Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 14:22:07 (4632)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Við fyrri umræðu þessa máls gerði ég grein fyrir sjónarmiðum mínum varðandi þennan samning almennt en vil nú við þessa umræðu víkja nokkuð að þeim gagnrýniatriðum sem hér hafa komið fram af hálfu hv. talsmanna stjórnarandstöðuflokkanna.
    Það má segja að það séu einkum þrjú atriði sem hafa verið nefnd í þeim tilgangi að draga úr gildi samningsins eða til að færa fram mótrök við því að Alþingi samþykki hann.
    Í fyrsta lagi hefur komið fram af hálfu nokkurra hv. þm., hv. 7. þm. Reykn., hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 1. þm. Norðurl. v. að samningurinn feli í reynd í sér uppgjöf í landhelgisbaráttunni og við séum með honum að stíga það örlagaríka skref að hleypa togurum Evrópubandalagsins á ný inn í landhelgina. Af þessum málflutningi má ráða að þau sjónarmið séu uppi af hálfu þessara hv. þm. að það komi ekki til álita að gera samning um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum því hann hljóti ávallt að fela í sér að við hleypum togurum þeirra þjóða sem við erum að semja við inn í landhelgina. Þetta er fyrsta sjónarmiðið sem teflt hefur verið fram og ég vil gera að umtalsefni. Annað sjónarmiðið sem hér hefur komið til umræðu og ég vil gera að umtalsefni er sú skoðun sem haldið hefur verið fram að við séum ekki að gera samning um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum þar sem við fáum þessa loðnu hvort sem er í okkar hlut, hún sé veidd úr sameiginlegum stofni og á grundvelli þeirra samninga sem fyrir liggja þá komi þessi loðna í okkar hlut. Þetta er önnur röksemdin af hálfu stjórnarandstæðinga sem ég vil gera að umtalsefni. Þriðja röksemdin, sem þeir hafa fært hér fram og nauðsynlegt er að fjalla nokkuð um, er sú fullyrðing að í þeim stærðum sem samningurinn kveður á um felist ekki í raun jafngildi veiðiheimilda. Að 3.000 lestir af karfa og 30.000 lestir af loðnu feli ekki í sér jafngildi veiðiheimilda. Ég hygg, frú forseti, að þetta sé í aðalatriðum sú gagnrýni sem hv. talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa sett fram af sinni hálfu.
    Ég ætla þá fyrst að víkja að sjónarmiðum þeirra sem talað hafa á þann veg að við séum hér að brjóta í blað og stíga það örlagaríka skref að hleypa togurum Evrópubandalagsins á ný inn í fiskveiðilögsöguna og gefa eftir og láta undan þeim sigrum sem við höfum unnið í áratuga landhelgisbaráttu og slíka samninga megi aldrei gera. Það er athyglisvert að það eru alls ekki allir talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna sem hér hafa talað sem lýst hafa þessu sjónarmiði. Það kom mjög skýrt fram hjá hv. 7. þm. Reykn. að þetta sjónarmið ætti að leggja til grundvallar og af hálfu hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 1. þm. Norðurl. v. Hv. 1. þm. Austurl. sagði á hinn bóginn í sinni ræðu að það hefði alltaf legið í loftinu að slík gagnkvæmni gæti komið fram. Og á fundi embættismanna í mars 1990 hefði komið fram að hugsanlega mætti gera fiskveiðisamning með gagnkvæmum skiptum á veiðiheimildum en hann mætti þó ekki verða til þess

að minnka umsvif okkar eigin skipa.
    Ég skildi hv. 3. þm. Vesturl. á þann veg að hann hefði lýst svipuðum sjónarmiðum af sinni hálfu án þess að ég ætli að gera honum upp skoðanir. En það er augljóst að sjónarmið þeirra talsmanna stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað eru mjög mismunandi í þessu efni og ekki hvað síst sjónarmið hv. 7. þm. Reykn. og hv. 1. þm. Austurl. sem stangast algerlega á að því er þetta atriði varðar.
