Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 10:42:42 (4621)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram í upphafi, ekki síst vegna orða hv. 17. þm. Reykv., Össurar Skarphéðinssonar, að ég tel að það sé ekki sérstaklega fordæmi til að fara eftir að hér var haldið áfram umræðum um þennan samning á fimmtudaginn var þegar allmargir, sem voru á mælendaskrá í dagskrármálinu, voru að undirbúa sig undir útvarpsumræður þá um kvöldið. Það er vont fordæmi að mínu mati, afar óheppilegt. Það slítur sundur umræður að þeir sem eru á mælendaskrá og gjarnan umfram aðra vilja reyna að fylgjast með umræðum skuli ekki hafa kost á því. Að sama skapi er það óheppilegt að þurfa að funda vitandi það að mönnum er meinuð þátttaka í fundahaldinu sökum ófærðar eða af öðrum lögmætum ástæðum. En forseti hlýtur að ráða þessu eins og öðru um tilhögun fundastarfsins hér og verða ekki fleiri orð höfð uppi um það.
    Ég ætlaði að bæta nokkru við röksemdafærslu af minni hálfu gegn þessum samningi. Ég tel að þetta sé heldur vondur samningur og vont að hann skyldi vera gerður og þá er ekki annað til ráða en að hafna honum og ég sé ekki í sjálfu sér að það sé neinn skaði skeður þó að þessum samningi væri einfaldlega

hafnað og þau skilaboð send til viðsemjendanna að að gera yrði betur til að Alþingi Íslendinga sætti sig við það fyrir okkar hönd. Mér finnst farið að gæta dálítið mikið þess heimóttarhugsunarháttar og minnimáttarkenndar að ef menn hafi farið á fundi og hitt einhverja stóra herra í útlöndum þá séu menn meira og minna skuldbundnir til að kyngja öllu sem þar hefur verið rætt um. Það sé sem sagt þannig komið fyrir Íslendingum að þeir geti ekki barið í borðið og haft sínar skoðanir og staðið á þeim. Þetta er heldur dapurlegt. Það er látið sem svo að Íslendingum séu engir kostir aðrir en kyngja þessum samningi. Himinn og jörð farist ef við gerum það ekki. En við skulum aðeins fara yfir það þó að hæstv. utanrrh. sé fjarstaddur. Hvað gerist ef Alþingi Íslendinga hafnar einfaldlega þessum samningi? Hvað gerist? Jú, það gerist það sama og í öðrum hliðstæðum tilvikum. Viðsemjendur okkar fá þau skilaboð að æðsta stjórnvald á Íslandi í þessum málum hafi ekki talið þennan samning nógu góðan. Og hvað með það? Er eitthvað að því að senda þau skilaboð? Ég held ekki. Ég held nefnilega að það sé mikil þörf á því að fara að hressa upp á álit Íslendinga í þessum efnum hvað varðar hagsmunagæslu okkar á sviði sjávarútvegsins, auðlindanna og landhelginnar. Það hefur verið nokkuð útbreidd skoðun að Íslendingar standi fast á rétti sínum í þeim málum og hafi sótt hann af býsna mikilli hörku á undanförnum áratugum. Ég held það fari nú að verða lítið fyrir þeim orðstír ef við gerum samninga af þessu tagi í röðum.
    Ég held sem sagt að það væri í sjálfu sér hið besta mál, eins og sagt er í dag, og einmitt það sem þarf að gera að Alþingi hafni þessum samningi og sendi þau skilaboð út að við teljum hann ekki nógu góðan og kannski verða í leiðinni ákveðin skilaboð til fleiri en viðsemjenda okkar í Brussel. E.t.v. tækju embættismenn og húsbóndinn sjálfur, þ.e. hæstv. utanrrh. eitthvert mark á því ef Alþingi mundi þannig lemja á puttana á honum.
    Það liggur fyrir í málskjölum að í raun og veru samdi hæstv. utanrrh. hagsmuni Íslendinga af þeim strax í febrúarmánuði 1992. Það kemur nefnilega fram þegar betur er að gáð að það sem síðan hefur gerst er meira og minna leiksýning. Hin efnislega niðurstaða málsins réðst meira og minna á fundum sem hæstv. utanrrh. og samninganefndarmenn hans áttu í aðdraganda undirskriftarinnar í febrúar 1992. Það hefur hins vegar ábyggilega og fyrst og fremst af taktískum ástæðum virst henta að telja mönnum trú um að enn væri eftir að ganga frá málinu og um hálfs árs skeið var látið svo heita að samningaviðræður væru í gangi og menn hafðir að fíflum í hálft ár, þeim talin trú um að til greina kæmi að kröfur Íslendinga um gagnkvæmni í formi veiði fyrir veiði næðu fram að ganga. En þegar betur er að gáð þá er það auðvitað augljóst mál að utanrrh., án samráðs við kóng eða prest áður en menn höfðu í raun og veru farið að ræða þetta hér í utanrmn., sjútvn. eða meðal hagsmunaaðila, samdi um þetta mál, samdi um að opna landhelgina fyrir Evrópubandalaginu og hleypa þeim hingað inn og veiða 3.000 tonn af karfa. Og samdi um það að ekki yrði um gagnkvæmni að ræða í formi skipta á veiði fyrir veiði heldur væru þetta skipti á veiðiheimildum og það auðvitað gjörólíkum veiðiheimildum úr ólíkum stofnum eins og rækilega hefur verið sýnt fram á.
    Af því að hér hefur verið gerð ítarleg grein fyrir áliti minni hluta utanrmn. og minni hluta sjútvn. þá þarf ég ekki að vísa til þeirra raka sem þar hafa komið fram og ég hygg að séu almennt viðurkennd í þjóðfélaginu, þrátt fyrir barning hv. stjórnarliða sem berja enn höfðinu við steininn, tala um gagnkvæmar veiðiheimildir og góðan samning, þá er greinilegt að landið liggur þannig að það viðurkenna allir að þetta er vondur samningur. Það finnst enginn einasti maður með hundsvit á sjávarútvegsmálum sem vill skipta á þessum veiðiheimildum, sem vill taka loðnuna fyrir karfann, ekki nokkur maður, hversu pólitískt vandabundinn sem hann er Sjálfstfl. eða ríkisstjórninni og allir útreiknigar sýna auðvitað að hér er verið að afsala Íslendingum miklu meiri verðmætum en þeir hafa möguleika á að fá á móti.
    Ég þarf þess vegna ekki að fara svo ítarlega út í þá hlið málsins. Ég ætla að ræða hér lítillega aðdragandann vegna þess að ég tel að þar hafi mjög alvarlegir atburðir gerst. Það sé eitt dæmið enn um það að hæstv. utanrrh., sem vel á minnst, hæstv. forseti, fer með þetta mál --- er það ekki rétt munað? ( Forseti: Það er rétt.) Það er rétt, það er gott að hafa það á hreinu og hæstv. utanrrh. er á landinu, er það ekki líka rétt munað að hann hafi orðið að brjóta odd af oflæti sínu og hætta við eina utanlandsferð --- sem er náttúrlega stórtíðindi að hæstv. utanrrh. skuli láta af utanlandsferð og svakalegt. Ég veit að það er mikið áfall fyrir hæstv. ráðherra. En það er þá spurning hvort hann hefur eitthvað betra við tímann að gera en að vera í þingsalnum og fylgjast með umræðunum.
