Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 16:15:07 (4570)

     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi EES þá hefur það komið fram hér í ræðu þeirra alþýðubandalagsmanna að Ísland verði eitt lítið hjól í öllu því vélvirki sem er EES. Ég tel eðlilegt að menn tali svo. En menn skulu ekki gleyma því að eitt lítið hjól ræður miklu um hraða og gang hinna stærri hjóla. Það er tvímælalaust betra fyrir Íslendinga að taka á og vera með og hafa áhrif í mótun þeirra fjölmörgu málaflokka sem enn liggja fyrir og á eftir að ganga formlega frá. Þess vegna tel ég eðlilegt að Íslendingar séu þátttakendur.
    En síðasti ræðumaður kom ekkert inn á það sem Alþb. segir hér að Íslendingar eru og verða Evrópuþjóð í menningarlegu tilliti. Þeir verða það líka í viðskiptalegu tilliti og þurfa að vera það.