    Í þessu sambandi vil ég rifja upp að sú niðurstaða að gera samskiptasamning við Evrópubandalagið og skiptast á gagnkvæmum veiðiheimildum á sér býsna langa sögu. Og það hefur áður komið fram í þessum umræðum að verið er að ljúka deilumáli milli okkar og Evrópubandalagsins sem staðið hefur í um það bil 20 ár. En aðdragandi þessarar niðurstöðu er líka nokkuð langur og fyrir liggur að hv. 7. þm. Reykn. fór 18. apríl árið 1990 sem forsrh. Íslands ásamt utanrrh. á fund framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins til þess að ræða almennt um samskipti Íslands og Evrópubandalagsins og stöðuna í EES-viðræðunum og sérstöðu Íslands. Það hefur sérstaklega komið fram af hálfu hv. 7. þm. Reykn. að í þeim viðræðum var sérstaklega verið að leggja áherslu á sérstöðu Íslands. En eins og alkunnugt er þá lýsti þáv. forsrh. því yfir á þessum fundi með formanni framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins að það kæmi til álita að gera almennan samskiptasamning um fiskveiðimálefni og samning um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Og það liggur fyrir að eftir þennan fund lýsti formaður framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins því yfir að á honum hefði opnast glufa til þess þess að halda samningaviðræðum áfram og ljúka þeim.
    Þetta skref var stigið í tíð fyrri ríkisstjórnar 18. apríl árið 1990. Forsrh. þeirrar ríkisstjórnar lýsti því yfir gagnvart Evrópubandalaginu að sú ríkisstjórn væri reiðubúin að semja um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Ég hef ekki séð gögn um það að í þessum viðræðum hafi þetta viðræðutilboð verið takmarkað við vannýtta fiskstofna. Það kann að vera að þau gögn séu til en ég hef ekki séð þau. Og ég hef heldur ekki séð að þegar þetta tilboð um skipti á gagnkvæmum fiskveiðiréttindum var boðið fram af hálfu þáv. ríkisstjórnar það hafi verið tekið fram að í því fælist að meta ætti veiði á móti veiði. Það kann að vera að þau gögn séu til en ég hef ekki séð þau. Þetta hefur auðvitað það gildi að ekki er mikið gefandi fyrir þau rök sem teflt hefur verið fram af hálfu hv. 7. þm. Reykn. að við séum að gefa eftir í áratuga landhelgisbaráttu með því að hleypa togurum Evrópubandalagsins á ný inn í íslenska fiskveiðilandhelgi eins og hann hefur orðað það. Hann sjálfur fyrir hönd fyrri ríkisstjórnar gaf þetta tilboð til Evrópubandalagsins sem hlaut að fela það í sér hvernig sem það var hugsað að togurum þess yrði hleypt inn til gagnkvæmra veiða. Tilboðið gat aldrei falið neitt annað í sér, fyrst það var nefnt á annað borð að til greina kæmi að semja um gagnkvæm veiðiréttindi, en að togarar Evrópubandalagsins kæmu hér inn til þess að veiða á grundvelli þess samnings. En sá maður sem flytur þessi boð fyrir hönd Íslands getur tæplega komið fram nokkrum missirum síðar og sakað aðra um að vera að gefa eftir í áratugabaráttu fyrir útfærslu íslensku fiskveiðilandhelginnar. Og aðrir sem tóku pólitíska ábyrgð á því að þetta tilboð var gefið Evrópubandalaginu og sátu í þáv. ríkisstjórn geta ekki með mikilli reisn komið fram og haldið þessum rökum á lofti. Ég er í sjálfu sér ekki að gera kröfu til þess að þeir komi fram af reisn. En það væri ástæða til að spyrja í þessu sambandi hvort þingmönnum Alþb., ráðherrum í fyrrv. ríkisstjórn hafi verið ókunnugt um þessar viðræður forsrh. og utanrrh. í Brussel í aprílmánuði árið 1990? Var þeim haldið leyndum fyrir ráðherrum Alþb.? Byggist málflutningur þeirra í þessari umræðu á því að þeir hafi ekki fengið upplýsingar frá forsrh. og utanrrh. fyrrv. ríkisstjórnar um þennan fund þar sem þetta tilboð var gefið? Það er nærlægt að ætla að svo sé því að ótrúlegt er að talsmenn Alþb. komi fram með þær yfirlýsingar eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði ef honum hefði verið kunnugt um það tilboð sem sú ríkisstjórn sem hann sat í gerði um þetta efni.
