Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 16:57:10 (4573)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegur forseti. Vegna fjarveru átti ég ekki kost á að taka þátt í þeirri umræðu sem fram fór á Alþingi fyrir jólin um Evrópskt efnahagssvæði og hef ekki tekið til máls undir þessum dagskrárlið áður. Ég á því von á að hæstv. utanrrh. fyrirgefi mér, aumum stjórnarandstæðingi, að koma í ræðustól til að segja nokkur orð um þetta örlagaríkasta mál sem íslenska þjóðin hefur staðið frammi fyrir um áratugi. Og ég get fullvissað hæstv. ráðherra og reyndar stjórnarliðið allt um að vera mín hér í ræðustólnum er ekki hluti af skipulegu málþófi sem miðar að því að ergja hæstv. utanrrh.
    Það var afskaplega einkennilegt að hlusta á fjölmiðla fjalla um þetta mál í desember. Af fréttum að dæma var ekkert annað því til fyrirstöðu að afgreiða Evrópska efnahagssvæðið fyrir jól en málþóf stjórnarandstöðu. Það var afar sjaldan fjallað um þá eðlilegu skýringu á töfinni að samkomulag var um það á milli stjórnar og stjórnarandstöðu að bíða með aðalefnisumræðuna, 2. umr., þar til sjávarútvegssamningurinn hafði verið kynntur á Alþingi. Þessi samningur var ekki kynntur á hæstv. Alþingi fyrr en 3. des. sl. og þrem dögum síðar komu upp tæknileg vandamál vegna þess að svissneska þjóðin hafnaði samningnum. Þetta hvort tveggja varð til þess að 2. umr. hófst ekki fyrr en fáum dögum fyrir jólafrí þingmanna og þá var einnig eftir að afgreiða mjög brýn mál eins og fjárlög fyrir árið 1993. Þrátt fyrir þessar eðlilegu skýringar á stöðu málsins virðist sú þjóðsaga eiga að ganga í þjóðina að stjórnarandstaðan haldi uppi málþófi til að hindra að meiri hluti þingsins nái fram markmiðum sínum.
    Ég er hér m.a. að vísa til greinar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson skrifaði og birtist í DV í gær, 8. jan., en þar segir, með leyfi forseta: ,,Fyrir áramót var þó engu líkara en hluti þingmanna stjórnarandstöðunnar hefði einsett sér að hindra að lýðræðislega kjörinn meiri hluta í að ná fram markmiðum sínum.``
    Það er ótrúlegt að formaður þingflokks sem stóð að fyrrnefndu samkomulagi skuli leggjast svo lágt sem raun ber vitni. Hann er með þessu að taka undir með foringja sínum, hæstv. utanrrh., sem hóf þennan málþófssöng á blaðamannafundi erlendis þremur dögum áður en umræðan hófst á Alþingi. Hæstv. forsrh. hefur einnig rætt oft og lengi hve nauðsynlegt væri að takmarka ræðutíma þingmanna, jafnvel í þessu stærsta máli sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Þá hefur hæstv. utanrrh. einnig haldið því fram að flýta þyrfti afgreiðslu málsins til að koma í veg fyrir að við yrðum útilokuð frá fundahöldum erlendis um framhald málsins.
