Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:11:08 (4516)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta þras er sjálfsagt ekki mjög upplýsandi en eftir stendur að hv. þm., fyrrv. formanni Alþb., hefur ekki tekist að hnekkja því að þetta er varfærnislegt mat. Honum hefur ekki tekist að hnekkja því sem ég hafði hér orðrétt upp úr skýrslu fyrrv. hæstv. fjmrh. Menn gætu deilt um það hvort það hefði komið nægilega vel fram á hve löngum tíma þetta gerðist, en að sjálfsögðu, eins og ég tók fram, gerist það á einhverjum aðlögunartíma. Um þetta má út af fyrir sig segja að það gildir svipað þegar menn reyna að leggja mat á þessa hluti eins og þegar menn eru að úthluta veiðiheimildum. Engin trygging er fyrir því að sá sem fær kvóta nái kvótanum. En hann nær engum kvóta nema hann hafi a.m.k. kvótaúthlutunina. Út af fyrir sig er engin trygging fyrir því að þau tækifæri sem bjóðast með þessum samningi nýtist og skili hámarksárangri nema tækifærin verði nýtt. En frumforsenda þess er að menn hafi rétt til að starfa á þeim mörkuðum á jafnréttisgrundvelli sem þjóðin byggir afkomu sína á.