    Ég lít ekki svo á að samningar um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum feli í sér nokkurt afsal í landhelgisbaráttu okkar. Ég leit ekki svo á þegar það tilboð var fyrst gefið af fyrri ríkisstjórn og geri það ekki enn. Ég er þess vegna ekki að gagnrýna að þetta tilboð skyldi hafa verið gefið á sínum tíma. Ég tel að það hafi verið í fullu samræmi við gang þeirra viðræðna sem þá fóru fram. Ég er hins vegar að draga þetta hér fram til að sýna fram á að það eru ekki gild rök að bera það á borð nú af þeim sem að því stóðu að aðrir séu að gefa eftir í þessu mikilvæga hagsmunamáli og réttindamáli íslensku þjóðarinnar.
    Þá ætla ég að víkja örfáum orðum að þeirri fullyrðingu að við séum ekki að skipta á gagnkvæmum veiðiheimildum vegna þess að við fáum þessa loðnu hvort eð er í okkar hlut. Nú er það vissulega svo að við erum að gera samning um skipti á veiðiheimildum í tveimur mjög ólíkum fiskstofnum. Karfi og loðna eru mjög ólíkar tegundir að þessu leyti. Loðnan er vissulega þess eðlis að hún er duttlungafyllri og um margt erfiðari viðfangs. Á það hefur engin dul verið dregin. Og þess vegna var það upphaflegt sjónarmið okkar og krafa að hér yrði um að ræða skipti á loðnu annars vegar og einhverri vannýttri tegund af okkar hálfu eins og til að mynda langhala hins vegar. En þær fullyrðingar, sem að þessu lúta, er reynt að styðja með þeim ákvæðum samningsins milli okkar annars vegar og Norðmanna og Grænlendinga hins vegar að okkur beri að veiða þá loðnu sem hinum þjóðunum tekst ekki að veiða. Menn sleppa því gjarnan, ekki alltaf en gjarnan, í þessu samhengi að í samningnum eru ákvæði um að fáum við meira í okkar hlut þá beri að taka tillit til þess við næstu vertíð og draga það til baka. Um þetta gilda að vísu allflóknar reglur en í meginatriðum byggja þær á því að hver þjóð eigi ekki rétt á stærri hlut en kveðið er á um í samningi. Nú hefur það gerst á undanförnum árum að komið hefur stærri hluti af loðnunni í okkar hlut og enginn hefur mælt á móti því. En loðnan er duttlungafullur fiskur og hún hefur engan veginn alltaf hagað sér eins og hún hefur gert á allra síðustu árum. Og stundum höfum við þurft á því að halda að fá að sækja

hana út fyrir landhelgi Íslands. Og við vitum ekki hvenær að því kemur næst að aðstæður verða með þeim hætti. Þetta verða menn að hafa í huga í þessu sambandi. Í annan stað þurfa menn að hafa það í huga að Grænlendingum er í lófa lagið að framselja Norðmönnum beint hluta af sínum kvóta ef Norðmenn kaupa slíkan kvóta beint frá Grænlendingum geta þeir veitt hann samkvæmt ákvæðum samningsins að hluta til innan okkar fiskveiðilögsögu. Af þessu má ráða að mínu mati að þessi rök eru ekki gild í þessari umræðu.
