Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 10:37:36 (4545)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég hlýddi af athygli á mál forseta, enda var ég að óska eftir svörum frá forseta en ekki frá hv. þm. Geir H. Haarde, þó ég geri ekki athugasemdir við að hann komi og endurtaki sín viðhorf. Aðalforseti þingsins var ekki í gærkvöldi þegar þessi mál voru rædd. En ég verð að segja að skýringar hæstv. forseta nægja mér ekki sem rök fyrir þessu fundahaldi í dag. Þó hæstv. utanrrh. fari utan og um það var vitað fyrir jól, það var meira að segja búið að nefna það að 9. og 10. janúar ætlaði hæstv. utanrrh. í ferð til útlanda sem ég held að tengist ekki þessu máli eða neinum atriðum af því tagi sem skiptir kannski sköpum. En það er auðvitað mat hvers ráðherra hvernig hann hagar sínum ferðum og við það geri ég enga athugasemd. Ég geri heldur ekki athugasemd við það og hef ekki gert það að við erum hér á óvenjulegum tíma að fara yfir þessi mál og höfum tímann fyrir okkur til þess að gera það, næstu viku og lengur ef þarf, ekki skal standa á því að ég mæti til fundar til að ræða þessi efni og að því kemur að við ljúkum þeim að sjálfsögðu. En að fara að leggja hér upp með fundahald á laugardegi, þó hæstv. utanrrh. bregði sér úr landi, til þess að ræða mál sem engin brýn ástæða er til þess að afgreiða frá þinginu, engin brýn ástæða. Þetta mál er þannig statt að það er talað um það t.d. í Noregi, í norska Stórþinginu, að það gæti komið til þess fyrir sumarhlé, í maí eða júnímánuði að sá samningur, þá í lokagerð sem hér gengur undir nafninu EES-samningurinn, verði þar til afgreiðslu. Hvort málin beri að með öðrum hætti á Alþingi Íslendinga skal ég ekki segja en þetta er sama málið sem þarna er á ferðinni. Og að strekkja með þeim hætti hér í fundahaldi á Alþingi eins og hér er gert með þessum fundi í dag er rökleysa, einnig litið til þess máls sem er á dagskrá og stöðu þess máls. Þessu mótmæli ég og tel að rök forseta séu ekki fullnægjandi til þess að réttlæta þetta fundahald sem er eingöngu á ábyrgð stjórnarliða og hefur verið mótmælt af sameinaðri stjórnarandstöðunni.
    En ef það er ásetningurinn að ræða þetta mál í dag þá er sannarlega af mörgu að taka, virðulegur forseti, vegna þess að hér voru haldnar ræður af hálfu ríkisstjórnarinnar með þeim hætti fyrir tveimur dögum síðan að það hefur náttúrlega aldeilis gefið tilefni til umræðna og var það rætt á þinginu í gær og auðvitað getum við rætt það í dag fyrst við erum komin til þings. Þar er sannarlega af nógu að taka og auðvitað verður sú umræða ekki tæmd á þessum degi, virðulegur forseti.