Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 12:38:22 (4628)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Fyrst langar mig að ræða örlítið um afstöðuna til veiða Belga og greina frá því sem raunar hefur komið hér fram að það var auðvitað alveg með sérstökum hætti 1975 sem Belgar fengu þessi veiðiréttindi hjá okkur. Þeir voru eina Evrópubandalagsþjóðin sem tók upp hanskann fyrir okkar málstað og börðust mjög dyggilega fyrir honum og það var hreint ekki svo að þeir þyrftu neitt að biðja okkur um að fá einhver smávægileg veiðréttindi. Við vorum mjög fúsir til að veita þeim þau fyrir liðsinnið og enginn hefur held ég gagnrýnt það fyrr en þá nú. Það var samhljóða ákvörðun allra alþingismanna held ég og voru þá einmitt hafréttarmálin meira rædd en nokkuð annað hér á hinu háa Alþingi árum saman eins og menn vita.
    Hafréttarráðstefnan stóð ærið lengi, áratug eða svo. Ég var svo gæfusamur að fá að vera þar í mörg ár og um það bil 2 1 / 2 --3 mánuði á hverju ári, vor og haust venjulega, í tveimur áföngum og ég er líklega sá eini á Alþingi sem var á þessum fundum hafréttarráðstefnunnar.
    Það var mál manna að þessi ráðstefna og sá sáttmáli Sameinuðu þjóðanna, hafréttarsáttmálinn, væri merkasta löggjöf til þess tíma, alþjóðleg löggjöf þar sem fjallað var um 2 / 3 af yfirborði jarðarinnar, þ.e. höfin, varðveislu hafanna og ræktun en líka nýtingu eins og komið hefur fram. Það er einmitt getið um það sérstaklega í 62. gr. hafréttarsáttmálans að það er ekki eingöngu að það eigi að veiða og heldur ekki eingöngu að það eigi að varðveita fiskstofna heldur líka að nýta þá í þágu mannkyns og það segir um það í þessari grein hafréttarsáttmálans:
    Strandríkið skal ákveða getu sína til að nýta hinar lífrænu auðlindir sérefnahagslögsögunnar. Þegar strandríkið getur ekki nýtt allan leyfilegan afla skal það með samningum og ýmsum ráðstöfunum stuðla að því að aðrir nýti þá þessa auðlegð.
    Lengi vel var talað um að höfin væru eign alls mannkyns. Við sem aðalaðgang höfðum að höfunum vorum ekki svokölluð landlukt ríki eða ríki sem engar veiðiheimildir höfðu. Við vorum býsna djarfir til fjárins og gengum langt í því að tryggja sérstök réttindi strandríkjanna. Vorum við Íslendingar ekki barnanna bestir í því og þá ekki ég. Við vorum ekki að hafa svo mikið fyrir því að reyna sérstaklega að halda til haga réttindum annarra þjóða en þeirra sem höfin ættu næst sér. Það held ég að hafi nú orðið til þess m.a. að víðátta sérefnahagslögsögunnar varð meiri en ella hefði orðið og síðan það sem menn vilja nú kannski gleyma að undir lok ráðstefnunnar er farið að tala um hafsbotnsréttindin. Við Íslendingar gerðum auðvitað miklar kröfur til hafsbotnsins af því að svo vill til að víðátta hafsbotnsréttindanna fylgir svokölluð ,,natural prolongation`` eins og það heitir á útlenskunni eða í eðlilegu framhaldi landsins út í höfin og út á hafdjúpin.
