Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:42:15 (4528)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. 15. þm. Reykv. sem mótmælir þeim áformum að haldinn verði þingfundur á laugardegi, fundur sem við heyrum fyrst um nú að eigi að fara að efna til með þessu boði. Ég hef innt formann míns þingflokks eftir því hvað valdi og hann greinir frá því að það sé gert gegn mótmælum af sinni hálfu og fleiri þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar.
    Hér er búið að halda fundi í vikunni frá kl. hálfellefu sem er í fyrsta sinn að þannig hafi verið staðið að málum að hefja hér þingfundi að morgni með þessum hætti og halda þeim áfram fram á kvöld eins og hér hefur gerst. Og síðan á að kóróna þessa viku með því að boða til fundar á laugardegi. Það er ekki sýnilegt hvað veldur því að til þessa ráðs er gripið af forseta þingsins því ekki er rétt að segja forustu þingsins því að ekki mun forsætisnefndin sem slík standa að baki þessu fundarboði. Og svo bætist það við sem hér kom fram í máli hv. 15. þm. Reykv. að Samtök um kvennalista hafa sérstakan fund á landsmælikvarða með þátttöku af landinu öllu á morgun sem er löngu ákveðinn og það hefur ætíð verið tekið tillit til slíkra fundarhalda á vegum flokkanna. Þannig að það þarf meira en lítið að liggja á ef þörf er á að fara að halda fund á laugardegi með þessum hætti. Ég vil mótmæla þessu. Ég tel þetta vera, ég vil ekki

nota þau orð sem mér eru í rauninni í hug varðandi þetta úr ræðustólnum, virðulegur forseti, mér finnst þannig að máli staðið að þessu leyti. Og náttúrlega ekki nokkur einasta ástæða til þess að vera að halda þinginu með þessum hætti áfram.
    Við erum komin hér til þings á óvenjulegum tíma. Við höfum unað því að sjálfsögðu að svo væri gert. Það var gert ráð fyrir því fyrir jólin. Við getum auðvitað haldið þessu þinghaldi áfram eins og þörf er á að mati ríkisstjórnarinnar, það hefur enginn mér vitanlega mótmælt því, og tekið hér til við málin með eðlilegum hætti í næstu viku. En ég verð að segja það að mér finnst mjög óeðlilegt að vera að efna til þingfunda fyrir hádegi hér á Alþingi til þess að ræða mál ef slíkir fundir eiga síðan að standa fram á kvöld eins og gerðist þessari viku. Þannig að ég vona að það verði ekki endurtekið í þeirri næstu.