Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:06:33 (4514)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þótt ég vilji með engu móti blanda mér í þessar innbyrðis deilur stjórnarandstöðuflokkanna tel ég óhjákvæmilegt að taka það fram að gefnu tilefni að ég stend við það sem ég sagði í ræðu minni í gærkvöldi og var byggt á varfærnislegum útreikningum um það að EES-samningurnn muni færa okkur um það bil 1,5% viðauka við okkar landsframleiðslu. Ég tek það fram að það er að sjálfsögðu undirskilið að þetta gerist að loknum aðlögunartíma og það segir sig sjálft. Það gerist að sjálfsögðu svo um tollalækkanir sem verða á aðlögunartíma. Það gerist um mat á vaxtalækkunum sem eru einnig umsamdar á aðlögunartíma. Það gerist um verðlagsáhrif. Það gerist sömuleiðis um aukna framleiðni á grundvelli bættrar verkaskiptingar og verðmætasköpunar í útflutningi.
    Ég tek því ekki gildar umvandanir hv. þm. Svavars Gestssonar og leiði fram eitt stjörnuvitni sem er formaður Alþb. Í skýrslu þeirri sem formaður Alþb., þá fjmrh., gaf út til þess að meta áhrif EES segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Heildaráhrifin eru jákvæð. Margt bendir til þess að aðlögun íslensks efnahagslífs að evrópska markaðnum muni hafa jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs. Áhrifin koma bæði fram í auknum tekjum, vegna meiri umsvifa í efnahagslífinu, og sparnaði í ríkisútgjöldum. Þessi áhrif``, segir formaður Alþb., ,,gætu mælst á bilinu 4--6 milljarðar kr. þegar upp er staðið eða sem svarar 1--1,5% af landsframleiðslu.``
    Hér er formaður Alþb., þáv. fjmrh., eingöngu að leggja mat á áhrifin á ríkisfjármálin. Ég er að tala um skýrslu fjmrn. í apríl árið 1991. Þetta er viðhorf formanns Alþb. á þeim tíma sem þá var fylgismaður EES sem kunnugt er.
    Þegar menn síðan bæta við öðrum þáttum fyrir utan áhrifin á ríkisfjármálin segir það sig sjálft, eins og ég sagði, að það væri varfærnislegt mat að áhrifin yrðu þessi þegar þau hafa öll komið til skila og um það verður ekki deilt að þetta er varfærnislegt mat.