Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 14:00:23 (4630)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við þessar umræður hefur hæstv. utanrrh., sem ekki er í salnum núna, enn farið hamförum við það að koma þessum samningi sem tengist samningsgerð EES í gegnum þingið. Þessi æðibunugangur ráðherrans náði hámarki í sjónvarpi og útvarpi 7. jan. sl. Ég hef þá trú að hann hafi lítið grætt á þeim málflutningi hjá þjóð sinni. Ég held, og hef raunar heyrt það frá mörgum, að fólki ofbjóði slíkur málflutningur. Það er mála sannast að alveg frá því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var lagður fram í haust hefur ráðherrann hagað sér með þeim hætti að efna til ófriðar út af þessum samningum báðum. Það hefði vissulega verið frekar til framdráttar málefninu að ræða það af skynsemi, vega og meta kosti og galla á málefnalegan hátt. Það hefur hins vegar verið nær ógerningur að ræða málið af skynsemi við hæstv. utanrrh. Hann hefur verið eins og ótamið hross í haga, ekki tekið skynsamlegum rökum heldur sparkað í allar áttir og hellt úr skálum reiði sinnar yfir því að menn skyldu ekki nánast krjúpa á kné og þakka honum fyrir þessa samninga.
    Ég og margir fleiri sjáum með engu móti þá miklu kosti sem þessum samningum eiga að fylgja. Ég ætla ekki frekar að eyða tíma mínum í það að fara yfir EES-samninginn. Hann er ekki á dagskrá núna eins og við vitum. Við bíðum aðeins eftir atkvæðagreiðslu þar um. Ég býst við að þjóðin muni segja sitt álit á honum síðar og eftir er að sjá hvort sá mikli ávinningur skilar sér sem hæstv. utanrrh. og hans fylgismenn telja.
    En sjávarútvegssamningurinn er enn á dagskrá, þessi nauðungarsamningur sem við höfum gert við Evrópubandalagið þar sem við fáum ekki neinar gagnkvæmar veiðiheimildir heldur látum nánast einhliða veiðiheimildir í skiptum fyrir tollalækkanir á mörkuðum EB. Allur þessi fiskveiðisamningur er með slíkum eindæmum að þar tekur fyrst steininn úr í samningaviðræðum hæstv. utanrrh.
    Það er ástæða til að minnast svolítið á yfirlýsingar hans þegar hann kom fyrst og kynnti fiskveiðisamninginn í tengslum við EES-samninginn meðal þjóðarinnar. Hann þeyttist um landið og tilkynnti það að 70% af veiðiheimildunum væri langhali en ekki karfi. Svo sem kunnugt er flestum þeim sem á þetta hlýða þurfti hann að bakka með það allt saman aftur því að í dag er um einhliða veiðiheimildir á karfa að ræða.
    Evrópubandalagið gerði þær kröfur að hér væri um einhvern vissan stofn að ræða sem það gæti gengið að, þ.e. karfa en ekki langhala, og það virtist reyndar utanrrh. samþykkja ótrúlega fljótt. Ég hef grun um að sjútvrh. hafi ekki verið alveg sáttur við hversu fljótt var gengið að því.
    Það er ýmislegt hægt að ræða um þennan fiskveiðisamning en ég ætla að byrja á því að nefna það að hæstv. utanrrh. lýsti því yfir við 3. umr. um EES-samninginn að sá samningur ætti að skila okkur 7 milljörðum á ári í hagnað. Hann vitnaði þar til Þjóðhagsstofnunar. Það hefur raunar verið rakið nokkuð að sá ávinningur mundi kannski skila sér eftir 8 ár, kannski ekki. Það væri byggt á ýmsum forsendum sem e.t.v. verða ekki til staðar eftir 8 ár. En í sambandi við verðmæti þess afla sem er um að ræða í fiskveiðisamningnum tekur ráðherra ekki mark á Þjóðhagsstofnun. Samkvæmt því sem stendur í áliti minni hluta sjútvn. eru þessar veiðiheimildir á loðnu alls ekki jafngildar 3 þús. tonnum af karfa og er mikill munur á samkvæmt því mati sem Þjóðhagsstofnun leggur þar til grundvallar. En það vill hæstv. utanrrh. alls ekki viðurkenna. Þar viðurkennir hann ekki mat Þjóðhagsstofnunar en hann telur mjög raunhæft að reikna með 7 milljarða kr. hagnaði af EES-samningnum eftir 8 ár og vitnar þar í Þjóðhagsstofnun.
