Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 17:48:54 (4579)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér finnst sérkennilegt ef hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson hefur upplýsingar um að þingmenn hafi verið að bera til baka þau sjónarmið sem hv. 6. þm. Reykn. hefur sett fram hvað eftir annað, jafnt í fjölmiðlum sem á fundum hér á Alþingi og hvarvetna. Þetta hefur auðvitað verið hans skoðun og hans einlæga skoðun sem hann hefur fullkominn rétt á auðvitað að setja fram og ég veit að hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson deilir með mér því viðhorfi. Þess vegna hefur þetta væntanlega ekki verið neitt feimnismál. Þetta er einfaldlega skoðun þingmannsins. Það hefur hins vegar verið viðurkennt og það hefur margoft komið fram að þetta er hans prívatskoðun í hans flokki og hann greindi sérstaklega frá því í ræðu sinni hér í gær.
    Mér fannst kannski sérstök ástæða til að nefna þetta í framhaldi af ræðu hv. 9. þm. Reykn. vegna þess að þingmaðurinn mun vera sagnfræðingur og vill auðvitað hafa hinar sagnfræðilegu staðreyndir á þurru og hreinu og að ekkert fari á milli mála þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta allt saman liggi þá fyrir.
    Varðandi fréttamatið þá er það einfaldlega þannig að endurteknar fréttir, fréttir sem hafa verið sagðar áður, hafa yfirleitt ekki þótt vera sérstök tíðindi þó að út af fyrir sig geti það kallast tíðindi þegar menn flytja snöfurmannlega ræðu eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason gerði. En sannarlega voru það ekki ný tíðindi sem hann flutti okkur þegar hann lýsti þeirri skoðun sinni að hann teldi eðlilegast að Íslendingar sæktu um inngöngu í Evrópubandalagið.