Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:17:54 (4522)

     Frsm. 1. minni hluta utanrm. (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Ég sagði í síðari ræðu minni í gær að ég kynni að þurfa að svara nokkru síðar sem hafði komið fram hjá hæstv. utanrrh. Ég svaraði að vísu einu atriði í gær og það voru ummæli hans um þann ágæta og virta þjóðréttarfræðing dr. Guðmund Alfreðsson en ég fer ekki nánar inn á það.
    Ég hef hugleitt þetta nokkuð og ég finn reyndar afar fátt svaravert í ræðu hæstv. utanrrh. Reyndar ekki nema eitt. Hann veifaði blaði um hagkvæmni samningsins sem mátti eiginlega skilja að væri glóðheitt úr prentvél Þjóðhagsstofnunar. Vissulega hefur ræðumaður á undan mér fjallað um það en ég tel rétt að koma einnig inn á það því að ég gerði mér ferð í Þjóðhagsstofnun til að fá skýringar á þeim tölum sem hæstv. utanrrh. flutti fyrir alþjóð. Ég verð því miður að segja að ekki stendur steinn yfir steini. Þjóðhagsstofnun hefur enga nýrri athugun gert en þá kemur fram í skýrslu Þjóðhagsstofnunar frá september 1991. Reyndar hófst vinna við það verk að mínu frumkvæði í þeirri ríkisstjórn sem við sátum í saman. Í skýrslunni kemur fram tafla sem ég ætla aðeins að fara yfir þar sem segir: ,,Athugun á efnahagslegum áhrifum EES með 5% verðhækkun sjávarafurða``. Þar er gert ráð fyrir því að sjávarafurðir hækki um 5% fyrir utan þau áhrif sem kunna að vera frá samningnum. Þar eru sett upp lítil áhrif og mikil áhrif og hvort tveggja metið, annars vegar eftir fjögur ár og hins vegar eftir átta ár. Þar er metið að verg landsframleiðsla miðað við lítil áhrif aukist eftir fjögur ár um 0,4% en eftir átta ár um 0,6%. Hins vegar ef áhrifin verði mikil þá kunni verg landsframleiðsla að aukast um 0,6% eftir fjögur ár en eftir átta ár um 1,4%. Þess má geta að ein af forsendum áætlunarinnar er að tveir þriðju af tollalækkun sem um verður samið komi í okkar hlut. Út af fyrir sig eru það mjög umdeilanlegar forsendur. Eins og ég kom inn á í gær hefur SÍF ráðlagt meðlimum sínum að reikna ekki með því að tollalækkunin komi nema að litlum hluta í hlut Íslendinga.
    Ég ætla ekki að lengja þetta með því að fara yfir ýmsa aðra liði sem hér eru raktir. Þó er fróðlegt að Þjóðhagsstofnun telur að mesta aukningin verði í einkaneyslu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég held að okkur sé ekki til hagsbóta að einkaneyslan aukist mjög mikið frá því sem nú er.

    Fleira kom fram hjá hæstv. ráðherra. Hann mat að sú hækkun sem hann sagði að væri 1,5% þýddi ef ég man rétt um 6--7 milljarða búbót fyrir okkur Íslendinga. ( Gripið fram í: 7 milljarða.) 7 milljarða, sagði hæstv. ráðherra. Jafnvel þótt við metum nú þjóðartekjurnar 400 milljarða, sem ég hygg að þær hafi ekki alveg náð, þá getum við ekki fengið út úr þessu neitt þessu líkt heldur í mesta lagi 5,6 milljarða. Reyndar eru þjóðartekjurnar ekki fullkomlega 400 milljarðar ef ég veit rétt en það eru þá mestu áhrif eftir átta ár. Ég og margir aðrir sem ég hef spurt skildu ummæli hæstv. ráðherra þannig að þetta væri eitthvað sem kæmi til okkar um leið og við skrifuðum undir samninginn, eða a.m.k. á því fyrsta ári. Ég hef engan heyrt sem hefur skilið hefur þetta á annan veg og hef ég þó ýmsa spurt.