    Við Íslendingar erum í Atlantshafinu nákvæmlega þeir sem hæst stöndum í bókstaflegri merkingu, að eðlileg framlenging hafsins út á höfin, hafsbotninn, er einmitt mest frá Ísland þar sem okkar land stendur hæst allra á þessu svæði hafsins eða heimshafanna. Og það má til gamans greina frá því að um það leyti, sem hafréttarráðstefnu lauk, voru miklar deilur um það hve víðátta hafsbotnsréttindanna ætti að verða mikil. Menn komust loks að þeirri niðurstöðu að í fyrsta lagi væri auðvitað um að ræða sérefnahagslögsöguna, þ.e. 200 mílurnar, en síðan mættu þjóðirnar fara æðilangt út með hafsbotnsréttindin. Ég hygg það vera rétt að t.d. Indverjar hafi helgað sér einar 1.500 mílur eða eitthvað í þá áttina vegna þess að fljótin hafa borið fram jarðveg sem nægir til þess að hin eðlilega framlenging sé óslitin alla þá leið út á höfin, þ.e. 1.500 mílur hjá Indverjunum. Við helguðum okkar réttindi. T.d. mundi Hatton-bankinn allur falla innan okkar réttinda, okkar eignar, og er það ekki lítið því að þar eru raunar margar fisktegundir vannýttar. Við höfum ekki enn þá, illu heilli, lokið samningagerðum sem voru hafnar við Breta og Íra á sínum tíma. Það hefur verið vanrækt að ganga frá því en þar er t.d. um 600 sjómílna víðátta hafsbotnsins sem við eigum, gætum átt í sameign með Bretum og Írum eða þá eftir miðlínu. Þá fengjum við allan Hatton-bankann sem er mjög víðáttumikið og verðmætt landsvæði fyrir utan það að olía hefur fundist á ýmsum af þessum svæðum, t.d. norður af landinu, og líka á Hatton-Rockall svæðinu þar sem við auðvitað þurfum að halda okkar rétti til haga þó að ekki væri af neinu öðru en því að við viljum varðveita þennan hafsbotn og höfin yfir honum fyrir öllu jarðraski og hættulegum aðgerðum, t.d. að henda ýmiss konar efnum í hafið. Þetta þurfum við allt saman að varðveita. það ætti að vera verkefni okkar, kannski miklu frekar en þurfa að vera að kljást við þetta blessaða Evrópubandalag og fylgibandalög þess sem nú reynir raunar allt að gleypa. EES er nú lítið orðið annað en verkfæri í höndum Evrópubandalagsins og lítils góðs af því að vænta þó að ýmsir vilji annað gefa í skyn.
    Þess var getið hér að það væri hæpið að hafréttarsáttmálinn væri ókominn í gildi þar sem nokkrar þjóðir vantaði að skrifa upp á hann. Það var alrangt. Hann hefur í mjög mörg ár verið fullgild alþjóðalög, de facto, þ.e. í raun, og allir alþjóðlegir dómar styðjast við hafréttarsáttmálann þó að nokkrar þjóðir skorti til að skrifa upp á hann. Það er rétt að leiðrétta þetta þótt ég viti ósköp vel að sá hv. þm. sem þetta orðaði vill nú síst af öllu gera lítinn okkar hlut og okkar réttindi og hagsmunamálin sem bundin eru hafréttarsáttmálanum sem ég nefndi áðan merkasta alþjóðlegan samning til þess tíma. Við getum kannski sagt að afvopnunarsamningar sem við gleðjumst yfir nú séu enn þá mikilvægari en nokkurn tíma hafréttarsáttmálinn. En það er nú skylt skeggið hökunni og þess vegna má tengja þetta allt saman.
    Af því að ég gerðist svo djarfur að fara að monta mig af því að hafa verið á hafréttarfundunum og hafa átt nokkurn þátt í því að sjálfsögðu og okkar sendinefnd að ná þar miklum réttindum, þá vil ég geta þess, að í upptalningu á þeim mörgu ágætu mönnum sem unnið hafa að mestu hagsmunamálum á sviði sjávarins, gleymdist einn, Benedikt Gröndal, sem var mjög mikill baráttumaður á sínum tíma og kunni tökin á samskiptum við aðrar þjóðir manna best með sínu lundarfari og þekkingu á mönnum og málefnum á þessum fundum, þá var hann nú einna drýgstur kannski í að vinna þjóðir til fylgis við þann málstað sem okkur var mikilvægur.
    Um afstöðu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar efast víst enginn. Ég talaði við hann síðast í fyrradag hygg ég að það hafi verið. Hann var þá heima en ég talaði ekki neitt við hann út af fyrir sig um gildistöku einhverra laga eða ekki. Ég held að það þurfi ekki. Við vitum öll um hans skoðanir á hafréttarmálum, einkum og sér í lagi, og utanríkismálunum öllum. Það efast enginn um að hann er með þeim mönnum sem lengst hafa gengið í því að tryggja okkar réttindi eins ítarlega og nokkur kostur er. En eitt af því sem við lentum í var að við áttum þarna Reykjaneshrygginn sem teygir sig eftir reglunni um eðlilega framlengingu landsins til sjávarins og allar götur til hafdýpisins. Þá vill svo einkennilega til að við mundum hafa eftir þessum reglum drifið okkur 2.000 mílur eða svo suður eftir Reykjaneshryggnum og framlengingu hans. Mönnum fór nú að blöskra og það æxlaðist þannig, ef við notum það orðalag, að við Íslendingar og Rússar ræddum margsinnis um hvað gera skyldi vegna þess að menn voru hvattir til þess að mynda allra handa hópa á samstarfsvettvangi á þessum merkilega fundi hafréttarráðstefnunnar. Og það voru Rússar og Íslendingar sem fjölluðu dálítið harkalega um þetta málefni sérstaklega. Rússar vildu ekki fara mjög langt út en voru þó komnir inn á það að 200 mílurnar væru eðlilegar og einhver framlenging þar umfram. Þess vegna var sérstök regla sett um ríki þar sem um væri að ræða neðansjávarhryggi og að það skyldu gilda sérreglur um hryggina.