    Ég er hér með nótuskipti Evrópubandalagsins og íslenska utanrrn. frá 12. febr. 1992. Í þeim nótuskiptum varð sjávarútvegssamningurinn í raun og veru til. Þar eru dregin upp svæðin, sem Evrópubandalagið má veiða á, þar er hið endanlega orðalag komið á enskri tungu á hvað varðar skipti á veiðiheimildunum. Þar er talað um ,,fishing possibilities``, veiðimöguleika, í íslenskri landhelgi. Í raun og veru er gengið frá því sem í aðalatriðum varðar niðurstöðu málsins. Þar er talað um 3.000 tonn af karfaígildum og sagt beinum orðum að á árinu 1993 muni þetta samanstanda af karfa eingöngu. Eftir á að hyggja veit ég ekki hvers vegna menn sviðsettu þá allt þetta leikrit frá og með undirskriftinni í maí og frá og með samningafundum í júní og þreifingum í sumar að eitthvað væri ófrágengið í málinu. Ég sé ekki betur en að hæstv. utanrrh. eða embættismenn hans hafi samið þetta algerlega af Íslendingum strax 12. febr. 1992 fyrir tæpu ári. Svo gerast þau tíðindi að þegar menn sjá að í óefni er komið og þeir eru búnir að gera svo vondan samning að það sé borin von að þeir fái menn til að taka við honum án þess að taka þá í einhverja meðferð og hefja sálrænan undirbúning þá er sett á svið þetta leikrit. Hagsmunaaðilar sjávarútvegsins eru kallaðir til og hæstv. sjútvrh. mætir í maí, kemur á fundi sjútvn. og utanrmn. og gefur þar heitstrengingar um

að ekki komi til greina að kyngja þessu svona. Evrópubandalagið verði að fallast á kröfur Íslendinga um gagnkvæma veiði. Þegar gengið hefur verið á ýmsa talsmenn sjárvarútvegsins eins og hinn fræga mann Kristján Ragnarsson og hann spurður að því alveg út í horn hvort hann styðji samninginn þá er svarið yfirleitt það sama í þau þrjú skipti sem ég hef átt þess kost að leggja þessa spurningu fyrir hann á nefndarfundum eða annars staðar: ,,Ja, við stóðum frammi fyrir gerðum hlut.`` Það er eiginlega vígið sem hopað er í þegar hagsmunaaðilar í sjávarútvegi eru spurðir í einlægni og alvöru um samninginn. Auðvitað er það rétt. Þeir voru ekki hafðir mikið með í ráðum frekar en aðrir, frekar en utanrmn. eða sjútvn. eða hæstv. sjútvrh. þegar utanrrh. eða embættismenn hans klúðruðu þessu máli, einu af mörgum, í febrúar 1992.
    Satt best að segja er kostulegt að fara í gegnum það hvernig menn hafa hringsnúist í málinu, bæði hæstv. sjútvrh. og ýmsir fleiri sem töldu ekki koma til greina á sínum tíma að kyngja samningi sem innihéldi nákvæmlega það sem síðar varð. Það er því ekki bara langhalinn sem breyttist í þessu. Hann olli því eins og kunnugt er að samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi dró til baka allan stuðning við málið og talsmenn þeirra samtaka höfðu um það býsna hörð orð að illt væri við að búa að geta ekki treyst orðum hæstv. utanrrh. og engum duldist það sem fylgdist með viðtölum við þá menn að þeim líkaði illa sambúðin við hæstv. utanrrh. og hvernig hann hefði haldið á málum. Þeir voru eftir atvikum sæmilega ánægðir þegar kynnt var í október 1991 að meginhluti veiðanna, sem Evrópubandalagið fengi hér, yrði langhali. Um það má taka bæði ummæli Kristjáns Ragnarssonar frá 22. og 23. okt. sem taldi þetta eftir atvikum jákvæða niðurstöðu enda væri ljóst að aðeins 30% af aflanum yrði karfi. Menn vissu að vísu ekki, segir Kristján, hvaða verð ætti að setja á langhalann en það var ljóst að í huga hans var ekki vafi á því hver aflinn yrði heldur eingöngu hversu verðmætur sá afli kynni að verða í framtíðinni. Svo sendi samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi frá sér fréttatilkynningu í lok nóvember þegar sannleikurinn kom í ljós og ég ætla að lesa upphafið að henni, með leyfi forseta:
    Á grundvelli þess sem var kynnt í lok samningsgerðar í Lúxemborg um miðjan október fagnaði samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi þessu samkomulagi og taldi hagsmunum Íslendinga vel borgið. Nú hefur hins vegar komið í ljós að veigamiklar upplýsingar í tengslum við sjávarútvegsmál sem gefnar voru sem forsendur samkomulagsins eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Í ljós hefur komið að eitt mikilvægasta atriðið sem lagt var til grundvallar, þ.e. skipti á veiðiheimildum, er nú túlkað með ýtrustu hagsmuni Evrópubandalagsins í huga. Og jafnframt kemur í ljós að Evrópubandalagið er ekki tilbúið að staðfesta ýmis atriði samkomulagsins sem voru forsendur stuðnings samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi nema Íslendingar gangi að ýtrustu kröfum bandalagsins um veiðiheimildir.
    Það er alveg ljóst að þarna var fyrst og fremst tvennt á ferðinni sem gerði það að verkum að samstarfsnefndin dró stuðning sinn til baka. Hið fyrra var að þeir tveir þriðju hlutar veiðiheimildarinnar sem átti að verða langhali reyndust verða karfi. Hið seinna var að ljóst var að Evrópubandalagið hugðist túlka samkomulagið með ýtrustu hagsmuni sína í huga, þ.e. að um hrein skipti á veiðiheimildum væri að ræða og engin ákvæði væru um raunverulega gagnkvæmni í formi veiða, í formi afla upp úr sjó, í formi þess sem hvorum aðilanum fyrir sig tækist að veiða.
    Ég spyr núna: Hvað hefur breyst síðan í lok nóvember 1991 þegar samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi drógu stuðning sinn við samninginn til baka? Svarið er: Ekki neitt, nákvæmlega ekki neitt. Niðurstaðan varð nákvæmlega sú sem þarna var að koma á daginn, að það var látið algjörlega eftir Evrópubandalaginu, túlkunin á eðli skiptanna á veiðiheimildunum og karfinn er karfi. Manni er náttúrlega nokkur undrun að á þeim tíma, sem síðan er liðinn, skyldi takast að þæfa menn til að láta samninginn ganga yfir sig.
    Ekki þarf að fara í frekari vitnaleiðslur um það, menn muna hvernig hæstv. sjútvrh. talaði vorið 1992 um að ekki kæmi til greina að kyngja samningnum nema um fullkomin skipti yrði að ræða á veiði. En því miður lak síðan loftið úr hæstv. sjútvrh. undir áramótin og einhvers konar samkomulag virðist hafa orðið í hæstv. ríkisstjórn, meiri háttar hrossakaup um nokkur óskyld mál sem tengjast sjávarútvegi og hæstv. sjútvrh. hefur gengið um tiltölulega fölur á litarhafti síðan, lítið farið fyrir honum, enda eðlilegt. Það veldur ýmsum aukaverkunum þegar loftið fer svo snögglega úr mönnum. Hæstv. sjútvrh. samdi við Alþfl. um auðlindaskatt á næsta kjörtímabili gegn því að fá að hafa kvóta Halldórs Ásgrímssonar óbreyttan í nokkur ár í viðbót. Hæstv. sjútvrh. skipti um skoðun gagnvart samningnum um sjávarútvegsmál að því er virtist á nokkrum nóttum og gekk í lið með þeim sem hafa varið hann síðan. Síðan var hinn frægi þróunarsjóður, sem að vísu sér ekki ekki dagsins ljós, hluti af þessu heiðursmannasamkomulagi ef svo má kalla það. Það orð er nú orðið ýmsu vant og búið að nota það yfir ýmislegt sem í upphaflegri merkingu hefði tæplega talist við hæfi. Þannig standa þau mál í dag.
