sú að þessi samningur verði samþykktur.