Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 18:52:58 (4594)


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég skal verða að óskum manna og vera mjög stuttorður. Margt gott er búið að segja í þessum umræðum og kannski ekki mjög miklu við að bæta. Fyrst mun ég rifja aðeins upp orðalag ágætrar greinar stjórnarskrár okkar, sem er 2. gr., megingreinin, aðeins til að rifja upp hvernig hún er orðuð:
    ,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið.

Dómendur fara með dómsvaldið.``
    Ég held að allir sem eru nánast læsir eða í einhverjum gagnfræðaskóla viti hvað þetta þýðir.
    Ég held að við eigum bestu stjórnarskrá heimsins enda hefur ekki verið unnt að hagga henni neitt þó margar stjórnarskrárnefndir hafi verið settar á laggirnar. Niðurstaðan hefur alltaf verið sú að það væri ekkert sem væri til bóta. Gömlu mennirnir sáu nefnilega fyrir sér það sem gæti hugsanlega gerst og þeir vildu ekki hætta neitt á það. Það er engin heimild til neins framsals af því sem ég var að nefna. Hún er ekki til í stjórnarskránni. Þess vegna þarf ekki að deila um það að hér er verið að tala um í alvöru stórfellt stjórnarskrárbrot á öllum sviðum. Maska stjórnarskrána og brosa að.
    Ég get aðeins vikið að 26. gr.: ,,Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi til staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.``
    Þetta er líka stutt og laggott. Það er því hægt að segja án þess að þurfa að hafa nokkrar málalengingar, í nánast einni setningu eða tveimur, að það er ljóst að margháttaðir tæknilegir og efnislegir agnúar eru á frumvarpinu með því háttalagi sem nú er viðhaft. Og forseti Íslands er settur í þá aðstöðu að geta ekki staðfest frumvarpið.
    Ég endurtek að ég held það væri nauðsynlegt fyrir þingmenn að hlusta á að með því háttalagi sem núna er þá er verið að gera forseta Íslands ógjörlegt að staðfesta lagafrumvarpið. Það verður sem sagt aldrei neitt neitt. Það byggist á því að allar forsendurnar vantar, þetta er allt saman botnlaust. Búið er að rifja það upp í mörgum ágætis ræðum núna og eins og ég segi þá hef ég fræðst meira á það á þessum síðustu vikum en ég hef áður gert, ég játa það ósköp vel, einmitt um þessi málefni. Ekki síst t.d. óþrjótandi umræðum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem reyndar hlustar ekki núna rétt í augnablikinu, en hann er gífurlega fróður um öll þessi mál.
    Í umræðunum hefur enn fremur verið sýnt fram á og það með fullum rökum að stjórnarskrá lýðveldisins væri brotin með lögfestingu frv. eins og það er. Það væri þá að engu hafandi vegna þess að forseti Íslands skal staðfesta frv., hann fær það í hendur sem slitur, gjörsamlega óhæft sem löggjöf að íslenskum lögum, að stjórnarskránni eins og hún er. Að mínu mati er ekkert svigrúm fyrir forseta Íslands til að staðfesta frv. Það er engin leið. Í einu og öllu hlýtur forsetinn að fara eftir stjórnarskránni, það er meginhlutverk forseta að sjá til þess að stjórnarskráin sé ekki brotin. Ég fæ ekki séð að nokkurt svigrúm sé fyrir forseta Íslands að samþykkja frv. Það er þar af leiðandi sjálfdautt og ekkert meira um það að segja nema bara að þetta hefur verið fróðleg umræða. En endalokin eru sýnilega mjög hagstæð þjóðinni og fólkinu, við verðum enn þá frjáls og það verður ekkert Brussel sem fer með dómsvald, löggjafarvald eða framkvæmdarvald.