Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 16:08:07 (4566)

     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingímur Sigfússon reyndi að vísu að draga í land varðandi fyrri ummæli sín um afstöðu aðila í sjávarútvegi til hins Evrópska efnahagssvæðis. En það undirstrikar eingöngu þann flumbruhátt sem þingmaðurinn ástundaði í málflutningi sínum. Auðvitað veit þingmaðurinn betur að hann gat ekki fullyrt, eins og hann gerði, fyrir hönd sjómanna eða fiskvinnslumanna. Ég vil minna á að fjölmargir aðilar, bæði til sjós og lands, hvort sem um er að ræða bæjarstjórn Kópavogs, bæjarstjórn Vestmannaeyja, stjórn Farmanna- og fiskimannasambands, ýmsa aðila í sjávarútvegi og bæði félagasamtök og stofnanir hafa hvatt til þess að ganga til þessa samnings. Og það hrekur fyrst og fremst þann málflutning sem þingmaðurinn lagði hér fram.