Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 10:35:42 (4612)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti hafði ekki gert ráð fyrir að fresta umræðu um þetta mál heldur að gefa þeim tækifæri, sem nú þegar eru mættir hér til þingfundar og eru á mælendaskrá, til þess að taka til máls og nota þannig tímann því að að öðrum kosti verður að fresta þessum fundi. Forseti vill beina því til hv. þm. hvort þeir sem eru á mælendaskrá og eru í þingsalnum séu ekki tilbúnir að nýta tímann og tala í þessu máli. Vonandi rætist úr veðrinu og ekki líður á löngu þar til þeir sem eru, að því er forseta skilst, á leiðinni en tepptir komist innan tíðar hingað. En auðvitað verður reynt að fylgjast með því eins og hægt er hvernig samgöngur verða og hvernig mönnum gengur að komast hingað til þings.
    En forseti vill beina því til hv. þm. hvort þeir vilji ekki nýta tímann því að hér eru margir þingmenn mættir. Vissulega er það rétt að sá sem er næstur á mælendaskrá er á leiðinni en er veðurtepptur. Hér eru aftur á móti þrír aðrir á mælendaskrá sem eru í salnum. Ef ekki koma athugasemdir við þetta og hv. þm. vilja taka tillit til þessara óska forseta þá mun forseti gefa næsta ræðumanni orðið.