    Hæstv. ráðherra sagði fleira. Hann sagði m.a. að sjávarútvegurinn ætti að fá um 3,5% aukningu á veltu sinni, þ.e. afkoman ætti að batna um 3,5%. Satt að segja gat enginn uppi í Þjóðhagsstofnun, ekki forstjórinn sem ég talaði við, skýrt mér hvernig í ósköpunum sú tala væri fengin. Það væri út af fyrir sig fróðlegt að vita frá hæstv. ráðherra hvernig sú tala er fengin. Meira að segja var mér bent á að í áætlun Þjóðhagsstofnunar frá 22. nóv. þar sem afkoma sjávarútvegsins er metin fyrir árið 1993 segir: ,,Áhrif hækkunar verðs á sjávarafurðum erlendis um 1,8%``, það eru plús 1,8 milljarðar --- þarna er búið að taka inn þá bætta afkomu sjávarútvegsins sem fælist í þátttöku okkar í EES. Menn voru því að reyna að geta sér til hvort hæstv. ráðherra hefði margfaldað þessa tölu með tveimur eða þremur. Reyndar hlýtur það að vera með þremur af því að hún er komin inn og hann reiknar aftur tvöfalda þá tölu sem þarna er. Hér er vitanlega um svo mikla ónákvæmni að ræða að mér þótti, þótt aðrir hafi komið hér upp og vakið athygli á þessu, annað gjörsamlega útilokað en að koma þessum upplýsingum sem ég fékk frá Þjóðhagsstofnun nú eftir hádegið á framfæri í umræðunni.
    Mér dettur ekki í hug að segja að hæstv. ráðherra fari vísvitandi með rangar upplýsingar. ( Gripið fram í: Nú?) Nei, ég vil ekki trúa því. En einhver hjá honum sem hefur lagt fyrir hann vægast sagt vafasamar upplýsingar. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að ræða mjög alvarlega við þann ráðgjafa sinn. Það eru kannski smámunir að færa 1,4 upp í 1,5 en það er satt að segja mikil rangfærsla að segja að þetta sé varleg áætlun Þjóðhagsstofnunar. Varleg áætlun Þjóðhagsstofnunar er 0,4% á fjórum árum og 0,6% á átta árum. Það er varleg áætlun Þjóðhagsstofnunar.
    Með þessu er ég alls ekki að segja að ekki sé einhver búbót að þessum samningi, því fer víðs fjarri. Enda væri það meira en lítið undarlegt ef eftir fjögurra ára streð að ekki væri eitthvað komið þarna inn sem væri efnahagslífi okkar til framdráttar. Ég held hins vegar að út af fyrir sig sé mat á því mjög erfitt. Þetta vildi ég nú fyrst og fremst segja í þessari umræðu. Ég harma að ráðherrann skuli láta blekkja sig svona og láta hafa sig í það að fara með slíkar tölur fyrir alþjóð. Ég vil eindregið leggja á það áherslu að ráðherra vandi betur það sem hann kemur með hingað í þennan ræðustól.
    Fyrst ég stend hér þá get ég ómögulega annað en lýst hryggð minni yfir því sem ég er að heyra frá hv. alþýðuflokksmönnum. Ég hef satt að segja aldrei tekið það allt of alvarlega sem kemur frá ungum krötum en þó hlýtur maður að líta á það nokkuð alvarlegum augum. Þetta eru eflaust þeir menn sem eiga eftir að taka við og þegar þeir ítreka í hverri samþykkt sinni að við eigum að sækja um aðild að Evrópubandalaginu þá þykir manni það fara að verða nokkuð alvarlegt. Ég man ekki betur en að þeir hafi fyrir nokkrum dögum lýst fögnuði sínum yfir því að forsrh. væri að stíga fyrstu skrefin. Ég vona svo sannarlega að það sé ekki rétt. Mér þykir satt að segja öllu alvarlegra þegar hv. þm. Karl Steinar Guðnason lýsir því yfir að við eigum að sækja um aðild. Ég veit að hæstv. utanrrh. hefur lýst annarri skoðun og það er rétt sem hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh. að við töldum að viss vörn væri í því fyrir okkur Íslendinga ef við næðum viðunandi samningi um Evrópskt efnahagssvæði að samþykkja slíkan samning. Ég tel hann að vísu ekki viðunandi nú og tel hann ekki standast stjórnarskrána alveg sérstaklega. Ég sagði það í ræðu minni í gær að ég teldi þetta vissulega umhugsunarvert sjónarmið. Er það virkilega svo að við höfum rangt fyrir okkur, hæstv. utanrrh.? Ég vildi gjarnan fá að heyra frá hæstv. utanrrh. hvort hann tekur undir þessi ummæli hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar. Gaman væri nú að heyra það frá virtum manni eins og þingflokksformanni hv. Alþfl. hvort hann tekur undir þetta. Ég vona svo sannarlega að svo sé ekki. Þá færi maður rórri heim ef maður vissi það að jafnvel þingflokksformaðurinn tekur ekki undir þetta eða hæstv. utanrrh. Ég vil brýna þessa menn á því að standa vörð og fá unga krata af þessum ungæðishætti sínum. Það er vitanlega öllum ljóst hvað sem menn segja nú um hvað mikið af þessum lögum o.s.frv. verða íslensk lög að ef við gerumst aðilar þá fáum við ekki nema í mesta lagi einhvern frest til þess að lögleiða öll ákvæði Rómarsáttmálans. Ég veit t.d. að hæstv. utanrrh. man þegar við áttum viðræður við forseta Frakklands, Mitterrand. Það kom greinilega fram hjá honum. Það kom greinilega fram í öllum viðræðum sem við höfum átt við þessa forustumenn. Það kom greinilega fram þegar ég átti viðtal við Kohl, kanslara Þýskalands, að það væri ekki um að ræða varanlegar undanþágur frá Rómarsáttmálanum. Engin þjóð hefur fengið það. Grikkir fengu tímafrest. Fyrir mig varðar það afar miklu, réttara sagt ætti ég kannski að segja að það er einskis virði að fá nokkurra ára frest ef svo allt heila báknið fellur yfir okkur.