    Þetta er auðvitað alrangt eins og margsinnis hefur komið fram. Það er nægur tími til stefnu. Evrópubandalagið þarf að ganga frá innbyrðis ágreiningi og vandamálum áður en hægt verður að halda ráðstefnu til að fjalla frekar um Evrópska efnahagssvæðið. Þá finnst hv. stjórnarliðum með ólíkindum hvað við á Alþingi Íslendinga notum mikinn tíma í ræðuhöld miðað við þingmenn annarra EFTA-ríkja. Og aftur vitna ég í það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði í DV í gær en hann er því miður fjarstaddur, líklega að skrifa aðra grein, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Fyrir jólin höfðu hinir 63 þingmenn Íslendinga notað lengri tíma í ræðuhöld um EES en 1.500 þingmenn EFTA-ríkjanna þurftu samtals til að afgreiða samninginn á sínum þingum.``
    Ef við hefðum notað þessa viðmiðun Össurar og sett markið á svipaðan tíma og notaður var í öðrum EFTA-ríkjum miðað við fjölda þingmanna þá hefðu ræðurnar hér orðið fáar og stuttar. Mætti jafnvel segja mér að aðeins hefði unnist tími fyrir ræðu hæstv. utanrrh. Aðrir hefðu ekki talað nema e.t.v. hv. formaður utanrmn., Björn Bjarnason. Þetta er líklega það sem stjórnarliðar vilja. En þá er nú Bleik brugðið og Össuri líka ef lífsspeki hans er á sömu nótum og Paul Valèry sem sagði, með leyfi forseta: ,,Pólitík er sú list að hindra fólk í að skipta sér af því sem því kemur ekki við.``
    Ekki veit ég hvað telst eðlilegt í þessu sambandi en það er kannski ekki tilviljun að þingræði á rætur í íslensku þjóðfélagi. Við skulum einnig hafa í huga að aðstæður hér eru að mörgu leyti ólíkar því sem gerist í öðrum EFTA-ríkjum. Við erum ekki iðnríki eins og flest ef ekki öll hin löndin. Við lifum af sjávarútvegi. Samningurinn um EES er í raun viðskiptasamningur iðnríkja um iðnaðarvörur. Það er ekkert skrýtið við það að Ísland þurfi

meiri tíma til að fjalla um samninginn en önnur EFTA-ríki sem hafa flest sett stefnuna á Evrópubandalagið og horfa á þennan samning sem millilendingu. Við erum í raun að taka miklu afdrifaríkari ákvörðun og getum ekki leyft okkur þá viðmiðun sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson setti fram í DV í gær og ég vitnaði til áðan.
    Við höfum talað um EES-samninginn í rúmar 80 klukkustundir eða þar um bil. Það samsvarar rúmum fjórum sólarhringum. Ef upplýsingar Össurar eru réttar hafa þingmenn hinna EFTA-ríkjanna talað tæpar þrjár mínútur hver um samninginn sem hefur varla nægt þeim til að gera meira en að ávarpa og kveðja. Hin EFTA-ríkin hafa einnig öll ýmist verið með þjóðaratkvæðagreiðslu eða aukinn meiri hluta á þingi við afgreiðslu þessa samnings. Hér er þessu ekki þannig farið og því ekki réttmætt af sæmilega vel gefnu fólki að bera þetta saman. Sannleikurinn er sá að það hefur ekkert málþóf verið í þessu máli á hv. Alþingi. Fjórir sólarhringar eru ekki langur tími þegar fjallað er um svo örlagaríkt mál sem hér er á ferðinni.
    Í framhaldi af þessu vil ég spyrja hv. þm. sem ýmist greiddu atkvæði með eða sátu hjá við afgreiðslu málsins eftir 2. umr. hvort þeir séu sáttir við þau gögn sem lögð hafa verið fram í þessu máli. Hvort öllum þeirra spurningum hafi verið svarað. Ég á t.d. bágt með að trúa því að þessir níu þingmenn Sjálfstfl. sem aldir voru upp við kjörorðið: Báknið burt, séu sáttir við að þurfa að lúta miðstjórnarvaldinu í Brussel. Það kerfi sem þar er verið að byggja upp á sér mesta samlíkingu í ráðstjórnarríkjunum fyrrverandi. Þarna er bákn sem ætlar sér ekki aðeins að stýra framkvæmdum á Íslandi heldur einnig löggjöf landsins. Ég trúi ekki þessum sinnaskiptum þingmanna Sjálfstfl. fyrr en eftir atkvæðagreiðslu sem fram fer eftir 3. umr.
    Ég er ekki sátt við þau gögn sem lögð hafa verið fram í þessu máli. Það vantar ýmislegt enn þá til þess að við getum tekið afstöðu til áhrifa þess á íslenskt þjóðfélag. Við erum hér ekki aðeins að taka afstöðu til samningsins sjálfs um Evrópska efnahagssvæðið heldur einnig til þeirra fylgifrumvarpa og reglugerða sem við verðum skuldbundin til að lögtaka með samþykkt frv. um Evrópska efnahagssvæðið. Hvað hafa þau í för með sér?
