Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:13:45 (4518)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 9. þm. Reykv., sem hér talaði, lýsti áhyggjum sínum yfir því að hann hefði

ekki gert sér grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég verð að segja alveg eins og er að það komast ekki mjög margir að á mælendaskrá, a.m.k. ekki á meðan hv. 9. þm. Reykv. talar, svo mikið sem hann leggur upp úr því að geta lagt undir sig nokkuð marga dálksentimetra í þingtíðindunum. En ég verð að segja eins og er að ég er ekki viss um að þjóðin sé miklu nær þrátt fyrir margra klukkutíma ræður hver afstaða hans er til efnisþátta þessa samnings. Hann hefur haft uppi langar ræður um það sem hafa verið heimspekilegar hugleiðingar, aðallega um afstöðu annarra hv. þm. í umræðunum. Ég hlustaði m.a. á merka ræðu hv. 9. þm. Reykv. þar sem hann velti fyrir sér því sem þyrfti að gera þegar samningurinn hefði orðið að veruleika. Það þótti mér reyndar mjög skynsamlegar og þarfar umræður og mikilvægar í rauninni. Mér sýndist að hann hallaði sér þá stundina mjög mikið að sessunauti sínum, hv. 10. þm. Reykv., sem mér sýnist að hann öfundi nokkuð mikið af afstöðu sinni. Það hefur komið stöðugt meira fram eftir því sem líður á umræðurnar að hv. 9. þm. Reykv. saknar þess að geta ekki verið í fótsporum þess hv. þm.