    Ég ætla þá að víkja nokkrum orðum að þriðju fullyrðingunni sem byggir á því að í reynd sé ekki um að ræða gagnkvæmni á milli 3.000 lesta af karfa og 30.000 lesta af loðnu. Nú er það svo að það er erfitt að finna óskeikula mælistiku í þessu efni. Og ég ætla ekki að halda því fram að til sé sá mælikvarði sem sé óskeikull um mat á verðmæti þessara tegunda. Við vitum einnig að verð á hvorri tegund um sig getur sveiflast til af ýmsum ástæðum, náttúrulegum ástæðum, markaðsástæðum og ýmsu öðru. Þannig að dagverð á einstökum tegundum segja ekki stóra sögu í þessu efni. Sú viðmiðun sem stuðst var við þegar þessi samningur var gerður eru verðmætastuðlar sjútvrn. eins og þeir hafa verið gefnir út í reglugerð á hverju ári síðan 1986 á grundvelli laga og til hliðsjónar voru einnig sambærilegir verðmætastuðlar Evrópubandalagsins. En á þessum tveimur verðmætastuðlum er verulegur munur. Ég legg meira upp úr þeim verðmætastuðlum sem við höfum gefið út og hygg að þeir séu miklu nær réttu lagi en verðmætastuðlar Evrópubandalagsins.
    Samkvæmt þessum stuðlum er verðmætahlutfall karfa á móti þorski 0,41 og loðnu 0,05. Það fer ekkert á milli mála að sé þessum mælikvarða beitt er um jafngildar heimildir að ræða. Þau verðmæti sem eru lögð til grundvallar eru markaðsverð á viðkomandi tegundum á því tímabili sem er næstliðið áður en reglugerð er gefin út hverju sinni, markaðsverð á innlendum markaði.
    Hv. 1. þm. Austurl. orðaði það einhvern veginn á þann veg að þó innbyrðis skipti í kvótakerfinu eigi að gilda á þessum grundvelli þá endurspegli þessi mælikvarði ekki þjóðhagslegt mat. Ég hef þá athugasemd fram að færa hér að ef við teljum að við getum notað þessa mælikvarða í innbyrðis skiptum okkar í milli í kvótakerfinu án þess að vera bersýnilega að hlunnfara einn aðila á kostnað annars, þá hljótum við líka að geta notað þessa mælikvarða í samskiptum okkar sem þjóðar út á við gagnvart öðrum þjóðum. Ég hef aldrei heyrt því haldið fram að þessir mælikvarðar hafi leitt til þess að sumir útgerðarmenn hafi verið hlunnfarnir í skiptum innbyrðis í kvótakerfinu en aðrir hafa fengið óeðlilega mikið í sinn hlut og er búið að beita þessum stuðlum síðan 1986. Ég hef aldrei heyrt því haldið fram. Meðan við teljum þessi hlutföll vera sæmilega réttlát innbyrðis í kvótakerfinu, hvers vegna og með hvaða rökum ættum við að halda því fram að þau lýstu ekki eðlilegum hlutföllum þegar við erum að semja við aðrar þjóðir? Ég hef ekki heyrt gild rök fyrir því.
    En ég skal fyrstur manna taka fram að þessir mælikvarðar eru ekki heilagir. Ég hygg að hv. 1. þm. Austurl. hafi notað það orðalag að þessir mælikvarðar væru ekkert heilagir og auðvitað eru þeir ekkert heilagir. Það er mjög erfitt að búa til mælikvarða um verðmætamat á mismunandi fisktegundum þar sem við vitum að verð sveiflast mjög misjafnlega og af ýmsum ástæðum og sömu aðstæður eiga ekki við allar tegundir í senn. Allt gerir þetta það að verkum að það er erfitt að búa til slíka verðmætastuðla.
    En þá hefur verið til þess gripið að taka dagverð á karfa þar sem það hefur í einstökum tilvikum farið á einhverja toppa og því hefur verið haldið fram að það ætti að vera mælikvarði. Ég hygg að fæstir taki í raun og veru undir slík sjónarmið og hef í reynd ekki heyrt þeim haldið fram af mikilli alvöru í þessari umræðu.
