Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 17:45:51 (4577)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hafa sömu rangfærslurnar gengið aftur í ræðu hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson, 9. þm. Reykn., eins og hafa komið fram í máli allnokkurra annarra þingmanna í framhaldi af ræðu hv. 6. þm. Reykn. Það eru auðvitað alls ekki ný sannindi að hv. 6. þm. Reykn. hefur verið þeirrar skoðunar að hann teldi eðlilegt að Íslendingar sæktu um aðild að Evrópubandalaginu. Og það eru ekki söguleg tíðindi að hv. 6. þm. Reykn. endurtaki þessa skoðun sína sem hann hefur látið í ljósi að ég hygg a.m.k. þrisvar sinnum hér á Alþingi, bæði núna á þessu þingi og einnig áður og þess vegna er það fullkomlega út í loftið, eins og hv. þm. lét í veðri vaka hér áðan, að þingmaðurinn Karl Steinar Guðnason væri eitthvað að sniðganga Alþingi þótt hann hafi líka látið í ljósi þessa skoðun sína í fjölmiðlum eins og greinilega kom fram í máli hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Það er einfaldlega þannig að hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefur einn haft þessa skoðun jafnt í sínum flokki sem á Alþingi og þess vegna er það alveg fráleitt og óþolandi og afskaplega þreytandi að sitja undir því þegar hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson fyllir flokk þingmanna sem eru að reyna að gefa til kynna að um það sé að ræða að það sé eitthvert upphaf að því að fjöldi manns lýsi yfir stuðningi við inngöngu eða umsókn Íslendinga að Evrópubandalaginu. Það er auðvitað alveg fráleitt. Þetta er einfaldlega þannig að hv. þm. hefur haft þessa prívatskoðun sína. Hann setti hana hér fram á Alþingi fyrir allmörgum árum síðan, endurtók hana í fyrra eða hittiðfyrra, síðan aftur núna og ég sé engin sérstök pólitísk teikn eða tíðindi samfara því þótt þingmaðurinn endurtaki það núna.