    Satt að segja hélt ég ekki að við þyrftum að ræða hér um hugsanlega aðild að Evrópubandalaginu og þykir það afar sorglegt að einn hv. þm. skuli taka það á dagskrá.
    Að lokum vil ég aðeins segja að ég man þá tíð að hæstv. utanrrh. tók góðum ráðleggingum frá mér og eins og hann segir áttum við svo gott samstarf að hann fullyrðir að hnífurinn hafi ekki komist þar á milli og ég hef stundum tekið undir það. Ég ætla að gera tilraun til að gefa honum gott ráð. Hann hefur fengið atkvæðagreiðslu við 2. umr. og hann veit hvernig stuðingur er við samninginn. Nú á hann að láta sér það gott líka og á að fallast á að fresta 3. umr. Hann væri maður að meiri ef hann gerði það. Ég vek athygli á því að ef hann frestar 3. umr. þá getur hann borið fram sem brtt. við 3. umr. þær breytingar sem verður að gera á þessum samningi sem hann hefur sjálfur upplýst og enginn veit reyndar hvað verða miklar. En það verður að gera á honum breytingar. Þær má bera fram sem brtt. og afgreiða þær með samningnum við endanlega atkvæðagreiðslu við 3. umr. Að öðrum kosti verður að fara með þær brtt. í gegnum þrjár umferðir. Ég vil segja það í fullri hreinskilni að ég hlakka ekki til þess. Ég vildi miklu heldur losna við þetta mál út úr heiminum með því að taka þetta í einu lagi við 3. umr. Og hann þarf sannarlega ekkert að lítilsverða sig gagnvart sínum starfsfélögum erlendis sem maður hefur helst á tilfinningunni að hann telji sig annars gera ef hann fær ekki samninginn samþykktan. Hann getur borið höfuðið hátt og sagt: Það liggur alveg ljóst fyrir hvað Alþingi Íslendinga vill í þessu máli. Það liggur algerlega kristaltært fyrir. Og hann væri sem sagt meiri maður ef hann tæki þessum ráðum.
    Ég veit að hér hefur verið farið yfir greinargerð prófessors Björns Þ. Guðmundssonar. Mér er ljóst að ýmsir, því miður m.a. hæstv. utanrrh., hafa farið orðum um þann ágæta og virta vísindamann sem eru hæstv. ráðherra til minnkunar. Að vísu gerði hann það ekki hér úr ræðustól en maður heyrði það hér á göngum Alþingis frá ýmsum þingmönnum. Ég vona að það sé rangt hjá mér að hæstv. ráðherra hafi gert það en ég heyrði það hér nokkuð víða. Og það er ekki vert því að prófessorinn hefur rökstutt sitt mál mjög vel m.a. með tilvísun til hæstaréttardóms þar sem fram kemur að Hæstiréttur tekur málin mjög alvarlega. Jafnvel þótt röng skýring hafi verið gefin við eitt orð í frv., sem er orðið að lögum, hefur það orðið til þess að Hæstiréttur hefur litið málið mjög alvarlegum augum. Og það er staðreyndin við þetta mál að það er miklu meira en eitt orð sem þarf að breyta í þessum samningi. Þannig að það hafa komið fram mjög sterk rök fyrir því að samkvæmt íslenskri lagavenju og samkvæmt áliti Hæstaréttar þá er þetta mál alls ekki fært til lokaafgreiðslu. Þess vegna í fullum vinskap og með tilvísun til okkar fyrra samstarfs þá vildi ég nú freista þess að gefa hæstv. utanrrh. þetta ráð.