    Í annan stað hafa menn sagt sem svo: Við skulum taka mið af verðinu á karfa á Þýskalandsmarkaði þar sem það hefur verið allra hæst og bera það saman við verð á skiptum á loðnuheimildum þegar nánast enginn markaður hefur verið fyrir slík skipti og þar af leiðandi nánast ekkert verð á loðnuheimildunum. En á þessu er verulegur munur. Í fyrsta lagi veiðist loðnan ekki nema hluta úr ári og það hlýtur því að skipta máli hvenær menn eru að taka viðmiðanir af sölu á aflaheimildum að því er loðnuna varðar. Á hinn bóginn höfum við stýrt framboði á fiski inn á Þýskalandsmarkaðinn. Við höfum með takmörkuðu framboði þangað náð að selja hluta af karfanum á þessu háa verði með því að takmarka framboðið. Öllum er ljóst að ef framboðið væri ekki takmarkað inn á markaðinn þá væri það miklu lægra og gæfi allt aðra mynd. Samanburður af þessu tagi er þess vegna ekki marktækur í þessum tilvikum.
    Þá hefur verið vitnað til verðmætastuðla Þjóðhagsstofnunar sem fela í sér heildarverðmætamat á einstökum tegundum. Þessir stuðlar eru í sjálfu sér réttir. Enginn ber á móti því að Þjóðhagsstofnun hafi reiknað rétt út heildarverðmæti á þessum tegundum og mismun á milli einstakra tegunda. Hitt er svo annað mál hvort þetta er eðlilegur samanburður vegna þess að hér er um mjög mikinn mun að ræða, annars vegar á vinnslustigi einstakra tegunda og sölu á afmörkuðum mörkuðum sem með takmörkuðu framboði gefa hluta af aflanum hærra verð. Í þessum verðmætastuðlum um heildarverðmætamat felst vinnsluvirði þess fisks sem unninn er um borð í fiskiskipum, bæði þorsks og karfa, og líka það sérstaka verð sem fæst á þessum takmörkuðu mörkuðum.
    Ef við horfum á hvernig þetta skiptist í magni þá eru rúmlega 7% af þorskinum flutt út sem ísfiskur eða fiskur í gámum á þessa markaði sem gefa hæst verð, 7%. En 28% af karfanum er flutt út á þessa takmörkuðu markaði. Það sem er unnið um borð er af þorski um 14%, en 22,5% af karfanum. Það sem fer til vinnslu innan lands er tæplega 80% af þorskinum en tæplega 50% af karfanum.
    Með öðrum orðum fer til vinnslu um borð í skipum og sölu á þessum mörkuðum, sem við stýrum framboði á og gefa af þeim sökum hæsta verð, um 20% af þorskinum en um 50% af karfanum. Það gefur auga leið að þessi mismunur gerir það að verkum að ekki er hægt að nota þennan verðmætastuðul óleiðréttan sem mælikvarða á það hvort hér er verið að skipta á gagnkvæmum veiðiheimildum eða ekki. Alveg ljóst.
    Þess vegna lít ég svo á að hægt sé með alveg óyggjandi hætti að halda því fram að þau rök sem hér hefur verið teflt fram gegn því að samningurinn feli í sér gagnkvæmar veiðiheimildir séu ekki fullgild. Sá mælikvarði sem verðmætastuðlar sjútvrn. byggja á komist næst því, þrátt fyrir allt, að segja til um hvert er eðlilegt mat á þessum veiðiheimildum. Ég ætla ekki að halda því fram að þar sé um 100% nákvæmni að ræða enda engin leið að gera það. En ég fer ekki ofan af því að þar er um að ræða þá aðferð sem kemst næst því að meta þetta gildi.
    Það skiptir okkur vitaskuld miklu máli að standa á því grundvallarsjónarmiði að hér sé um gagnkvæmni að ræða. Ekki síst vegna þess að við gerum ráð fyrir því á grundvelli samningsins að þessi mál komi upp árlega til umfjöllunar og þá hljótum við á grundvelli fenginnar reynslu að vísa til þess að það er grundvöllur samningsins að verið sé að skipta á gagnkvæmum veiðiréttindum.