    Til nánari skýringar á þessu ætla ég þó að vitna frekar í álit minni hluta sjútvn. um það hvort Íslendingar hafi raunverulega nokkra möguleika á því að fá þessa loðnu, sem alltaf er verið að gera mikið

úr. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á síðustu loðnuvertíð var hlutur Íslands í upphafi árs 1992 577.200 lestir. 15. febr. 1992 höfðu norsk loðnuskip náð að veiða 47.000 lestir af sínum kvóta en Grænland hafði ekki nýtt sinn kvóta. Samkvæmt ákvæðum samnings um nýtingu loðnustofnsins eiga Íslendingar rétt á að nýta það magn sem hinar þjóðirnar veiða ekki. Í samræmi við ákvæði samningsins komu 114.000 lestir til viðbótar í hlut Íslands og var því heildarkvóti Íslendinga rúmlega 690.000 lestir. Síðar á vertíðinni var bætt við 50.000 tonnum. Heildarveiði Íslendinga var 630.000 lestir og vantaði því um það bil 110.000 lestir á að það næðist að veiða heildarkvótann.`` Þ.e. þann kvóta sem Íslendingar máttu veiða á síðustu vertíð.
    Það er því alveg greinilegt að á síðustu vertíð náðum við ekki að veiða þann heildarkvóta sem við máttum og hefðum þar af leiðandi alls ekki getað veitt neinn 30 þús. tonna loðnukvóta frá EB til viðbótar.
    Það sést best á þessu hversu mikilsverðar þessar heimildir til loðnuveiðanna eru og hve miklu þær eiga að skila og hvort hér er um raunverulegar gagnkvæmar veiðiheimildir að ræða sem ég tel alls ekki vera.
    Um annað í sambandi við umræðuna um Evrópskt efnahagssvæði og fiskveiðisamninginn, því að þessi fiskveiðisamningur tengist að sjálfsögðu heildarafgreiðslu málsins, væri rétt að líta svolítið á aðra þætti málsins.
    Það hefur verið lögð gífurleg áhersla á að þessi samningur sé okkur nauðsynlegur í því efnahagsástandi sem við búum við, þ.e. minnkandi þjóðartekjur að miklu leyti vegna þess að þorskveiðarnar hafa dregist svo mjög saman þó að vissulega hafi orðið aukning í öðru. Ég fellst á að vitanlega er stór orsök þess hversu þjóðartekjurnar hafa minnkað að þorskveiðarnar hafa dregist saman. Ég tel líka nauðsyn að gera viðskiptasamninga við EB eins og aðrar þjóðir en það leysir ekki þetta mál. Að halda því fram að samningurinn um EES sé okkur svo mikilvægur í þessu efnahagsástandi að við gerum allt sem Evrópubandalagið fer fram á þess vegna er bara rugl.
    Hvað eru íslensk stjórnvöld t.d. að gera til að styðja við aðra nýsköpun í atvinnulífinu? Hvernig eiga íslensk fiskvinnslufyrirtæki, sem mörg hver eru illa stödd og rekin með allt að 12% tapi, að standa að því að efla rannsóknir, þróun og markaðssetningu á þessum nýja markaði sem þau eiga að fá? Skyldu þau hafa eitthvert fjármagn til þess að gera það? Ég minnist þess að framlag á fjárlögum til markaðssetningar vegna Evrópska efnahagssvæðisins var lækkað við afgreiðslu fjárlaga rétt fyrir jólin úr 100 millj. kr. í 50 millj. kr. og fleira er í þeim dúr. Það hefur ekki mikið fjármagn verið lagt til þess að styðja við fyrirtækin í því efni að þau geti hreinlega staðið sig í þeirri vaxandi samkeppni sem þau þurfa að fara inn í ef Evrópska efnahagssvæðið verður að veruleika --- sem raunar er ekkert útséð um enn þá þar sem til þess vantar enn mjög margar forsendur.
    Ég tel að það þurfi að gera verulegar lagfæringar á þessum samningi. Hann er ófullnægjandi eins og hann er. Það hefur verið rakið mjög vel og síðast í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar rétt áðan og ég hef ekki löngun til þess að endurtaka það. En ég tel greinilegt að hér er ekki um jafngildar veiðiheimildir að ræða og það augljóst öllum sem skoða málið. Ég tel heldur enga nauðsyn að afgreiða samninginn nú. Evrópskt efnahagssvæði tekur sennilega ekki gildi fyrr en um mitt ár þó svo það verði samþykkt hér, ef það verður. Það eru enn mjög margir óvissuþættir í því að það nái fram að ganga.
    Við eigum að geta gert betri samning um skipti á veiðiheimildum. Ég tel raunar að við hefðum átt rétt á því að fá þær tollalækkanir á fiskafurðum sem eiga að nást með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði án þess. Ég tel að við hefðum getað náð þeim á grundvelli þess að EB hefur í mörg ár átt greiðan aðgang með iðnaðarvörur hingað og það var raunar viðurkennt af forsvarsmönnum EB, m.a. Henning Christophersen, að hér hefði hallað á Íslendinga og það þyrfti að leiðrétta. Með þessum fiskveiðisamningum er gengið freklega á rétt Íslendinga.
