Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 11:58:54 (4624)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er að gera afskaplega veikburða tilraun til þess að halda uppi málefnalegum umræðum um þetta mál. Það gengur illa eins og sést á þeim orðaleppum sem hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon kýs að velja máli mínu.
    Það er alveg hárrétt að ég er fús til að bera pólitíska ábyrgð á samningnum og ég er fús til að gera það einn án nokkurs stuðnings frá stjórnarandstöðunni. Eigi að síður hlýt ég að leggja fram þau rök sem eru í málinu og þau sýna það einfaldlega að stjórnarandstaðan getur ekki vikist undan því að bera pólitíska ábyrgð á að hafa átt aðild að upphafinu að því að hleypa togurunum hingað inn. Hún getur ekki vikist undan því.
    En vegna þess hvernig orð hafa fallið í umræðunni og m.a. hjá hv. þm. Steingrími Jóhanni Sigfússyni hef ég áhuga á því að fá fram afstöðu hans til eins tiltekins máls. Bæði þingmaðurinn og hv. þm. Steingrímur Hermannsson hafa gert skýran greinarmun á því hvort um er að ræða veiðar erlendra togara á fullnýttum eða vannýttum stofnum og þess vegna langar mig að fá fram hvort hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon gerir greinarmun á þessu. Er hann fúsari til þess að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir ef um er að ræða vannýtta stofna? Ég tel að þetta skipti talsverðu máli fyrir eðli umræðunnar.