    Frávik geta auðvitað alltaf orðið. Ef við höfum metið þetta með ekki nægjanlegri nákvæmni þannig að um verði að ræða 10% skekkju á annan hvorn veginn, þá er þar um u.þ.b. 5 millj. kr. að tefla. Vitaskuld er það ekki stór upphæð, en eigi að síður hljótum við, bæði nú og eins í framhaldinu, að ganga út frá þeirri grundvallarkröfu að um jafngildi sé að ræða. En skekkjumörk upp á u.þ.b. 10% fela í sér verðmæti á veiðiheimildum upp á u.þ.b. 5 millj. kr. Í heild sinni verður því að líta svo á að við höfum komist að niðurstöðu sem sé ásættanleg í þessu efni.
    Hv. 3. þm. Vesturl. beindi nokkrum spurningum til mín sérstaklega sem ég vil víkja að. Hann innti mig eftir því hvort ég væri tilbúinn að beita mér fyrir því að sá viðbótarkvóti sem við fáum nú frá Evrópubandalaginu af kvóta Grænlands yrði aðeins veiddur innan grænlenskrar lögsögu og boðinn loðnuskipum til kaups á uppboðsmarkaði.
    Ég tel vegna þessarar fyrirspurnar rétt að minna hv. þm. á að eins og samningurinn liggur fyrir eftir þær breytingar sem gerðar voru á honum á síðasta ári, þá var samið um sérstakar takmarkanir á veiðum Norðmanna innan íslensku lögsögunnar, en með því að Grænlendingar hafa ekki haft nein skip til loðnuveiðanna þótti ekki ástæða til þess að setja sambærilegar takmarkanir inn í samninginn af því er varðar veiðar úr kvóta þeirra. En aðalatriði málsins er þó það að ég tel það óskynsamlegt þegar við erum að semja um að fá hlut úr þessum sameiginlega stofni sem tilheyrir Grænlendingum að takmarka þá veiði við grænlenska lögsögu. Með því móti værum við að gera okkar skipum erfiðara um vik að ná þessari loðnu. Þegar af þeirri ástæðu tel ég að það þjónaði ekki íslenskum hagsmunum. Ég tel að þegar við höfum samið um að fá þennan hluta af kvóta Grænlendinga sé eðlilegast að leyfa íslenskum skipum að ná honum þar sem hentugast er fyrir þau og það sé best í samræmi við hagsmuni Íslendinga í þessu efni.
    Þá innti hv. 3. þm. Vesturl. eftir því hvers vegna ekki hefði verið gerð krafa um að um borð í þessum skipum yrðu sérstök staðsetningartæki. Ég skil það svo að þar sé átt við staðsetningartæki sem nemi sendingar í gegnum gervihnetti. Nú er það svo að við höfum eftirlitsmenn um borð í þessum skipum þannig að það mun aldrei koma til þess að það verði nein vandkvæði á því fyrir okkur að staðsetja skipin. En ég þykist vita að hv. þm. er um það kunnugt að sjávarútvegsráðherrar Evrópubandalagsins hafa á fundum sínum einmitt rætt þá kröfu framkvæmdastjórnarinnar að slíkum tækjum verði komið fyrir í öllum skipum Evrópubandalagsins og hefur sitt sýnst hverjum í því efni. Ég veit til að mynda að Danir tóku þeirri tillögu fálega, en af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins hafa verið uppi kröfur um að öll skip þess yrðu búin slíkum tækjum. Ég tel að það skipti ekki neinu höfuðmáli í þessu sambandi, þó vel kunni að vera að það verði til bóta og ég ætla alls ekki að mæla gegn því, með því að við höfum eftirlitsmenn um borð og af þeim sökum á ekki að koma til þess að það verði nein vandkvæði á því að staðsetja skipin.