    Í sambandi við hve lítið íslensk stjórnvöld hafa gert í því að búa fyrirtækin undir að takast á við vaxandi samkeppni og reyna að sjá fyrir sér einhverja möguleika í aukinni atvinnusköpun, hvort sem það er á Evrópsku efnahagssvæði eða á einhvern annan hátt, þá langar mig til að nefna að í Morgunblaðinu sl. föstudag var fyrirsögn á baksíðu blaðsins sem hljóðaði svo, með leyfi forseta: ,,Lífhvati til rannsókna á DNA framleiddur hér.`` Í greininni er það nefnt í sambandi við rannsóknir á erfðaefni fruma sem komu á dagskrá vegna sakamáls sem verið var að rannsaka --- þær rannsóknir voru raunar gerðar erlendis --- að þessar rannsóknir er hægt að gera á Íslandi. Það kom fram í greininni sem ég vitna til að bandarískt fyrirtæki hefur haft einkaleyfi á þessari tækni en þetta er jafnframt hægt að framleiða hér og Iðntæknistofnun hefur unnið mikið í því að rannsaka þá enzýmhvata sem hér er um að ræða. Til er íslenskt fyrirtæki, sem heitir Genís og er samstarf Háskóla Íslands, Iðntæknistofnunar og lyfjafyrirtækjanna Pharmaco og Delta, og er m.a. að vinna að því að koma slíkri rannsóknarstarfsemi á framfæri.
    En hvað hafa íslensk stjórnvöld gert t.d. í þessu máli? Það vantaði ekki að í haust kæmu yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstjórn um að hún ætlaði að leggja aukið fjármagn til rannsókna og þróunarstarfa. En hverjar eru efndirnar? Þær liggja í því að hugsanlega verði hægt að selja einhverjar eignir ríkisins og í framhaldi af því hægt að leggja 1 / 5 hluta af sölu eigna til að standa að rannsókna- og þróunarstarfsemi í landinu en framlag til þessarar starfsemi er nánast ekkert. Það framlag sem lagt er til Rannsóknaráðs ríkisins t.d. hefur farið síminnkandi á síðustu árum. Þó því hafi verið lofað á aðalfundi Rannsóknaráðs núna

í haust eða nokkru fyrir jól að gerð yrði bragarbót á er það alls ekki til staðar. Það er ekki fast í hendi.
    En hvers vegna er ég að færa þetta í tal í sambandi við EES og fiskveiðisamninginn? Vegna þess að þarna er um stóran heimsmarkað að ræða og þetta er auðlind sem við eigum hér á landi, þ.e. vel menntað fólk sem hefur sinnt m.a. þessum rannsóknum og gæti ef vel væri á málum haldið verið mikil tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Í þessari grein Morgunblaðsins, sem ég vitnaði til áðan, er rætt um að heimsmarkaðurinn fyrir þessar DNA-rannsóknir sé að verðmæti allt að 12 milljarðar kr. Þá er aðeins verið að ræða um einn afmarkaðan þátt en ekki alla þá þætti sem hugsanlega er hægt að fara inn á.
    Mér finnst hafa verið staðið illa að þessum málum. Það er rætt um Evrópskt efnahagssvæði og fiskveiðasamninginn í tengslum við Evrópskt efnahagssvæði eins og það eigi að leysa öll okkar efnahagsvandamál á næstu árum, en þeim þætti sem virkilega er einhver gróska í og þeim möguleikum sem við höfum er ekki sinnt. Ég held að þó svo að báðir þessir samningar verði samþykktir séum við ekki búin að finna neina lausn á efnahagsvandanum.
    Við þurfum að huga að þessum málum innan lands og við þurfum að styðja við það sem verið er að gera. Við þurfum að láta það unga fólk sem búið er að mennta sig og hefur þekkingu til þess að vinna að þessum málum hafa störf og möguleika á því að þróa þau störf þannig að þau skili arði til þjóðarbúsins en ekki bara að skrifa undir einhverja tvo eða þrjá samninga og með því sé búið að bjarga efnahagsmálum þjóðarinnar. Því hefur ekki verið sinnt að hugsa fyrir þróunarstarfsemi og þegar slík þróunarstarfsemi er jafnvel tilbúin til markaðssetningar, eins og í því tilfelli sem ég nefndi, eru ekki til peningar til að markaðssetja það sem um er að ræða. Það er það sem vantar. Það vantar hugarfarsbreytingu hjá stjórnmálamönnum í dag, að hugsa fyrir því að það þarf að efla rannsóknir og þróun. Það þýðir ekkert að fara af stað eins og með fiskeldi á sínum tíma þar sem bara er framkvæmt og ekki unnar nauðsynlegar rannsóknir áður. Þeim rannsóknum þar sem búið er að vinna undirbúningsstarf er síðan ekki skapaður rekstrargrundvöllur og þeir aðilar sem þar eru að vinna hafa ekkert fjármagn til markaðssetningar þó að nægur markaður sé til og alveg örugglega hægt að sjá þar fram á vaxandi tekjur fyrir þjóðarbúið á næstu árum.
    En hvað varðar þennan fiskveiðisamning, sem við erum að ræða, þá er hann hvorki ásættanlegur fyrir okkur né það sem leysa mun málin. Ég vænti þess að hann verði ekki samþykktur á Alþingi enda nægur tími til að endurskoða hann og gera betri samning.