Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 11:23:43 (4552)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 4. þm. Austurl. ræddi um það í sínu andsvari að ég vildi byggja framhaldið á innihaldi þessa máls, eins og hann orðaði það. Ég vil benda á það að tvíhliða samningur eins og hefur verið rætt um hann, hann er auðvitað byggður á innihaldi þess sem til umræðu hefur verið undanfarið. Ég sé ekki betur en hugmyndir þær sem voru ræddar í Alþb. um tvíhliða samning séu byggðar á slíku. það sem mundi breytast er eftirlitsþátturinn og stofnanavirkið með samningnum í tvíhliða viðræðum. Ég hef ekki heyrt annað en að þetta margumtalaða fjórfrelsi sé innihald þessa máls. Það hefur gengið í gegnum alla þessa umræðu. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að það sé erfið samningsstaða fyrir okkur að taka málið upp á nýtt og ætla að losna við þá ágalla sem eru í stofnanakerfinu og verða þegar við erum orðnir einir eftir á þeim grundvelli.