    Þá spurði hv. þm. að því um hvaða kvóta væri verið að ræða því ekki hefði verið dreginn frá neinn sérstakur kvóti við úthlutun aflaheimilda á þessu ári. Spurning af þessu tagi hefur áður komið fram í umræðum um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég hef minnt á að varðandi þær veiðiheimildir sem við höfum veitt útlendingum, bæði að því er varðar Belgíumenn og Færeyinga, þá hefur ekki verið staðið þannig að verki á undanförnum árum að þær veiðiheimildir hafi sérstaklega verið dregnar frá útgefnum heildarkvóta, heldur hafa þær komið þar til viðbótar. Ég geri ráð fyrir því að sami háttur verði á hafður og beitt hefur verið gagnvart öðrum veiðiheimildum útlendinga innan lögsögunnar á undanförnum árum að því er þetta atriði varðar.
    Kjarni málsins varðandi þennan samning, sem menn gera kannski ekki mikið úr í þessari umræðu, er hins vegar sú staðreynd að við höfum með alveg óvenjulegum hætti tryggt mjög gott eftirlit með þessum veiðum. Við höfum tryggt eftirlitsmenn um borð í skipin á kostnað útgerðanna. Við höfum tryggt að aðeins þær hafnir sem við viðurkennum fyrir íslensk skip eru löndunarhafnir fyrir þann afla sem hér er veiddur. Við höfum tryggt það að ef einhver þorskur eða meðafli af öðrum tegundum verður umfram 10% getur eftirlitsmaðurinn fyrirskipað að skipið fari til veiða annars staðar innan svæðisins og hætti veiðum þar sem það er þegar slíkar aðstæður koma upp. Í þessum samningi eru því óvenju ströng og góð ákvæði að því er varðar allt eftirlit með veiðunum og ástæða til að gera það að sérstöku umtalsefni.
    Ég vil svo aðeins víkja að einu atriði sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykn. sem lagði mikla áherslu

á það að líta yrði svo á að loðnan sem við veiðum samkvæmt þessum samningi væri sú loðna sem veidd yrði í lok tímabilsins. Þ.e. að síðasta loðnan sem veidd yrði yrði sú loðna sem teldist veidd á grundvelli þessa samnings. Það var upphafleg krafa okkar að þetta sjónarmið gilti við mat á þessum veiðum. Á það var ekki fallist af hálfu Evrópubandalagsins. Við tefldum fram því sjónarmiði að hér kæmi til mats hlutfallsleg veiði, en í samningnum sjálfum er hvergi neitt kveðið á um það hvaða loðna það er sem telst veidd samkvæmt samningnum. Fyrir þá sök getum við auðvitað haldið fram upphaflegum sjónarmiðum okkar þegar endanlega á að meta gagnkvæmnina.
    Ég vil þó vegna þessara ummæla minna á að í tíð fyrri ríkisstjórnar, meðan hv. 7. þm. Reykn. gegndi embætti forsrh., var gerð sérstök bókun á milli ríkisstjórna Íslands, Grænlands og Noregs um framkvæmdaatriði varðandi þennan loðnusamning. Þar segir skýrt og skilmerkilega að þeir kvótar sem Grænlendingar muni hugsanlega selja Íslendingum eða Norðmönnum skuli miðast við fyrstu loðnuna sem veiðist. Meðan hv. 7. þm. Reykn. veitti ríkisstjórn forstöðu var gerð bókun af þessu tagi um túlkun á framkvæmdaatriðum loðnusamningsins, að loðna sem Grænlendingar seldu annaðhvort Íslendingum eða Norðmönnum skyldi skoðast sem fyrsta loðnan sem veidd yrði á vertíðinni. Hv. þm. getur því ekki gagnrýnt það hér og nú að með óyggjandi hætti sé ekki tekið af skarið um þetta efni í þeim samningi sem hér liggur fyrir.
    Ég held því fram, frú forseti, að hér hafi verið sýnt fram á að sú gagnrýni sem hv. talsmenn stjórnarandstöðunnar hafi teflt fram eigi ekki við gild rök að styðjast og sú niðurstaða sem hefur fengist í þessum samningi sé ásættanleg fyrir okkur og þess vegna sé rétt og eðlilegt af okkar hálfu að staðfesta þennan samning og Alþingi gefi heimild til þess að fullgilda hann.