    Rússarnir, vinir okkar, buðu held ég í fyrsta umgangi að við mættum fara svona 50 mílur eða eitthvað svoleiðis á Reykjaneshryggnum fram úr 200 mílunum. Við náttúrlega brostum að því og sögðum það nú vera illt í efni ef við mættum ekki leita lengra suður en það. Og líka mætti segja norður því að við eigum hafsbotnsréttindi alveg norður á pól ef rétt er á málum haldið. Lokaniðurstaðan varð að einhver nefndi 300 mílur, þ.e. 100 mílur í viðbót við 200 mílurnar, Rússarnir hafa sjálfsagt gert það, og við þá 400 mílur eða eitthvað slíkt, þangað til sá rússneski, sem var nú dálítið dökkur á brún og virtist vera harður af sér, fór að skellihlæja og sagði: Hættum nú þessu. Við skulum hafa þetta 350, og á það var nú sæst. Við fluttum þetta síðan inn á fundi ráðstefnunnar og enginn hreyfði andmælum. Það var einróma samþykkt. Að vísu voru ekki neinar formlegar afgreiðslur fyrr en á síðasta degi þingsins. Þetta var allt gert með samkomulagi, en það var sem sagt enginn sem gerði athugasemdir við það að þessi regla skyldi verða. Þess vegna eigum við nú þessar 350 mílur. Og það er kátbroslegt þegar menn eru að tala um þessar litlu veiðar Belganna, að það skuli ekki enn þann dag í dag vera farið að verja og nýta hafsbotninn allar götur suður á Reykjaneshrygg, svo að við tökum hann sérstaklega, alla leið suður að mörkum 350 mílnanna. Það er nánast sagt hneyksli. Það er svo yfirgengilegur aumingjaskapur að það er varla hægt ógrátandi um það að tala. Það er vitað að þar eru mikil auðævi, karfi og vafalaust fleiri fisktegundir. En það er stanslaust verið að tuða um það að við eigum þarna 200 mílur þegar við eigum 350. Það er alveg sama hve oft þetta er sagt hér í þinginu, það er varla nokkur maður sem nennir að hlusta á það. Þarna hafa verið tugir og hundruð skipa að veiðum, sérstaklega fyrrverandi austantjaldsskip og núna vafalaust eitthvað frá Rússunum. Ég kann ekki að nefna tölur. Það er ekki einu sinni stuggað við skipunum sem þarna eru og það er þó alla vega í hafsbotnsréttindunum fólgið í fyrsta umgangi öll réttindi yfir botninum. Það eru fullveldisréttindi. Það er beint tekið fram að það eru fullveldisréttindi sem felast í hafsbotnsréttindunum. Orðrétt segir í 77. gr. hafréttarsáttmálans:
    ,,Strandríkið beitir fullveldisréttindum yfir landgrunninu að því er varðar rannsóknir á því og hagnýtingu náttúruauðlinda þess.``
    Sem sagt, það má enginn snerta botninn, ekki koma upp með skel, hvað þá fisk, það verður þá hægt að taka hann. Og enginn má heldur henda neinu í hafið sem getur skaðað. Það er hægt að taka hvern þann sem er inni á þessu svæði og hugsanlega spillir okkar náttúrufari. En Alþingi Íslendinga eða íslenskt framkvæmdarvald getur ekki undið sér í það að styrkja landhelgisgæslu og fara að verja þessi hafsvæði. Og síðan eins og ég gat um áðan þá auðvitað líka Hatton-Rockall svæðið og vinna líka í sambandi við þá olíu sem við vitum að þar er. Eins er það á Jan Mayen-hryggnum, að þar hefur líka fundist olía. Þar eru líka fisktegundir og það er ekkert í því gert.
    Það er alveg rétt að mönnum blöskrar þegar þegar við sýnum kortin af því sem við eigum af hafinu, mun stærra svæði heldur en öll Evrópa er, öll Mið- og Suður-Evrópa. Íslenska hafsbotnssvæðið, íslensk réttindi, íslensk lögsaga, íslensk eign er miklu verðmætari og miklu stærri heldur en þetta blessaða EB allt saman og við þyrftum þess vegna ekki að kvarta . . .  ( Forseti: Forseti vill nú gjarnan spyrja hv. ræðumann hvort hann sé um það bil að ljúka ræðu sinni.) Mig langar nú að tala eitthvað lengur kannski. ( Forseti: Ef svo er ekki, þá vill forseti gjarnan spyrja hvort nú mundi henta að gera hlé á ræðunni.) Já, já, ágætlega. --- [Fundarhlé.]