    Hæstv. utanrrh. kallar náttúrlega ekki allt ömmu sína í þessu máli frekar en öðru. Þegar uppgjöfin lá fyrir brá hæstv. utanrrh. auðvitað á það ráð að segja að aldrei hefði annað staðið til en semja svona. Aldrei annað staðið til. Ekki væri hægt að semja um gagnkvæma veiði, sagði hann í Morgunblaðinu og hélt því fram blákalt að aldrei hefði neitt annað staðið til en að gera slíkan samning, skipti á kvótum, og sjálfsagt hefur aldrei staðið til heldur að neitt af þessu yrði langhali. Ég er með Morgunblaðið frá 1. des. 1992, sjálfan fullveldisdaginn, og þá segir utanrrh.: ,,Ekki hægt að semja um afla upp úr sjó.`` Jón Baldvin Hannibalsson segir, með leyfi forseta, ,,að niðurstaða samkomulags Íslands og Evrópubandalagsins um gagnkvæmar veiðiheimildir hafi í raun legið fyrir að mestu leyti í vor`` og viðurkennir það sem gott er og rétt

og dregur þar með dár að öllu liðinu, sem hann hafði með sér í samningaviðræðum til málamynda, í þykjustuviðræðum í hálft ár. Þeir ágætu menn, sem fjölmenntu til Brussel á fundi, hljóta að spyrja sig að því hvort þeir hefðu ekki getað notað tímann til einhvers annars þarfara en að láta utanrrh. hafa sig að fíflum í meira en hálft ár þegar hann segir í Morgunblaðinu hér 1. des. 1992 að þetta hafi allt saman legið fyrir sl. vor. Til hvers voru aumingja mennirnir að leggja þetta á sig? Þessir uppteknu menn, Kristján Ragnarsson og kompaní. Svo segir utanrrh. að ,,aldrei hafi farið á milli mála að ekki væri hægt að semja um skipti á afla upp úr sjó.`` Aldrei hafi farið á milli mála að ekki væri hægt að semja um skipti á afla upp úr sjó. En svo segir í Mogganum til heiðurs hæstv. sjútvrh.:
    ,,Samningaviðræðurnar drógust á langinn vegna kröfu Íslendinga um að samið yrði um gagnkvæman afla upp úr sjó en ekki veiðiheimildir án tillits til aflabragða. Þorsteinn Pálsson sjútvrh. lagði áherslu á þessa kröfu.`` En hvað var utanrrh. búinn að segja í næstu setningu á undan? Að aldrei hafi farið á milli mála að ekki væri hægt að semja um skipti á afla upp úr sjó. Hvað var hæstv. sjútvrh. að gera? Hvað var þetta sem hann var að leggja áherslu á? Er það virkilega svo í ríkisstjórninni að hæstv. utanrrh. hafi svo gaman af að plata sjútvrh. að hann láti hann rembast með kröfu í hálft ár, sem utanrrh. segir svo að hafi aldrei staðið til, sé ekki hægt að semja um? Þetta er ákaflega skrýtið, ég verð að segja það alveg eins og er. Ég veit ekki hvernig samskiptin eru. Að vísu kom í ljós þegar þetta mál var til 1. umr. að sjútvrh. og utanrrh. talast aðallega við í gegnum Þjóðarsálina. Það er auðvitað eftir öðru. En staðreyndin er auðvitað sú --- hvort sem utanrrh. hefur vitað þetta allan tímann eða ekki, segir það bara eftir á að hann hafi verið svona spakur, hann hafi vitað að þetta var ekki hægt --- að utanrrn. lét sjútvrn., sjútvrh., utanrmn., sjútvn., Alþingi og að því er virðist alla aðra halda að í raun væri enn þá um eitthvað að semja af einhverjum ástæðum. Menn eru kannski orðnir svo vanir því hér að beitt sé blekkingum af hálfu utanrrn. að menn geri ekkert með það. Mönnum finnst ekkert tiltökumál þótt eitt dæmið enn bætist í safnið. En er það virkilega þannig á Alþingi Íslendinga og í íslenska stjórnkerfinu yfirleitt að ráðherrar geti logið eins og þeim sýnist? Farið endalaust með rangfærslur og ekki gerist neitt?
    Það var einhver ræfils Möllemann í Þýskalandi að segja af sér núna. Hann var knúinn til að segja af sér. Út af hverju? Af því að hann þóttist ekki vita af bréfi sem hafði farið úr ráðuneyti hans. Það kom í ljós að hann hafði vitað um það. Hann bar það fyrst að embættismenn hans hefðu skrifað bréfið án vitundar sinnar, það hafi ekki verið á hans ábyrgð. Bréf þar sem hvatt var til að kaupa vörur af einhverju fyrirtæki frænda hans. Svo fór hann í frí á einhverja sólarströnd og kom til baka og þá kom í ljós að hann hafði vitað um bréfið gott ef ekki bara mælt fyrir um að það yrði sent. Burt með hann. Hann hafði sagt ósatt eða a.m.k. ekki farið nógu nákvæmlega með það sem gerðist í ráðuneyti hans. Hvað mundu margir hafa fokið á Íslandi núna á undanförnum missirum ef sömu vinnubrögðum hefði verið beitt? Hvað væri hæstv. utanrrh. margbrottrækur?
    Það er svolítið athyglisvert að dagana áður en utanrrh. talar um Moggann og segir að aldrei hafi staðið til að semja um neitt annað en það sem gert var, þá tók utanrrh. sjálfur saman minnisblað til utanrmn. og sjútvn. um stöðu málsins áður en farið yrði á síðasta samningafundinn. Minnisblaðið er dagsett 16. nóv. Hvað stendur í því? Fróðlegt er að bera það saman við ummæli hæstv. utanrrh. sjálfs því það stendur á bls. 2 þar sem verið er að fjalla um stöðu deilunnar: ,,Upphafleg krafa okkar, þ.e. Íslendinga, var að EB tæki þar á sig alla ábyrgðina`` --- þ.e. þar sem um er að ræða gagnkvæmnina í veiði, að EB taki þar á sig alla ábyrgðina --- ,,jafnvel þótt þegar hefði verið veitt úr loðnustofninum meira magn en nægði fyrir framsali Grænlendinga til EB á þeim 30.000 tonnum sem síðan eru framseld Íslandi. Í sumar viðraði íslenska viðræðunefndin þá breytingu að ábyrgðin á óveiddu tonnunum í lok vertíðar skyldi skiptast hlutfallslega milli Íslands og EB. EB heldur fast við að það geti ekki tekið á sig ábyrgð á því að Íslendingar nái allri loðnunni enda hafi EB afsalað sér réttinum til þess að ná þessari loðnu á vertíðinni . . .  `` Hér kemur a.m.k. í ljós hvað sem hæstv. utanrrh. segir að um mitt sumar hefur verið þreifað á því við Evrópubandalagið að taka áhættuna á móti okkur Íslendingum að hálfu. En EB hélt auðvitað fast við sína kröfu, enda taldi það sig væntanlega hafa gengið þannig frá málum strax í febrúar 1992 að það þyrfti ekki að kvíða úrslitunum, sem varð raunin. Það var samið nákvæmlega eins og þeir kröfðust. Ekki orð um það að um gagnkvæmni í formi veiði upp úr sjó, í formi afla þurfi að vera að ræða.
    Hæstv. forseti. Mönnum kann að finnast þráhyggja að vera að reyna að fara yfir aðdraganda málsins. Þessar brotalamir í aðdraganda málsins sem að mínu mati eru stórkostlega alvarlegar. Í öllum þróuðum lýðræðisríkjum yrði sett rannsókn í gang á því hvernig í ósköpunum þetta mál hefur borið að. Hvernig í ósköpunum getur það gerst að heilar sendinefndir og heil ráðuneyti skuli höfð að fíflum með þessum hætti svo missirum skiptir og svo komi hæstv. utanrrh. bara og gefi mönnum langt nef og segi að aldrei hafi staðið til að gera það sem menn þóttust vera að reyna allan tímann á löngum og ströngum samningafundum. Mér finnast þetta alger fádæmi. En það er sjálfsagt eftir öðru að þetta sé eins og hvert annað mál sem falli í gleymsku og dá og engum þyki máli skipta nema kannski hæstv. sjútvrh. sem kann að vera eitthvað aumur inni í sér út af þessari meðferð en ber harm sinn í hljóði. (Gripið fram í.) Hafliði var ekki svona dýru verði keyptur af hálfu hæstv. sjútvrh. að hann varð líka að þola þennan ærumissi og þessa niðurlægingu. Hún var hluti af kaupverðinu.
