Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 10:31:20 (4542)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Síðla á fundi í gær var rætt um það fundarboð sem þá hafði nýlega verið kynnt þingmönnum um að mæta til þingfundar á laugardegi klukkan hálfellefu til að ræða þetta dagskrármál sem er á dagskrá í dag. Ég mótmælti þessari fyrirætlan, þessu fundarboði, af hálfu hæstv. forseta og það gerðu fleiri þingmenn og átti ég raunar ekki frumkvæði að því að taka þetta mál hér upp. Talsmenn Kvennalistans minntu á það að í dag væri fundur á þeirra vegum þar sem væru boðaðir fulltrúar víða að af landinu og mótmæltu þessu sérstaklega og undir það tók ég og undir það tek ég. Ég vil, vegna þess að aðalforseti þingsins var ekki í forsetastól þegar þetta var rætt, ítreka þessi mótmæli af minni hálfu og ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvað valdi því fundarboði á þessum tíma sem ekki hefur verið gert ráð fyrir fyrr en í gær að þetta berst þingmönnum. Ýmsir þingmenn eru eðlilega farnir til síns heima eða til annarra verka þar sem laugardagur hefur ekki verið, nema við alveg sérstök og óvanaleg tilefni, fundardagur á Alþingi. Þegar svo stendur á að einn þingflokkanna er með fund af því tagi sem Kvennalistinn heldur í dag þá er þetta auðvitað þeim mun fráleitara og ég er aldeilis undrandi á því að hæstv. forseti skuli grípa til þess ráðs gegn mótmælum allra formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar. Ég leyfi mér, um leið og ég ítreka þessi mótmæli, að inna forseta eftir rökum fyrir þessu fundarboði og ég vil jafnframt spyrja forseta hver séu áform hans í sambandi við fundahald í dag.