    Það hefur verið rætt um ávinning og kostnað. Ávinningurinn er fyrst og fremst fólginn í tollalækkunum á afurðir frá sjávarútvegi. Spurningarmerki hafa þó verið sett við upphæðina vegna þess að ekki er enn ljóst hvort tollalækkanir muni allar skila sér til íslenskra fyrirtækja eða hvort neytendur í Evrópu muni hirða hluta af þessum hagnaði. Kostnaður okkar af þessum samningi virðist þó vera enn óljósari. Við þurfum að taka þátt í sameiginlegum rekstri EFTA-stofnana og framlögum EFTA-ríkja vegna samningsins. Við þurfum að greiða fyrir nauðsynlega þátttöku okkar í nefndafarganinu sem fylgir samningnum ef við ætlum að reyna að hafa einhver áhrif á þær reglur sem við verðum að lögtaka á næstu árum. Kostnaður vegna þessa hefur verið áætlaður einhver hundruð milljóna króna eftir því hver á hlut að máli. Hins vegar er það alveg ljóst að enn liggur ekki fyrir hver heildarkostnaður verður vegna þessa.
    Ég hafði sambandi við flest ráðuneytin sl. sumar og spurði um þátttöku þeirra í fyrirhuguðu EES-starfi og kostnað vegna þess og aftur nú í haust við gerð fjárlaga. Það varð fátt um svör og greinilegt að sum ráðuneytin hafa ekki gert neinar áætlanir um þetta starf sem er fáránlegt vegna þess að framkvæmd samningsins mun óneitanlega lenda á þeim og kostnaðurinn að verulegu leyti á ríkissjóði. Eftir því sem ég kemst næst er enn ekki búið að ákveða að hve miklu leyti við ætlum að taka þátt í því nefndastarfi EFTA sem fylgja mun samningnum um EES.
    Kostnaður okkar af þessum samningi er þó ekki bundinn við framlög og rekstur. Við komum einnig til með að bera verulegan kostnað af þeim tilskipunum Evrópubandalagsins sem við þurfum að lögtaka vegna samningsins. Við verðum skikkuð til að ráðast í ýmsar framkvæmdir sem eru alls ekki á forgangslista hér á landi og sumar gjörsamlega ónauðsynlegar. Við erum jafnvel skikkuð til að lögtaka mjög nákvæmar reglur um flutning á járnbrautum og skipgengum vatnaleiðum þó slíkar reglur hafi enga raunhæfa þýðingu hér á landi. Frv. hæstv. samgrh. um flutning á járnbrautum og skipgengum vatnaleiðum, sem lagt hefur verið fram á hv. Alþingi, ætti ekki að vefjast fyrir mönnum og afgreiðsla þess að ganga greiðlega án mikillar umræðu.
    Auðvitað er hluti af því sem okkur er gert að lögtaka þarfur en við þurfum engan EES-samning til að segja okkur það. Fram til þessa höfum við haft löggjöf annarra þjóðþinga til fyrirmyndar um margt og munum gera það í framtíðinni. Það sem skiptir máli núna eru þær skuldbindingar sem við erum að taka á okkur með EES-samningnum. Þar höfum við ekkert val. Ef við samþykkjum samninginn með öllu, eins og sagt er, þá erum við að lögtaka stóran hluta af löggjöf Evrópubandalagsins og framfylgja henni. Og ekki nóg með það. Við erum í raun að skuldbinda okkur til að lögtaka þær reglur sem Evrópubandalagið mun setja á þessu sviði í framtíðinni.
    Það er alveg ljóst að þessum tilskipunum sem okkur er gert að lögtaka fylgja veruleg fjárútlát. Og þegar verið er að meta fjárhagslegan ávinning okkar af samningnum þá verður að taka þau með í reikninginn. Við erum ekki iðnaðarþjóð þrátt fyrir ítrekaðar og misheppnaðar tilraunir hæstv. iðnrh. síðustu ár til að koma hér upp álbræðslu og annari stóriðju. Þjóðin lifir á sjávarútvegi og hver neitar því að sú uppbygging sem átt hefur sér stað frá aldamótum og það velferðarkerfi sem byggt hefur verið upp á Íslandi eigi allar rætur að rekja til sjávarfangs? Það er hinn íslenski veruleiki. Þrátt fyrir þennan veruleika er verið að skuldbinda okkur til að lögtaka ýmsar reglur sem miðaðar eru við iðnríki Evrópu sem eiga t.d. við veruleg mengunarvandamál að stríða. Af þessu eigum við að bera kostnað sem skiptir ekki tugum milljóna heldur hundruðum eða þúsundum. Þess vegna hefði ég viljað spyrja hæstv. fjmrh., en hann er að sjálfsögðu ekki heldur hér eða staðgengill hans sem ekki heldur er hér. Þá verð ég að spyrja hæstv. utanrrh. hvort búið sé að meta þann heildarkostnað sem samningurinn hefur í för með sér á næstu árum og vænti þess að svar fáist strax til að koma í veg fyrir töf sem túlka mætti sem málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar.