    Eins og ég hef áður sagt, hæstv. forseti, hafa menn gert ítarlega grein fyrir helstu efnisþáttum málsins og það er gert í nál. minni hluta utanrmn. og er þar birt sem fylgiskjal nál. minni hluta sjútvn. Þetta

eru ítarleg álit og að mínu mati með fullnægjandi rökstuðningi fyrir því sjónarmiði sem þar er sett fram. Það tekur langt fram þeim þeim aumlegu tilburðum sem talsmenn meiri hlutans hafa haft uppi undir forustu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem hefur m.a. reynt að færa fyrir því rök með ævintýralegum loftfimleikum, ef svo má að orði komast, í röksemdafærslu að í raun og veru sé enginn skaði skeður því íslenska landhelgin hafi alltaf verið opin fyrir flota Evrópubandalagsins. Hann hafi alltaf verið í landhelginni og þess vegna sé þetta í sjálfu sér ekkert tiltökumál. Þetta er nokkuð sérkennileg söguskoðun og furðuleg og ég spyr mig að því: Hvert á þetta að leiða hv. þm. yfirleitt í málflutningi? Þó svo væri, væri það eitthvað betra fyrir það að búa þá til nýjan samning sem opnaði fleirum inngöngu í landhelgina? Veit hv. þm. ekki hvernig þetta er með þessa tvo, þrjá belgísku síðutogara, hálfgerða tappatogara sem eru ekki orðin merkileg veiðiskip, sem hér hafa sést af og til síðustu sumur? Þeir hafa tekið hér sáralítið magn og eru auðvitað á leiðinni út og var ekki hleypt með pósitífum hætti á nokkurn hátt á ný inn í íslenska landhelgi. Þeir voru hér, hv. þm., þeir voru hér áður en við færðum landhelgina út. Samningurinn gekk út á það að heimila hluta þeirra togara að halda áfram meðan þau skip entust og samningurinn er þannig í eðli sínu að í honum er sólarlag því ekki verða þessir togarar eilífir. Ætli það sé ekki að verða þannig að það sé ekki að verða merkilegt drift á þessum gömlu skipum með þeirra tíma tækni og ekki mikið áhyggjuefni að mínu mati þó að þessi skip hafi sést hér af og til yfir sumartímann á Íslandsmiðum. Það er svo alveg óskylt mál hvort menn vilja fara út í umræður um það hversu skynsamlegur sá samningur var á sínum tíma. Fyrir honum voru rök en það má líka sjálfsagt segja að Íslendingar hefðu getað náð sama árangri með því að halda út og Belgar hefðu þá horfið héðan rétt eins og Þjóðverjar og Bretar með sambærilegum hætti. En á hitt er sanngjarnt að minna að það hafði viss áhrif á andrúmsloftið í þessari deilu þegar Belgar rufu samstöðu andstæðinga okkar og viðurkenndu rétt okkar gegn því að fá þennan samning.
    Veiðiheimildir Færeyinga á krókaveiðum hér við land eru auðvitað alls ólíkar, sömuleiðis þau skipti sem eiga sér stað í gegnum nýtingu á sameiginlegum stofni, eins og loðnunni. Þannig að staðreyndin er auðvitað sú að þetta eru algjör tímamót, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það er verið að opna íslensku landhelgina í fyrsta sinn á nýjan leik fyrir erlendum flota sem ekki hefur átt hér réttindi og ekki hefur verið hér. Ég bið menn að fara í gegnum réttindabaráttu Íslendinga í landhelgismálum á þessari öld og þó þeir fari aftur á þá síðustu þegar pólitíið, götulögreglan, var að reyna að stugga við togurum hér inni á fjörðum. Ég veit ekki annað en alla tíð síðan hafi í raun og veru stefnan verið í eina átt, að treysta betur og auka réttindi Íslendinga í þessum efnum, að ýta í burtu útlendingum sem hér væru við veiðar. Belgísku skipunum hefur verið að fækka, færeyski kvótinn hefur verið að minnka. Þannig að í raun og veru er þetta að verða hverfandi sem hér er innan okkar efnahagslögsögu. Það tekur svo auðvitað steininn úr að hér er, eins og bent hefur verið réttilega á af hv. þm. Steingrími Hermannssyni og fleirum, sá grundvallarmunur á að það er verið að semja um veiðiheimildir útlendinga í fullnýttum stofni, eða stofni sem a.m.k. er ekki hægt að færa sannfærandi rök fyrir að sé vannýttur í þeim skilningi að viðkomandi greinar alþjóðahafréttarsáttmálans eigi við. Þannig að við erum ekki að láta undan og skipta á veiðiheimildum þar sem hinar erlendu þjóðir hafi einhvern rétt með vísan til slíkra ákvæða, að við nýtum ekki möguleika sem fyrir hendi eru. Nei, það er aldeilis ekki. Það gerir það auðvitað að verkum að þessi opnun landhelginnar er miklu meira einhliða en ella af því að það er ljóst að Evrópubandalagið hefur að alþjóðarétti engar kröfur á þessar veiðiheimildir. Ekki einu sinni hefðarkröfur lengur því þar sem þeir hafa ekki verið hér að veiðum í hartnær 15 eða 20 ár.
    Sem sagt, ef farið er yfir helstu þætti í þessu, hæstv. forseti, þá liggur það auðvitað fyrir að það er verið að opna íslensku landhelgina fyrir flota Evrópubandalagsins. Það er í öðru lagi ekki um jafnræði að ræða í þessum samningi í því formi að tryggður sé afli á móti afla. Það er í þriðja lagi ekki um jafnverðmætar veiðiheimildir að ræða, það er ljóst. Í fjórða lagi er verið að leyfa útlendingunum að koma og sækja í fullnýttan stofn. Og í fimmta lagi, sem er auðvitað dæmalaust, eru þessi svokölluðu gagnkvæmu veiðiheimildaskipti þannig að þau fara öll fram innan lögsögu annars aðilans, því við munum ekki veiða mikið af þessari loðnu í grænlensku lögsögunni, ónei. Ef við veiðum eitthvað af henni, ef þessi ólánssamningur verður, þá verður það auðvitað í íslensku landhelginni.
    Ég spurði sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar að því á sameiginlegum fundi utanrmn. og sjútvn. hvort þeir þekktu þess dæmi að svokölluð skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum færu þannig fram að öll veiðin væri í lögsögu annars aðilans. Nei, þeir gerðu það ekki. Þeir þorðu svo sem ekki að sverja það að þetta væri örugglega heimsmet og einsdæmi en þeir vissu þess engin dæmi af skiljanlegum ástæðum að skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum færu öll fram innan lögsögu annars aðilans enda er það sérkennileg gagnkvæmni, satt best að segja, furðuleg gagnkvæmni. En það er von að þeir séu borubrattir, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. formaður utanrmn., með þessa gagnkvæmni. Þetta er alveg ný tegund af gagnkvæmni, annar aðilinn leggi mönnum til alla veiðislóðina.
    Áður en ég skilst við þennan þátt, hæstv. forseti, þá verð ég að segja það alveg eins og er að mér finnst það ákaflega dapurleg örlög hæstv. sjútvrh. Íslendinga sem nú er, Þorsteins Pálssonar, að verða að ganga niður á spjöld sögunnar sem fyrsti sjútvrh. sem stýrir undanhaldi í þessum efnum hvað varðar réttindasókn okkar Íslendinga til aukinna réttinda yfir auðlindum hafsins. Það hefði verið meiri manndómsbragur á því að hæstv. sjútvrh. hefði haft forustu um það að knýja á um réttmætar kröfur okkar Íslendinga til aukinna réttinda á hafsvæðunum í kringum landið, svo sem eins og ef hæstv. sjútvrh. eða hæstv.

