Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 10:35:01 (4544)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti getur bætt nokkrum orðum við það sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. vegna fyrirspurnar til forseta frá hv. 4. þm. Austurl. um það hver væru rökin fyrir því að halda fundinn í dag. Það er rétt sem fram kom að forseti bauð að ljúka þessari umræðu í gærkvöldi ef menn treystu sér ekki til að ljúka henni á þeim áætluðu 10 tímum sem fundinum var ætlað að standa í gær, að öðrum kosti yrðum við að halda áfram í dag. Rökin fyrir því, hv. 4. þm. Austurl., eru þau að það hefur legið fyrir að hæstv. utanrrh. verður fjarverandi, þarf að fara utan á morgun og forseti taldi að það væri æskilegt, og reyndar um það beðið af hv. þm., að hann væri viðstaddur umræðuna og þess vegna lagði forseti áherslu á að ljúka henni áður en ráðherra þyrfti að fara úr landi. En það hefur alltaf legið fyrir að hann þyrfti að fara utan á þessum tíma. Þetta eru rök forseta fyrir því að halda þennan fund í dag, en forseti getur að öðru leyti tekið undir það að henni þykir það miður að þurfa að halda fund á laugardegi. En það er margt óeðlilegt við fundahaldið hjá okkur núna, þetta er ekki samkvæmt starfsáætlun eins og hv. þm. veit og við erum að bregða út af henni þessa daga. Það var gert með samkomulagi fyrir jólin um að koma saman 4. janúar og ljúka fjórum málum og þetta er eitt af þeim málum sem var áætlað að ljúka og stefnt að því að gera það í þessari viku. Vonast forseti til að hún hafi gefið hv. þm. þau svör sem hann var að inna eftir.