    Ég veit að það er búið að meta þann kostnað sem fylgir því að einstök frv. verði samþykkt og reglugerðir settar samkvæmt þeim. En er búið að taka saman hver heildarkostnaðurinn verður af EES-samningnum verður á næsta og næstu árum? Hafa allar þessar upplýsingar verið kynntar á hæstv. Alþingi þannig að við getum með raunhæfum hætti metið ávinninginn af aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu? Er búið að kanna hver kostnaður sveitarfélaganna verður vegna þeirra reglna sem lögteknar verða vegna samningsins og hvernig þau koma til með að fjármagna þær framkvæmdir?
    Ég spyr hæstv. utanrrh. --- og reyndar hefði ég viljað fá hæstv. félmrh. sem kom hér rétt áðan --- og vænti þess að fá svar við þessum spurningum. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að þingmenn láti bjóða sér að þetta mál verði afgreitt fyrr en það liggur fyrir hver heildarkostnaðurinn verði, hverjir komi til með að bera hann og hvernig viðkomandi aðilar eiga að rísa undir því.
    Þar er ég fyrst og fremst að vísa til sveitarfélaganna sem óhjákvæmilega koma til með að bera verulegan hluta af kostnaði vegna samningsins en njóta ávinningsins aðeins í litlum mæli.
    Hér er nýverið búið að samþykkja fjárlög fyrir árið 1993 þar sem lítið er til skiptanna. Þingmenn hafa þar látið yfir sig ganga ýmsar erfiðar ákvarðanir, tekið þátt í að skera niður og leggja auknar byrðar á herðar fólksins í landinu. Ætla þessir sömu þingmenn að samþykkja þennan samning um Evrópska efnahagssvæðið án þess að vita nákvæmlega hvaða kostnað hann hefur í för með sér?
    Samvinna og samskipti við Evrópuríki eru af hinu góða en þegar ég skoða þennan samning sem hér liggur fyrir um Evrópska efnahagssvæðið þá set ég mörg spurningarmerki. Ég er í fyrsta lagi nokkuð viss um að hann hafi í för með sér meiri kostnað en hagnað fyrir íslensku þjóðina á næstu árum og hann mun setja sjálfstæði okkar í hættu á skömmum tíma. Í öðru lagi tel ég að málsmeðferð brjóti í bága við stjórnarskrá landsins. Það er náttúrlega fáránlegt að þjóðin skuli svo ekki fá að tjá sig um mál sem þetta. Hún hefur óskað eftir því en verið hafnað. Það er í raun kúgun. Með leyfi forseta vitna ég í orð Alexanders Solzhenítsyns, en hann sagði: ,,Kúgun verður ekki dulin nema með lygi og lyginni verður ekki haldið uppi nema með kúgun. Hver sá maður sem hefur einu sinni lýst

yfir að kúgun sé aðferð hans er óhjákvæmilega neyddur til að gera lygina að lífsreglu sinni.`` Tilvitnun lýkur og taki til sín hver sem á.
    Ég vil aðeins, virðulegur forseti, ítreka nokkur þau atriði sem ráða því að ég get ekki samþykkt þennan samning.
    Í fyrsta lagi er þessi ótrúlegi misskilningur að við séum iðnaðarþjóð þótt við séum flokkuð sem slík á alþjóðlegum vettvangi. EES-samningurinn er viðskiptasamningur um iðnaðarvörur fyrst og fremst og fjallar aðeins að litlu leyti um sjávarútveg. Enda er það svo að við erum að taka á okkur með samningnum ýmiss konar skuldbindingar sem lúta að iðnaði, verslun með iðnaðarvörur, þjónustu við iðnað, ráðstafanir vegna mengunar sem stafar af iðnaði og fleira í þeim dúr. Þegar kemur að sjávarútvegi er um aukaatriði að ræða þó hann sé okkar aðalatvinnuvegur. Niðrstaðan er í samræmi við þetta. Meginmarkmið okkar Íslendinga náði ekki fram að ganga. Við fengum ekki fríverslun með fisk. Við fengum því ekki heldur framgengt að sjávarútvegur skuli lúta þeim almennu reglum sem verið er að setja að vera undanþeginn ríkisstyrk. Og þrátt fyrir bann við ríkisstyrkjakerfi í iðnaði eru skipasmíðar undanþegnar sem getur komið í veg fyrir að við getum byggt upp okkar skipasmíðaiðnað.
