Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 18:47:18 (4589)

     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Athyglisvert var að hlusta á hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur tala um að það væri magnið sem skipti máli en ekki gæði málflutnings hjá hverjum þingmanni, hversu mikið og lengi hann fjallaði um EES-samninginn. Það er merkilegt út af fyrir sig. Hitt er svo annað mál þegar hún er að gera öðrum þingmönnum það upp að þeir viti ekkert um málið og þess vegna tali þeir svo lítið sem hún álítur að sé álitshnekkir fyrir þá varðandi umræðuna um EES. Ég frábið mér þessum skoðunum og frábið mér slíkum fullyrðingum Guðrúnar Helgadóttur og þá lítilsvirðingu sem hún leggur til annarra þingmanna um að þeir viti ekkert um málið. Það virðist vera hennar skoðun að þeir viti mest um málið sem mest hafa talað, það sé magnið en ekki gæðin sem skipti máli.
    Hún veit ekkert um íslenska kaupskipaflotann og hefur áhyggjur af því. Hún hefur líklega ekki lesið nóg um EES. Einn ágætur félagi hennar og framkvæmdastjóri skandinavíska flutningaverkamannasambandsins, sem hún hefur verið á tali við nú undanfarna daga vegna veru hans hér á Íslandi, er þeirrar skoðunar að Íslendingar færu verr í samkeppni hvað varðar íslenska kaupskipaflotanum ef þeir gengju ekki í EES. Það er hagur íslenskra farmanna að gengið sé í EES vegna þess að EES og Efnahagsbandalagið ætlar að vernda flota sinn gagnvart þægindafánum og ætlar að vernda þau störf og þá stöðu sem kaupskipaflotinn almennt er í nú í þessum löndum. Það má segja að víða sé þess óskað að gamla járntjaldið í austri væri aftur risið. Það mátti heyra á máli hv. þm. áðan.