Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 10:40:36 (4546)

     Kristín Einarsdóttir (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég kvaddi mér hljóðs um þingsköp í gær til að mótmæla þessum fundi í dag og ætla ég ekki að endurtaka þau mótmæli mín. Ég reikna með því að það þurfi ekki. En það er eitt atriði sem ég hef aldrei fengið svar við. Það var talað um það fyrir jól og reyndar eftir jól líka að ráðherra þyrfti að fara utan einn eða tvo daga, 9. og 10. jan. var talað um, reyndar er 9. í dag þannig að það er þá væntanlega ekki fyrr en á morgun, það hefur verið upplýst hér að hann fari utan á morgun. En hvers vegna er ekki hægt að halda áfram þegar ráðherra kemur til baka aftur? Það er eins og ráðherra sé að fara úr landi og komi aldrei aftur. Ég hef aldrei fengið svör við því hvers vegna ekki er hægt að halda áfram þessu máli í næstu viku. Hann ætlar varla að vera burtu það sem eftir er ársins.
    Ég man aldrei eftir því að það hafi verið talað um að ljúka þessum málum í þessari viku. Hvers vegna, og ég endurtek það, er ekki hægt að halda áfram þegar ráðherra kemur til baka? Hæstv. ráðherra nefndi, og ég held að fleiri hafi gert það, einhvern fund hérna 14. jan., ekki á morgun og ekki hinn heldur og ekki á mánudaginn og ekki á þriðjudaginn þannig að það er nógur tími. Ef sú það er eitthvað til að þjóna metnaði ráðherra að klára málið fyrir 14. jan., og það eru allir sammála því, aðrir en ég kannski, þá auðvitað gerum við það og ég sé ekkert því til fyrirstöðu. En hvers vegna að vera að halda fund á laugardegi sem enginn hafði reiknað með, ekki ég og ég held mjög fáir nema kannski ráðherrann og nokkrir aðrir, eins og sést best á því að það eru mjög margir þingmenn annars staðar? Ég hefði þurft að vera annars staðar líka en er samt hér vegna þess að ég tel það skyldu mína.
    En ég vil enn endurtaka það, hvers vegna er ekki hægt að skipuleggja þinghaldið með þeim hætti að við ljúkum öllum þeim málum sem talað var um að við lykjum í þessari lotu? Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þeim ljúki í næstu viku auk þess sem það er ekkert sem skyldar okkur að ljúka því í næstu viku, við getum haldið áfram ef á þarf að halda, en ég sé ekki að það þurfi. Þess vegna endurtek ég aftur: Hvers vegna þarf að halda þennan fund í dag, af hverju er ekki hægt að ljúka þeim málum sem hér eru á dagskrá í næstu viku?