Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 19:11:43 (4540)

     María E. Ingvadóttir :
    Hæstv. forseti. Á árinu 1905 börðust stórhuga og framsýnir menn fyrir því að hér yrði lagður sími. Það gekk ekki átakalaust fyrir sig. Enn eru til stórhuga menn á íslandi, menn sem kjósa samstarf í stað einangrunar og framfarir og þróun í stað afturhalds og stöðnunar. Þessir menn kjósa samstarf við önnur Evrópuríki, kjósa að sitja við sama borð og samkeppnisaðilar þeirra.
    Það er gjarnan bent á að EFTA-samningurinn hafi ekki skilað þeim árangri sem vænst var --- en af hverju? Ein ástæðan var t.d. sú að þar var ekki tekið á þeim möguleika að ríki Evrópubandalagsins gætu beitt EFTA-ríkin svonefndum tæknilegum hindrunum, t.d. það að matvæli frá EFTA-ríkjum verða að uppfylla ákveðin skilyrði sem viðkomandi innkaupaland setur, oft beinlínis til að koma í veg fyrir innflutning á sama tíma og annað EB-land flytur óhindrað inn sínar vörur án þess að uppfylla þessar sérkröfur.
    Í EES-samningnum er tekið á þessum hlutum. Framleiðsluvörur EFTA-ríkja munu sitja við sama borð og vörur frá ríkjum Evrópubandalagsins. Hv. þm. Páll Pétursson talaði um það hér í morgun að atvinnuleysisstig hér á landi gæti orðið svipað og í Evrópubandalagsríkjum. Það er einmitt til að koma í veg fyrir enn meira atvinnuleysi hér á landi sem EES-samningurinn er mikilvægur. Eða heldur hv. þm. að atvinnuleysi vaxi ekki ef EES-samningnum verður hafnað? Menntað fólk á íslandi flýr ekki til annarra Evrópuríkja nema vegna mikils kjaramunar hér og þar.
    Mig undrar mjög að þeir sem hafa aðhyllst hið miðstýrða sovéska kerfi og hafa áhyggjur nú yfir því að EES sé aðeins skref inn í Evrópubandalagið skuli þá ekki einmitt fagna EES-samningnum. Ég lít á EES-samninginn sem mikilvægan fyrir okkar viðskiptamöguleika. Ég lít ekki á hann sem skref inn í Evrópubandalagið nema ef við óskum eftir því og í þeim efnum finnst mér að við ættum að flýta okkur mjög hægt. Eins og staða Evrópubandalagsins er í dag virðist það einna helst minna á miðstýrt bákn en á slíku hef ég ekki meiri trú nú en áður. Okkur liggur ekkert á að hugsa um aðild að Evrópubandalaginu. Leyfum þeim að koma sínum málum á hreint, bæði sína stjórnskipan sem annað. En okkur liggur á að samþykkja EES-samninginn einfaldlega til að auðvelda íslenskum fyrirtækjum markaðssókn inn á þennan markað sem er okkur svo mikilvægur.
    Það ágæta er að vaxtarbroddur viðskiptalífsins og uppbyggingarinnar innan Evrópubandalagsins er hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, en um 95% fyrirtækjanna eru af þessari stærðargráðu og þar eru um 75% alls vinnuafls. Minni fyrirtæki hafa meiri sveigjanleika og þar nýtur sín hagkvæmni stærðarinnar.
    Ef uppbygging íslensks iðnaðar hefur ekki skilað árangri sem skyldi er það vegna skilningsleysis og afskiptaleysis stjórnvalda á hverjum tíma. Sjávarútvegurinn er okkar mikilvægasti atvinnuvegur og iðnaðurinn hefur fallið í skugga hans. Á þessu hefur orðið nokkur breyting og það er mikilvægt að þingmenn trúi því að íslenskur iðnaður sé samkeppnisfær á erlendum mörkuðum. Íslensk fyrirtæki hafa nú þegar hafið ýmsar breytingar til þess að bæta sínar vörur þannig að þær uppfylli þær gæðakröfur sem krafist er og er það mjög af hinu góða. Nefna má að t.d. Japanir hafa nú hafið breytingar á gæðastuðlum til samræmis við EB. Það er því víst að þær kröfur sem EES-samningurinn gerir til framleiðsluvara eru ekki meiri en aðrar viðskiptaþjóðir gera og munu gera þannig að þessar kröfur þarf að uppfylla hvort sem samningurinn verður inni eða úti.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi hér áður að utanrrh. hefði fullyrt að skuldir mundu hverfa. Okkar skuldir hverfa ekki frekar en annarra en við höfum meiri möguleika á að greiða okkar skuldir með

bættum viðskiptakjörum. Hún benti einnig á að meiri hluti útflutnings okkar fer til Evrópuríkja og það er rétt. Yfir 70% okkar útflutnings fer til þessara ríkja og það er ekki talið klókt að hafa öll eggin í sömu körfunni. Viðskiptin við Evrópuríki eru ekki svona mikil af hreinni tilviljun. Viðskipti leita þangað sem þau eru hagstæðust. Íslensk fyrirtæki hafa hafið sókn á markaði Austur-Evrópu og þau viðskipti lofa góðu. Það er ekkert auðvelt að fara inn á nýja markaði. En samdráttur í fiskveiðum í Alaska og Kanada hefur flýtt því og með góðum árangri að hafin var markaðssókn bæði í Suður-Ameríku og Tævan auk Austur-Evrópu með ýmsar iðnaðarvörur tengdar sjávarútvegi. Íslensk fyrirtæki hafa nú þegar fjárfest í erlendum fyrirtækjum og fleiri slíkir samningar eru í farvatninu til að tryggja markaðsstöðu sína og auðvelda leiðir inn á markaðinn. Fjárfesting í fyrirtækjum innan Evrópubandalagsins auðveldar aðgang að þessum markaði.
    Það er nú einu sinni svo að samningur er þess eðlis að samningsaðilar samþykkja hann þegar þeir hafa fallist á skilyrði hans. Ef mjög er á einn hallað í samningi er um nauðungarsamninga að ræða. Hér er ekki um slíkt að ræða. Við viljum nýta þá möguleika sem samningurinn gefur okkur og það vilja aðrir samningsaðilar einnig. Ef erlendir aðilar sjá sér hag í því að fjárfesta á Íslandi væri það af hinu góða. Þeir sæju þar með möguleika á arðbærum rekstri alveg eins og íslenskir aðilar sjá hag í sínum fjárfestingum erlendis. Hagkvæmur rekstur kallar á vinnuafl og þjónustu og er öllum til hagsbóta. Í stað þess að óttast erlenda fjárfestingu á Íslandi ættum við að gera átak í því að laða hingað erlend fyrirtæki, nýta t.d. þá offjárfestingu í orkuframleiðslu sem hér er.
    EES-samningurinn opnar ekki leið til himnaríkis og eilífrar sælu en guð hjálpar þeim sem hjálpar sér sjálfur. Það gerum við nú með samþykkt EES-samningsins. Við ætlum að snúa vörn í sókn, samdrætti í uppbyggingu og fyllast þar með bjartsýni þar sem árangurinn er í sjónmáli.