utanrrh. sem formlega séð færi með málið hefði náð af stað samningaviðræðum við Breta, Íra og Dani um Hatton-Rockall svæðið þar sem menn hefðu viðurkennt í reynd að Íslendingar ættu þar ákveðnar kröfur, eða fylgt fastar fram réttindum okkar gagnvart deilum Norðmanna og Dana fyrir hönd Grænlendinga í tengslum við Jan Mayen og miðlínuna þar. Og þó ekki nema hæstv. sjútvrh. hefði haft manndóm í sér að taka upp forustu fyrir því að styrkja Kolbeinsey þannig að hún hyrfi ekki í sjóinn og með henni 9.600 ferkílómetrar af íslensku lögsögunni. Allt þetta hefði frekar verið í rétta átt hjá hæstv. sjútvrh. En að ganga niður á spjöld sögunnar sem fyrsti íslenski sjútvrh. á þessari öld sem stýrir undanhaldi í þessum efnum, sem afsalar réttindum sem við höfum áður haft, það er heldur dapurlegt. Og ólík eru örlög hans mönnum eins og samþingmanni hans Matthíasi Bjarnasyni, fyrrv. hæstv. sjútvrh., eða Lúðvík Jósefssyni, hverra orðstír mun lifa lengur en þeir sjálfir vegna forustu þeirra á þessu sviði fyrr á öldinni.
    Þeir hafa að vísu eitthvað verið að ýtast á um það þegar illa stendur á, hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh., hvor fari með málið. Ég tek dálítið eftir því að hæstv. utanrrh. hreytir því stundum út úr sér svona í hliðarsölum: Sjútvrh. er með þetta, og vill sem minnst vera viðstaddur þessa umræðu. Kannski kemur hæstv. sjútvrh. hér upp og segir í vörn sinni: Ja, þetta er mál utanrrh., og má til sanns vegar færa að formlega séð fer utanrrh. með málið. En það hefur verið venjan á Íslandi að líta svo til að sjútvrh. ætti að reyna að beita sér dálítið í þessum efnum og fara faglega með þá þætti málsins sem lytu að hagsmunagæslu sjávarútvegsins með sambærilegum hætti má segja og hæstv. utanrmn. vísaði málinu til faglegrar umsagnar sjútvn. og væri það eðlilegt.
    Ég auðvitað undrast örlög fleiri manna í sambandi við þetta mál. Ég leyfi mér að nefna þar hv. 1. þm. Vestf. sem nú er, Guðjón A. Kristjánsson, og hv. 16. þm. Reykv., Guðmund Hallvarðsson. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það nokkuð sérkennilegt að menn úr þessum jarðvegi sem þeir eru skuli láta þetta yfir sig ganga. Ég er eiginlega alveg gáttaður á því, ég verð að segja það eins og er. Ég hefði búist við öðru.
    Mér finnst, hæstv. forseti, annað atriði þessa máls sem kannski of lítið hefur verið til umræðu og það er ósköp einfaldlega reynslan af samskiptum annarra þjóða við Evrópubandalagið undir hliðstæðum kringumstæðum. Ég hef að vísu ekki haft tök á því að afla mér allra þeirra gagna þar um sem ég hefði viljað, til að mynda frá Kanada eða Noregi, en svo mikið veit ég að ég held það sé allra ljótasta skammaryrði sem hægt er að bera í munn sér gagnvart sjómönnum t.d. á austurstönd Kanada, þ.e. Evrópubandalagið, eða það var a.m.k. Fiskifræðingar hafa haft af því stórfelldar áhyggjur hvernig þeirra tvöfalda bókhald og blygðunarlausa framkoma gagnvart eftirliti hafa í raun og veru þýtt að þar hefur verið stunduð botnlaus rányrkja. Sumir telja allt upp í fimmfalt magn tekið á við það sem heimilað var eða áætlað.
    Við þekkjum auðvitað þann þrýsting sem Norðmenn hafa búið við af hálfu Evrópubandalagsins sem er mér ekki sönnun þess að þeir hafi greitt kostnaðinn af aðgöngumiða Íslendinga inn í þessa samninga, eins og hæstv. utanrrh. barnalega heldur fram, heldur fyrst og fremst sönnun hins að það er varhugavert að rétta þessum aðila litla fingurinn. Reynsla manna hefur sýnt að áður en menn líta við er farið að naga á manni axlarliðinn. Ég held að menn verði líka að setja sig í stellingar og reyna að skilja þær aðstæður sem við er að etja í sjávarútvegsmálum innan Evrópubandalagsins. Sjávarútvegur er þar hluti af landbúnaðinum, er þróunargrein sem fær mikil framlög, mikla styrki. Sjávarútvegurinn er gjarnan uppistaða í atvinnulífi á svonefndum vanþróuðum svæðum innan bandalagsins, atvinnuleysissvæðum, sem gerir það að verkum að batteríið beitir sér af miklum þunga fyrir hagsmunagæslu þessarar greinar og þeirra svæða sem þar eiga mikið undir af þeirri einföldu ástæðu að þau njóta vissrar sérstöðu. Þau eru flokkuð með tilteknum hætti í kerfi Evrópubandalagsins, fá alla þessa styrki o.s.frv. Þannig að þrýstingurinn er m.a. af þeim toga. Þegar hin auðugu iðnríki Evrópubandalagsins liggja undir ámæli fyrir að þau geri ekki nóg fyrir suðursvæðið eða fyrir atvinnuleysissvæðin í Norður-Þýskalandi og Bretlandi er viðkvæðið gjarnan og lausnin gjarnan sú að kaupa sér frið með meiri styrkjum í sjávarútveg og ráðstöfunum til að reyna að efla atvinnu. Enda er, eins og allir vita, býsna mikill völlur á þessum aðilum þegar þeir eru að koma sumir og kynna sín svæði og óska eftir viðskiptum við Íslendinga og fá meira hráefni til vinnslu o.s.frv. Það er m.a. vegna þess að þeir hafa úr talsverðu að moða sem þeim er veitt í gegnum hina sameiginlegu sjóði. Auðvitað er það líka staðreynd að sumar þessara þjóða eiga stóra úthafsflota sem hafa á undanförnum árum haft minnkandi verkefni og mikill þrýstingur á að koma þeim til veiða annars staðar.
    Þetta held ég að menn verði að hafa í huga þegar þeir ræða þennan samning og ekki að horfa bara á útkomu hans á einu ári eins og menn gera gjarnan og mér finnst fara of mikið fyrir að menn segi sem svo að þetta geti svo sem verið bölvað en það sé ekki samið nema til eins árs. Það er einmitt ókosturinn í mínum huga. Það er gert ráð fyrir framhaldi. Þetta er 10 ára rammasamningur sem innan hvers á að semja árlega um veiðiheimildaskipti og það finnst mér ekki bjóða upp á neitt annað en árlegt skak um þessi mál þar sem verður auðvitað þrýstingur af hálfu Evrópubandalagsins á að þess hlutur verði sem bestur.
    Hæstv. utanrrh. hefur farið mikinn á köflum og ekki voru minnst tilþrifin þegar hann talaði í útvarpsumræðunum um frv. sl. fimmtudag og var þar ber að því að fara með hreinum fölsunum með ýmsar tölur um þjóðhagslegan ávinning Íslendinga af þessum samningi. Það er búið að hrekja það allt saman svo rækilega og hæstv. ráðherra hefur orðið sér svo berlega til skammar í því máli að ég þarf ekki að bæta fleiru þar við. Það var þreföld lygi í þeirri stuttu setningu sem hæstv. ráðherra hafði um milljarðana 7 sem voru ekki 7 milljarðar, ekki á einu ári heldur eftir átta ár o.s.frv. En hæstv. ráðherra talar gjarnan þannig

að þetta sé sérstaklega í þágu hagsmuna sjávarútvegsins og fólksins úti á landi sem hann er mikið að hugsa um, að eigin sögn, og segir svo miklar sögur af því hversu mikla atvinnu EES-samningurinn og væntanlega þetta fylgirit hans, sjávarútvegssamningurinn, eigi að gefa okkur og hversu mikil verðmæti.
