Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 17:52:13 (4581)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Þó að umræðan um þetta mál sé orðin alllöng þá væri samt þess ærin ástæða til að ræða enn um mörg atriði sem eru í beinu sambandi við það, ekki síst eftir ræðu hæstv. utanrrh. í fyrrakvöld og ræðu hv. 6. þm. Reykn. í gær en hann færði umræðuna á nýjan vettvang með því að taka fyrir umsókn um beina aðild að Evrópubandalaginu. Um þá ræðu hv. 6. þm. Reykn. sagði hæstv. utanrrh. síðar í umræðu í gær að hún ætti eftir að vekja meiri athygli síðar. Verða þau ummæli hæstv. ráðherra vart skilin á annan hátt en þann að hann sé sannfærður um að tillaga um aðild Íslands að Evrópubandalaginu verði áður en langt um líður tekin til umræðu og væntanlega til afgreiðslu.

    Einhver alvarlegustu tíðindin sem við höfum heyrt í sambandi við þetta mál eru fréttir um aukið atvinnuleysi hjá Evrópubandalaginu. Samkvæmt fréttum um áramótin er gert ráð fyrir því að atvinnuleysingjum fjölgi um 8 millj. á þessu ári eftir að hinn sameiginlegi markaður hefur gengið í gildi og atvinnuleysingjarnir í Evrópu munu verða 23 millj. og á næsta áratug eða fram undir aldamót eru horfur á að þeir verði orðnir 34 millj. Hins vegar segir í þessum fréttum að sá nýi markaður þýði ný tækifæri fyrir bisnissmenn Evrópu. Það eru þeir sem eiga að fleyta rjómann ofan af þessu. En ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta hér og lengja umræðuna með því þó að ærin ástæða væri til slíks. Ég vil að þessu sinni fyrst og fremst víkja að þeim vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar að ætla að ljúka afgreiðslu frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið enda þótt málið sé enn í algeru uppnámi. Það er ekki aðeins að Svisslendingar hafi fellt aðild að samningsdrögunum svo að ganga verður til samningaviðræðna einu sinni enn, og það hefur komið skýrt fram í máli hæstv. utanrrh., heldur liggur fyrir að aðeins þrjár eða fjórar aðildarþjóðir Evrópubandalagsins höfðu samþykkt samningsdrögin áður en atkvæðagreiðslan í Sviss fór fram. Ég veit ekki til þess að nein þjóð hafi síðan bæst í þann hóp. Þvert á móti hefur spænska ríkisstjórnin ákveðið að draga til baka staðfestingarfrv. sitt sem lá þar fyrir þinginu. Við þessar aðstæður telja þingflokkar stjórnarandstöðunnar á Alþingi algera fjarstæðu að afgreiða þetta frv. og ætla því að verða grundvöllur að löggildingu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Samningurinn, eins og hann liggur fyrir hér, mun koma inn í íslenskt lagasafn því að þar á hann að færast inn í því formi sem hann er nú þótt enginn geti fullyrt hvort eða í hvaða formi hann kann að öðlast fullgildingu fyrir okkur Íslendinga síðar. Því hef ég ásamt Ragnari Arnalds og Kristínu Einarsdóttur flutt eftirfarandi frávtill. í málinu Evrópska efnahagssvæðið sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Eftir að samningurinn, sem gerður hefur verið um Evrópska efnahagssvæðið, var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss er ljóst að endanlegur texti að slíkum samningi liggur ekki fyrir.
    Þegar af þeirri ástæðu telur Alþingi ekki rétt að afgreiða þetta frv. og samþykkir að vísa því til ríkisstjórnarinnar.``
    Mér var falið einróma í þingflokki Framsfl. að standa að þessari frávísunartillögu. Ég tel að samþykkt þessarar till. sé eina skynsamlega leiðin fyrir Alþingi nú úr því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að ljúka afgreiðslu þess við þær aðstæður sem skýrt hefur verið lýst í umræðunni.