Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 16:13:09 (4569)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Nú getum við, hæstv. forseti, eingöngu haft uppi getsakir um það hvað blundar í brjóstum manna á mörg hundruð manna þingi. Hitt er ljóst að verkalýðshreyfingin og þeir sem unnið hafa að þessu máli á hennar vegum hafa mismunandi sjónarmið og áherslur, eins og sjá má af því að ein heildarsamtök eru beinlínis andvíg samningnum en önnur leiða hann hjá sér en óska eftir þjóðaratkvæði. En svo mikið veit ég af viðtölum við menn innan Alþýðusambandsins að þeir setja mikla fyrirvara um ýmis óútkljáð atriði sem varða framkvæmd t.d. vinnuréttarmálanna. Það er því að mörgu leyti af eðlilegum ástæðum sem þessir aðilar hvorki hafna né skrifa upp á samninginn fyrr en þeir sjá hver verða afdrif mála eins og skylduaðildar að verkalýðsfélögum o.s.frv. Fjölmargt sem varðar réttarstöðu verkalýðsfélaga og vígstöðu er ekki í sjálfu sér ljóst hvernig fer með og getur skipt miklu máli. Við vitum að verkalýðshreyfingin víða í Evrópubandalagslöndunum er mjög veik. Fjöldi félagsmanna, kannski innan við helmingur af þeim sem eru starfandi á vinnumarkaði o.s.frv. Þetta veit ég að hv. verkalýðsforingi hlýtur að átta sig á. Fyrir utan efnisatriði samningsins beint geta því verið fjölmörg slík atriði sem ég veit að Alþýðusambandið hefur sett skýra fyrirvara um og það mun ekki standa við þau orð að það telji samninginn ásættanlegan nema þessi atriði útleysist með farsælum hætti. Það hafa a.m.k. talsmenn þess tjáð mér.
    Síðan er ég þakklátur hv. þm. fyrir að lesa upp úr samþykktum Alþb., hvort heldur er fyrir kosningar eða eftir. Það er alveg rétt að við leggjum m.a. áherslu á nauðsyn og gildi fríverslunar og þess vegna var það auðvitað eitt mesta áfallið í þessum samningum að meginkrafa Íslands um fríverslun með fisk náðist ekki fram. Og þarna er m.a. verið að vísa í það. Þá væri hagsmunum Íslands verulegt grand gert ef við gætum með samningum rutt burtu öllum ríkisstyrkjum og niðurgreiðslum samkeppnisaðilanna. En það heitir fríverslun á alþjóðlegu máli samkvæmt skilgreiningum GATT.

    Sú krafa náðist ekki fram, því miður. En Alþýðubandalagið styður það vegna þess að það væri augljóslega í þágu hagsmuna Íslands að slíkt fyrirkomulag kæmist á.