    Nú getur það vissulega hvort tveggja gerst að einhver ný störf skapist með tilkomu þessara samninga, t.d. við fullvinnslu eða vinnslu sjávarafurða í flök og e.t.v. að einhverju leyti í neytendapakkningar sem ekki hafa verið tollfrjálsar hingað til en þó er það þannig að eðli málsins samkvæmt verður vara sem hér er unnin í neytendapakkningar væntanlega fyrst og fremst frosin af skiljanlegum ástæðum til þess að unnt sé að koma henni á markaði og á borð neytandans í fersku formi. Og þá búum við einfaldlega við þannig samninga að þær vörur eru tollfrjálsar í dag og helsta þróun sem hefur orðið í fiskvinnslu á Íslandi undanfarin missiri í átt til aukinnar fullvinnslu er einmitt vinnsla frosinna stykkja í neytendapakkningar.
    Það getur gerst og mun örugglega líka gerast að íslenskir saltfiskframleiðendur njóti einhvers bata, eitthvað hærra skilaverðs en ella hefði orðið vegna tollaniðurfellinganna í saltfiskinum, sem ég hef lengi haldið fram að sé kannski stærsta málið í þessu frá þeirri hliðinni, þ.e. það einstaka jákvæða atriði sem eitthvað svolítið munar um, þ.e. tollaniðurfellingin í saltfiskinum af ýmsum ástæðum. Það er ekki bara það að það eigi að skapa möguleika til talsvert hærra skilaverðs að fá þarna lækkun á tollum ofan á útflutning sem gæti numið um milljarði króna þó við fáum það að sjálfsögðu aldrei allt. Ég held það muni líka að ýmsu leyti gera ástandið á þessum markaði eftir því sem það getur orðið miklu skárra að hafa ekki þær árstíðabundnu sveiflur sem tollkvótarnir hafa skapað. En á sama tíma hefur hæstv. utanrrh. verið að gera hluti sem ég held að hafi allt of lítið verið talað um og sem ég vil leyfa mér að halda fram og óttast, því miður, að geti reynst sjávarútveginum og sérstaklega saltfiskframleiðslunni ekki minna áfall en sem næmi hugsanlegum ávinningum á hina hliðina vegna tollaniðurfellingar og það er einfaldlega sú framganga hæstv. utanrrh. að brjóta niður einkaleyfi Sölusambands ísl. fiskframleiðenda á saltfiskútflutningi. Ég veit að það þykir sumum afskaplega ófínt að tala svona eins og ég ætla að gera núna, voðalega ófínt, það sé fyrir löngu komið úr tísku að mæla með svona samtökum. En ég ætla nú að gera það samt því að mér er alveg nákvæmlega sama þó að menn haldi að það sé eitthvað fínt að daðra við eitthvert svokallað frelsi í útflutningsmálum Íslendinga. (Gripið fram í.) Ef það er tóm della sem þar er verið að gera, hv. 17. þm. Reykv., ef það er sannanlega óhagstætt okkur Íslendingum þá má það heita hvað sem er fyrir mér. Ég stend ekki í slíkri vitleysu að mæla því bót. Og það er alveg furðulegt að íslenska þjóðin skuli þurfa að því er virðist að endurtaka sömu vitleysuna með reglubundnu millibili að skjóta sjálfa sig í lappirnar og klúðra útflutningshagsmunum sínum vegna þess að samstöðuna brestur svona á þriggja til fjögurra áratuga fresti.
    Það er engin spurning um það í mínum huga að þau samtök íslenskra framleiðenda í saltfiskframleiðslu sem hafa bundist samtökum og skipulagt sig á mörkuðum okkar erlendis undanfarna áratugi hafa unnið mikið þrekvirki. Þau hafa unnið það þrekvirki að leggja nánast undir sig verðmætustu markaði heimsins fyrir saltfisk, ryðja öðrum keppinautum þar út eins og á Spáni þar sem Norðmenn voru næstum horfnir af markaði vegna þess að þeir stóðust ekki samkeppni við Íslendinga. Þessi samtök hafa náð því að skilaverð fyrir fisk til Íslendinga hefur verið hærra en til nokkurrar annarrar þjóðar og þeir hafa náð því að jafna út verðsveiflur þannig að Íslendingar hafa fundið mun minna fyrir þeim en t.d. Færeyingar, Norðmenn og Kanadamenn sem helst hafa keppt við okkur. Þetta hefur hæstv. utanrrh. nú tekist að brjóta niður. Og það væri nú dálítið fróðlegt að fara yfir það í hvaða greinum Íslendingum hefur í sjálfu sér vegnað best innan sjávarútvegsins og skoða það í ljósi þess hvernig að sölumálunum hefur verið staðið.
    Við þekkjum dæmin t.d. um skreiðina hvernig það hefur gengið hérna á undanförnum árum. Þar hafa menn verið með þetta fína frelsi og við getum skoðað loðnumjöls- og loðnuafurðaútflutninginn. Þar er þetta fína frelsi. Ætli það séu ekki svona 10--15 karlar, svona ,,brókerar`` sem vinna við það að senda telefax á morgnana og bjóða þessum og hinum framleiðandanum að selja fyrir þá loðnumjölið. Og afleiðingin er aðvitað sú að íslenski loðnumjölsmarkaðurinn er algerlega í höndum kaupendanna. Þeir ráða þar lögum og lofum. Íslendingar, þó þeir séu svo stórir sem raun ber vitni í framleiðslu, eru ofurseldir öllum verðsveiflum samstundis. Þeir hafa ekkert bolmagn, enga burði til þess að reyna að hafa áhrif á markaðinn í gegnum samtök eða skipulagningu. Erlendir kaupendur hafa þvert á móti stundað það að kaupa inn loðnumjöl frá Íslandi þegar verðið er lágt, lagera það í verksmiðjum í Þýskalandi og víðar og selja það svo þegar verðið hækkar þannig að það sé alveg öruggt mál að Íslendingarnir séu helst að selja sem mest þegar verðið er í botni. Þetta er nú þetta fína kerfi þar. En svo höfum við auðvitað önnur dæmi eins og í saltfiskinum og eins og í frystingunni að verulegu leyti, a.m.k. vestan hafs þar sem menn í gegnum skipulagningu og samstöðu náðu ótrúlegum árangri, 15--20% hærra verð svo áratugum skipti vestan hafs og var niðurstaðan af markaðsstarfi íslensku fyrirtækjanna þar. Og ekki minni árangri er hægt að tefla fram t.d. hvað varðar stöðu SÍF á Spáni og skiptir það ekki alveg eins máli hvort við töpum hálfum eða heilum milljörðum kr. út af aðgerðum af þessu tagi eins og þó að við getum hugsanlega fengið einhverjar sambærilegar upphæðir í gegnum þennan EES-samning? Það fer furðulítið fyrir umræðum um þetta.
    Ég vil leyfa mér að halda því fram að utanrrh. sé að skemma a.m.k. jafnmikið fyrir íslenskri saltfiskframleiðslu þessa dagana eins og hún gæti hugsanlega komið til með að hagnast af hlutdeild sinni í tollaniðurfellingunni samkvæmt EES-samningnum eða viðauka hans. Ég ætla því að leyfa mér, hæstv. forseti, að vitna aftur hér í Fréttabréf samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi sem ég reyndar gerði hér

í umræðum á laugardaginn var, ef ég man rétt, sökum þess að sú umræða varð á undan þessari en ég hafði óskað eftir að það yrði öfugt þannig að við yrðum búin að ræða þennan sjávarútvegssamning áður en frv. um Evrópskt efnahagssvæði kæmi til 3. og síðustu umræðu. En það eru afar athyglisverðar upplýsingar í þessu fréttabréfi sem ég vil gjarnan fá að heyra hæstv. utanrrh. svara og reyna að hrekja. Þar er sagt frá því að í Noregi hafi verið mikil umræða um markaðsmál saltfisks bæði sökum þess að Norðmenn auka nú sína framleiðslu á nýjan leik vegna meiri veiða í Barentshafi og líka hins að þær fréttir hafa borist til Noregs að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda sé að missa einkaleyfi sitt. Það er að missa það vegna þess að hæstv. utanrrh. var búinn að vera með samfelld skemmdarverk í gangi gagnvart því einkaleyfi undanfarin ár með því að veita með tilviljanakenndum hætti af og til einhver útflutningsleyfi hinum og þessum sem riðu svo um héruð niður á markaðssvæðunum í Suður-Evrópu og gerðu sig digra og þóttust vera vel inn undir hjá ráðherranum og þeir gætu nú fengið leyfi svo og svo. Þetta olli auðvitað miklum óróa og var að verða ástand sem íslenska sölukerfinu var mjög óhagstætt og af tvennu illu óskuðu menn þá frekar eftir því að þetta yrði einfaldlega gefið frjálst þannig að það væri þá hægt að gjalda líku líkt. En það breytir ekki hinu að allir sem til þekkja innan þessa sölukerfis eru jafnsárir út af því að hagsmunum Íslendinga skuli klúðrað með þessum hætti.
