Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 17:57:27 (4507)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get út af fyrir sig verið alveg sammála hv. þm. um það að ég tel að vinnubrögð utanrrh. í þessu máli séu slæm. Ég tel að þau hafi klofið þjóðina, flokka, umfram það sem þurft hefði að vera, svo að ég nefni það sem ég er honum sammála um. Ég er einnig sammála honum um það sem hann segir í sinni atkvæðaskýringu að við höfum ekkert að gera inn í EB, eins og mig minnir að hann orði það.
    Hins vegar finnst mér að hann skuldi bæði mér og öðrum þingmönnum skýringu á því með hvaða hætti hann mótmælir þeim rökum, sem m.a. hafa verið flutt af formanni þingflokks Framsfl., sem hefur sagt hvorki meira né minna en það að með samningnum afsölum við okkur frumburðarrétti Íslendinga til landsins og auðlinda þess og í samningnum felst mikið auðlindaafsal. Það að búa við þessa yfirlýsingu af hálfu síns þingflokksformanns kallar á feikilega gild rök og önnur en trú á því að það sé betra að samþykkja samninginn til að ná tvílhliða viðræðum en ekki. Það er einungis trú sem hv. þm. ber fyrir sig og ég segi mikil er trú þín, hv. 6. þm. Norðurl. e.