    Það er greinilegt að þeir sem við samningaborðið sátu höfðu afskaplega lítinn skilning á íslenskum veruleika. Með þessum samningi erum við að veita Evrópubandalaginu verulegar veiðiheimildir í íslenskri landhelgi fyrir tollalækkun á fiski. Þetta eru tímabundnar heimildir þannig að við munum þurfa að semja við Evrópubandalagið með stuttu millibili um þessar veiðiheimildir sem þýðir að bandalagið mun sækja á okkur áfram um veiðar innan efnahagslögsögunnar.
    Samkvæmt samningnum sem hér er til umræðu þarf að lögtaka reglur um hitt og þetta til að tryggja jafnræði í viðskiptum fyrir alla á Evrópska efnahagssvæðinu. Okkur er jafnvel gert að lögtaka reglur um járnbrautir og skipaskurði eins og ég hef áður nefnt. Þetta eigum við að kokgleypa vegna þess að það þjónar hagsmunum hinna ríkjanna en okkar meginmál verða út undan. Við verðum að búa áfram við það að margar af sjávarafurðum okkar verða tollaðar áfram og á sumum mun tollur ekki einu sinni lækka. Hvers vegna settu samningamenn okkar ekki hnefann í borðið og kröfðust þess að útflutningur sjávarafurða njóti sömu réttinda og útflutningur iðnaðarvara? Við erum ekki iðnaðarríki. Við erum háð sjávarútvegi og verðum að horfast í augu við það og haga okkur samkvæmt því.
    Með samningnum erum við að veita 350 milljón manns réttindi sem við Íslendingar höfum einir átt áður. Hvað það mun hafa í för með sér veit enginn enn þá. En hrædd er ég um að þær öryggisgirðingar sem verið er að setja upp vegna möguleika sem skapast fyrir erlenda menn til að kaupa hér upp jarðir og ná tangarhaldi á auðlindum okkar muni ekki halda.
    Eins er það með vinnumarkaðinn sem nú er viðkvæmari en oft áður. Atvinnuleysi er að verða meira en áður hefur þekkst hér á landi og hrædd er ég um að fjármagnið, hugmyndirnar og atvinnutækifærin sem fylgja eiga þessum samningi um Evrópska efnahagssvæðið fyrir okkur auma, atvinnulausa, fátæka og hugmyndasnauða Íslendinga láti á sér standa. Er ástandið ekki í raun enn verra hjá þessum hugmyndaríku peningaausandi og atvinnuskapandi Evrópuþjóðum sem við erum að semja við?
    Virðulegi forseti. Blómin í blómabrekkunni sem varaformaður Framsfl., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, nefndi einhvern tímann í ræðu eru öll rifin upp með rótum og visna nú í vösum á borðum Evrópubandalagsins. Það verður að sá aftur í brekkuna. E.t.v. mun hv. þm. Halldór Ásgrímsson með hjásetu sinni sjá um það en fræið verður að vera betra og gefa meira af sér fyrir Íslendinga en þessi samningur sem hér er ræddur. Því það er eins með þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði að hann er nú þegar farinn að visna og okkar vænlegasti kostur er að snúa frá honum og leita þess í stað eftir tvíhliða samningi við Evrópubandalagið og koma um leið í veg fyrir þá hættu, sem nú blasir við, að stjórnarskráin verði brotin.
    Að lokum má ég til með að nefna þann tvískinnung sem felst í því að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þetta mál. Annaðhvort eru menn samþykkir því að Ísland gerist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu með þeim hætti sem hér er lagt til eða andvígir. Hjáseta þýðir aðeins að menn eru að reyna að firra sig ábyrgð sem sæmir ekki hv. þm. þegar svo stórt og örlagaríkt mál er til umfjöllunar og afgreiðslu.