    Í norsku blöðunum er um það fjallað að Spánverjar séu þeirrar skoðunar að íslenski saltfiskurinn sé bestur, það sé ekki spurning. Það bendir ekki til þess að frammistaða íslenskra framleiðenda og sölusamtaka þeirra hafi verið mjög bágborin undanfarin ár að kaupendurnir, Spánverjar í þessu tilviki, eru ekki í neinum vafa um það að þarna sé á ferðinni besta framleiðslan. Mikill munur sé á gæðum íslenska og norska saltfisksins þeim íslenska í hag. Í þessum greinum, þ.e. í greinunum í norsku blöðunum, er mikið skrifað um ,,íslensku mafíuna``. Íslenska mafían er ekki Cosa Nostra heldur er það SÍF, SÍF einoki markaðinn, haldi verðinu uppi og stjórni því hverjir fá að selja íslenskan fisk og hverjir ekki. Rétt. Og síðar kemur fram í viðtölum við spænska saltfiskframleiðendur að þeir búast við að framboð verði mun meira 1993 og að verð muni lækka er SÍF missi einkaleyfi sitt frá og með 1. jan. 1993. Mér finnst þetta nokkurt umhugsunarefni. Talsmenn saltfiskframleiðenda á Íslandi hafa undanfarin ár haldið því mjög ákveðið fram að það muni verða Íslendingum til bölvunar ef SÍF missir sitt einkaleyfi. Menn eins og Magnús Gunnarsson, Sigurður Haraldsson og fleiri sem þar hafa starfað svo að ekki sé nú minnst á Dagbjart.
    Nú fáum við upplýsingar um það, og er svo sem ekkert nýtt, ég hef áður vitnað í ummæli í norskum blöðum um það sama, að helstu keppinautar okkar, Norðmenn, eru ekki í vafa um það sama. Þeir eru sömu skoðunar og þessir sérfræðingar okkar og í þriðja lagi kaupendurnir, Spánverjar, eru líka sömu skoðunar, þannig að það eru allir sömu skoðunar, Íslendingar, Norðmenn og Spánverjar. Afleiðingar þess að SÍF missi einkaleyfið verður verðlækkun og væntanlega líka að aðrir komast inn á markaðinn sem SÍF í krafti styrks síns og skipulagningar hefur nánast einokað. Norðmenn eru nánast horfnir af Spánarmarkaði. Þeir eru varla til í Katalóníu vegna þess að slíkur er árangur markaðsstarfsins sem þar hefur verið farið fram. Og hvers vegna að vera að þessu? ég spyr, svo lengi sem okkur er stætt á því, svo lengi sem við erum þá ekki píndir til þess að breyta þessu fyrirkomulagi.
    Nú er það svo að þarna er um samtök framleiðenda að ræða sem hafa með yfirgnæfandi stuðningi sinna framleiðenda farið fram á það að hafa þetta leyfi, 97% þegar síðast var kosið um það almennri kosningu, ef ég man rétt, innan vébanda SÍF. 97% vildu hafa þetta fyrirkomulag áfram. Hverjum er verið að þjóna með þessum breytingum? Ekki framleiðendunum. Þeir vilja þetta ekki. Ekki íslenskum hagsmunum. Það held ég að sé alveg vonlaust mál að útskýra þegar sérfræðingar okkar, sérfræðingar Norðmanna og Spánverjar sjálfir eru allir á sama máli um það að afleiðingin hljóti að verða verðlækkun. Á að þjóna einhverri frjálshyggjukenningu með þessu? Stendur það einhvers staðar í kennslubókum að þetta eigi að vera frjálst? Það getur vel verið. Ég hélt að það væri þannig í þessum markaðsfræðum og frjálshyggjufræðum að formúlan væri ósköp einföld. Samkeppnin er í þágu neytandans, lækkar vöruverðið til hans. Er það ekki? Er það þetta sem við erum að stefna að, að lækka verðið hjá neytendunum, viðskiptavinum okkar úti í löndum? Ég hélt ekki. Ég hélt að við værum að keppa að því að halda uppi sem hæstu verði, fá sem hæst skilaverð. Það segir a.m.k. hæstv. utanrrh. þegar hann er að guma af tollalækkunum. En hverjum er verið að þjóna með þessum breytingum? spyr ég.
    Það komu fram í mjög athyglisverðu viðtali við Guðjón B. Ólafsson, forstjóra Sambandsins fyrrum, sem nú er að láta af embætti, þarfar áminningar til okkar Íslendinga um það hvernig við höfum í raun og veru sofnað á verðinum á kannski mikilvægasta markaði okkar þrátt fyrir allt, sem er Bandaríkjamarkaður, af ótrúlegri skammsýni elt tímabundnar verðsveiflur og annað og jafnvel glutrað niður áratugamarkaðsstarfi sem búið var að kosta mikið fé að byggja upp af því að tímabundið gaf betur af sér að fara með framleiðsluna yfir á Evrópumarkað. Og ef ekki hefðu verið til nokkur sterk fyrirtæki sem stóðu af sér framleiðsluna eins og Útgerðarfélag Akureyringa þá væri þessi markaður jafnvel horfinn því það voru örfáir aðilar sem þrátt fyrir allt héldu honum uppi og gátu það vegna þess að þeir höfðu þann efnahagslega styrk og þá burði. Það var ekki vegna þess að stjórnvöld eða að menn með einhverjum skipulögðum hætti og markvisst stæðu við bakið á þeim sem ræktuðu þennan markað meðan aðrir voru að yfirgefa hann, ekki aldeilis. Afkoman var þvert á móti þannig að það gátu þetta ekki aðrir en allra öflugustu fyrirtækin. Svo þegar ástandið batnar á Ameríkumarkaði þá vilja auðvitað allir komast þangað aftur og eru alveg hissa á því að þeir sem eru búnir að halda út gegnum lægðina skuli telja sig hafa þar nokkurn rétt. Svona er þetta

nú.
    Guð minn góður, hvernig halda menn að afleiðingin verði ef útflytjendurnir verða orðnir 20--30 sem koma og fara? Hvar eru þeir allir, snillingarnir sem ætluðu að nýta sér frelsið sem utanrrh. gaf þeim og flytja út ísfiskinn, sprengdu upp fiskverðið á mörkuðunum hér og borguðu fáránlegar upphæðir fyrir fiskinn og fluttu hann svo út? Hvar eru þeir, allir snillingarnir hérna í Hafnarfirði, Reykjavík og víðar? Þeir eru flestir farnir á hausinn, skiljandi eftir sig langa slóð, jafnvel gjaldþrot upp á yfir 100 millj. kr. af einhverjum bílskúrsrekstri sem stóð í eitt og hálft ár eða tvö. Er það þetta sem við viljum fara út í?