    Hæstv. forseti. Ég get út af fyrir sig stytt mjög mál mitt. Ég var kannski búinn að segja svona flest af því sem nauðsyn krafði og rifja það upp hvernig afstaða Belga var á sínum tíma þegar þeir hjálpuðu okkur til að ná okkar réttindum og hlutu að launum nokkrar veiðiheimildir sem enn þá eru við lýði. Ég get sagt það eins og það er að oftar en einu sinni hefur verið talað um að svipta þá þessum veiðiréttindum, og ég hef verið eindregið á móti því og talið að það væri óráð jafnvel þó að þeir héldu vel við þessum bátum, að svo miklu leyti sem hægt er að halda þeim við. Þetta eru nú víst orðin mestu hró. Við ættum ekki að gera það heldur frekar að hafa hreinan skjöld í einu og öllu að við svíkjum ekki það sem við lofuðum og sæktum okkar mál alltaf með lögum. Það höfum við gert í hafréttarmálunum. Við höfum aldrei gert neitt það sem ólöglegt hefur verið, enda hafa alþjóðadómar sannað það og sýnt og raunar kannski meira hitt að menn hafa ekki dirfst að reyna að klekkja á okkur með alþjóðlegum dómum. Það hefur auðvitað verið vegna þess að þegar hafréttarráðstefnan stóð yfir, þá voru auðvitað þjóðirnar margar að vakna til vitundar um réttindi sín í höfunum og þess vegna gátum við svo oft fengið liðsstyrk frá þjóðum í öllum heimsálfum og notuðum okkur óspart af því og studdum að sjálfsögðu á sama hátt baráttu annarra. Og þessir fundir gengu þannig fyrir sig. Við þurfum að gæta þess að hvika aldrei frá þeim málflutningi og þeim athöfnum sem eru lögmætar að siðaðra manna rétti. Ég á ekki von á að við þurfum að líða það að neinir reyni úr þessu að hindra okkur í því að fullnýta þau réttindi, sem við höfum, hafsbotnsréttindi sem við eigum, þ.e. fyrst og fremst Reykjaneshrygg út í 350 mílur. Það er vitað að þar hefur verið gífurlega mikill afli víða og það eigum við auðvitað að stöðva og styrkja til þess okkar landhelgisgæslu og það verulega þannig að við getum komið þessum flotum út úr okkar landhelgi. Alveg það sama er að segja um Hatton-bankann. Hann eigum við þó að míðlínureglur giltu og það getur enginn vefengt það. Alveg á sama hátt eigum við réttindi langt í norður, alla leið norður á pól, eftir þeim reglum sem ég var að skýra hér.
    Það voru nú ekki allir sem nú eru inni kunnugir málinu en lauslega má segja að það er það sem kallað er ,,natural prolongation`` eða eðlileg framlenging landsins út yfir höfin þar til hyldýpið kemur og þá 60 mílur fyrir neðan brekkufótinn eftir að við höfðum gengið í gegnum ,,natural prolongation`` þar sem brekkuhlíðin byrjar að falla niður. Þá eigum við að brekkufætinum, sem venjulega er nokkuð djúpt, 60 mílur þar umfram, þannig að við erum með meira og minna réttindi þetta frá 400 mílum, 350 + 60, 400 og upp í 600--700 mílur á norðurslóðum og á Hattonsvæðinu. En ég er ekki kominn hingað til þess að halda neitt málþóf, síður en svo. Það var beðið eftir að menn kæmust til síns heima og kæmust til funda og ég taldi mjög þægilegt að nota þá í millitíðinni mál sem er nú enn þá mikilvægara heldur en nokkurn tíma það sem við erum að kljást við þessa dagana því að mín von er nú sú að þetta Evrópubandalag og þetta EES okkar, það munu aðrir verða til þess en við einn ganginn í viðbót að bjarga okkur frá því að lenda í þeim heljargreipum sem lögum þeirra samkvæmt eru núna komin til Evrópubandalagsins. Það eru náttúrlega aðgerðir Spánverja og fleiri bandalagsþjóða sem verða þess valdandi að það tekst ekkert að hlekkja okkur. Ég er nú bjartsýnismaður, ég trúi því ekki að við verðum þeir ógæfumenn að verða hlekkjaðir í því ofurvaldi sem Evrópubandalagið hefur yfir Evrópska efnahagssvæðinu, getur notað alla sína dóma, bæði gamla og nýja og á komandi árum til þess að fara öllu sínu fram eftir þeim reglum sem þeir sjálfir hafa sett, Rómarsáttmálanum o.s.frv. Ég trúi því aldrei að Alþingi verði svo ógæfusamt að samþykkja það og jafnvel þó að einhver atkvæði falli þannig nú, þá er ýmsilegt eftir áður en það kemst í framkvæmd.