Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:15:27 (4519)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég harma auðvitað að það skuli ekki verða 4. umr. um þetta mál þannig að ég geti talað einu sinni enn til að gera hv. 1. þm. Vesturl. grein fyrir afstöðu minni í málinu. Mér þykir líka vænt um að honum skuli finnast svona gaman að heyra mig tala. Ég er ekki viss um að það eigi við um marga fleiri í salnum. En vonandi fæ ég tækifæri til að bæta úr því þó síðar verði. En gallinn er hins vegar sá að í orðum hans eða andsvari hér áðan þá kom ekki fram hvaða rök hann hefði fyrir afstöðu sinni varðandi EES. Hvaða hagsmunir Vesturlands eru það sem ráða úrslitum um afstöðu hans? Hvaða hagsmunir eru það í Dalasýslu, Snæfellsnessýslu, Búðardal, Stykkishólmi, Grundarfirði, Hellissandi, Akranesi, Borgarnesi, uppsveitum Borgarfjarðar sem ráða úrslitum um að þessi þingmaður telur ástæðu til að greiða atkvæði með Evrópsku efnahagssvæði? Það nefndi hann ekki hér. Hann hefur bersýnilega gleymt uppruna sínum þegar kemur að þessu máli.