    Mér finnst það alveg furðulegt að við skulum sjálfir ganga í það að slátra því fyrirkomulagi sem við Íslendingar höfum verið öfundaðir af af Kanadamönnum, Færeyingum, Norðmönnum og yfirleitt öllum sem við okkur keppa. Ég skil það ekki hafandi þó fyrir okkur dæmin og reynsluna af því hvernig stjórnleysið og vitleysan hefur farið með okkur í skreiðinni, í loðnunni, í síldinni á sínum tíma o.s.frv. Og hvað er svo að gerast í Evrópu, þessari Evrópu þar sem allt er svona gott og grænt? Það sem er að gerast þar er að það eru nokkrir stórir risar að ná undirtökunum í sjávarvörumarkaðnum, þrjár til fjórar keðjur. Og ég held að það sé ekki í samræmi við þá þróun og þaðan af síður í takt við reynslu okkar í gegnum tíðina að standa þá í breytingum af þessu tagi. Ef eitthvað er þá hefði maður spurt sig að því: Á kannski að sameina öll íslensku sölufyrirtækin í eitt stórt fyrirtæki? Er það e.t.v. nauðsynlegur mótleikur við stóru keðjunum sem eru að myndast á meginlandi Evrópu og veikari stöðu okkar á markaðnum vestan hafs? Ég er tilbúinn til að ræða slíkar breytingar og ef stjórnvöld hefðu viljað í samstarfi við atvinnuveginn stuðla að einhverju slíku, búa hérna til eitt virkilega öflugt fyrirtæki sem gæti staðið sæmilega í lappirnar gagnvart hverjum sem er, austan hafs eða vestan. En það er ekki þróun í þá átt, sem hæstv. utanrrh. er að stuðla að með sínum gerðum.
    Það væri gaman að fá að heyra í hæstv. sjútvrh. ef hann nennir eða finnst það ekki fyrir neðan virðingu sína að ræða hérna pínulítið um almenn hagsmunamál sjávarútvegsins í tengslum við þetta mál, fá að heyra viðhorf hans á þessum breytingum. Ég veit ekki hvort hæstv. sjútvrh heyrir. Ég var að lýsa eftir því að það væri fróðlegt að fá að heyra í hæstv. sjútvrh. reifa viðhorf sín til þessara breytinga og þessarar stöðu í markaðsmálunum. Ég er ekki viss um að við fáum betra tækifæri á næstunni til að ræða það en hér, enda nátengt þessu máli, hvort hæstv. sjútvrh. telur þetta allt saman vera í góðu lagi og á góðri leið hjá okkur, t.d. þá stöðu sem Guðjón B. Ólafsson hefur minnt á á mörkuðum vestan hafs eða þær breytingar sem hæstv. utanrrh. er að beita sér fyrir hér í saltfisksölumálum. Ég held að okkur veiti ekki af að reyna að halda sæmilega utan um okkar hagsmuni og ég er alveg sannfærður um að við gerum það ekki með þessum hætti.
    Að lokum, hæstv. forseti, aftur að því sem í upphafinu var rætt. Hvað gerist ef við fellum þennan samning? Ég held að þá gerist einmitt það sem þarf að gerast: viðsemjendur okkar fá þau skilaboð að það sé þó enn sá baráttuhugur eftir í Íslendingum að þeir telji þetta ekki nógu góðan samning fyrir sig og menn verði veskú að gera betri samning eða ekki neinn. Það sé bara þannig. Ég er ekkert viss um að það kæmi mönnum mjög mikið á óvart þrátt fyrir allt. Menn eiga því að venjast að Íslendingar sæki sína hagsmuni nokkuð fast í þessum efnum. Fyrir það urðum við forustuþjóð í sambandi við réttindabaráttu strandríkja að við stóðum nokkuð fast á okkar hagsmunum og okkar rétti, sóttum hann af talsverðri hörku. Ég held að það væri þess vegna í góðu samræmi við það að við kæmum þeim skilaboðum áleiðis að þetta væri ekki nógu góður samningur. Hann væri felldur á Alþingi Íslendinga eða a.m.k. saltaður og vísað til ríkisstjórnarinar og menn yrðu að gera betur.
    Í öðru lagi er það svo auðvitað þannig að það að vera að samþykkja þennan samning á meðan EES-málið sjálft er í uppnámi er auðvitað alger endaleysa. Ef það fer þannig, eins og dæmin sýna að talsverðar líkur hafa reynst á í hvert einasta sinn, að eitthvað verður til þess að klúðra enn þessu EES-máli, guð má vita hvað það verður, manni dettur helst í hug að það falli loftsteinn í höfuðið á einhverjum eða eitthvað gerist. ( SvG: Því hefur verið spáð.) Já, það væri eftir öðru. Alla vega eru þær uppákomur sem tafið hafa þetta mál með ýmsum hætti svo ótrúlegar að það má láta sér detta margt hug. ( Gripið fram í: Máttarvöldin eru nú aðeins að sýna . . .  ) Og máttarvöldin eru mjög hliðholl þeim sem vilja tefja fyrir þessum samningi eins og dæmin sanna, m.a. þetta óveður núna, dýpsta lægð í sögu veðurathugana á Norður-Atlantshafi gerir vart við sig akkúrat þegar á að fara að greiða atvæði um þetta. Hvað með það. Ef við værum búnir að fullgilda þennan samning, til hvers í ósköpunum, hvaða vit væri í því að ganga frá þessum sjávarútvegssamningi sem er Íslendingum svo bersýnilega óhagstæður að það finnst ekki í raun og veru nokkur maður sem ætlast til þess að hann sé tekinn alvarlega þegar hann er að reyna að rökstyðja hið gagnstæða? Ég veit að menn búast við því að þeim séu fyrirgefin látalætin þegar þeir koma hér og til málamynda reyna að segja að þetta sé sæmilegur samningur, ætlast auðvitað til þess að þeir séu ekki teknir alvarlega og þeim sé fyrirgefið um leið og þeir eru komnir út úr dyrunum.
    En hvernig ætla menn að rökstyðja að það geti verið skynsamleg röð á hlutunum af hálfu okkar Íslendinga að opna samninginn, hleypa flota Evrópubandalagsins hingað inn til karfaveiða ef ekkert verður svo úr þessu Evrópska efnahagssvæði og engar tollaniðurfellingar og ekki neitt. Nú má auðvitað ekki tala um þetta því þetta er ekki tengt eins og hæstv. utanrrh. segir hundrað sinnum, en einhvern veginn verður að reyna að ræða hlutina. Ég er a.m.k. alveg sannfærður um það, hvað sem má segja um þetta allt saman, að eina vitið væri það að hafa þessa hluti þannig tímasetta að við hefðum full tök á sjávarútvegssamningnum alveg fram á síðustu stundu og gætum fellt hann eða gert hvað það eina við hann sem okkur sýndist þegar við sæjum alveg fyrir endann á málunum í heild. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að aldrei eigi að samþykkja hann, hann er ósköp einfaldlega svo vondur, en ég get viðurkennt það eða tekið mark á því að aðrir hafi aðrar skoðanir. Gott og vel, þá liggur fyrir að menn eru ekki sammála. En hitt skil ég ekki að menn skuli ekki geta orðið sammála um og það er það að bíða með afgreiðslu á samningnum eða fullgildingu á honum þangað til málið er allt saman í höfn. Ég átta mig ekki á því hvað mönnum gengur til að ætla að haga þessu öðruvísi og segi það sérstaklega með vísan til þess að í raun hefur enginn komið fram í dagsljósið sem hefur reynt að rökstyðja það að samningurinn sé svo góður vegna eigin ágætis að hann ætti að gera það. Enginn hefur lagt í það. Til að mynda reyndu þeir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, sem kallaðir voru til fundar við nefndir þingsins, ekki að gera það, þvert á móti sögðu þeir hið gagnstæða. Ef spurningin snerist bara um þennan samning og innihald hans þá væri hann auðvitað ekki þannig að eigin ágæti að hann ætti að samþykkja.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín lengri, ég vona að hæstv. ráðherrar heiðri okkur með því að lýsa viðhorfum sínum. Ekki síst held ég að nauðsynlegt sé að við fáum að heyra í hæstv. sjútvrh., sérstaklega ræða þennan aðdraganda málsins ef hann vill reyna að rétta þar eitthvað hlut sinn, hæstv. ráðherra, þá held ég að hann ætti ekki að bíða með það.