Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:08:32 (4635)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er dálítið annað að reifa sjónarmið og lýsa því yfir að það geti komið til greina að taka upp viðræður og hinu að vera reiðubúinn til samninga eða gera samningstilboð eins og hæstv. sjútvrh. bar upp á hv. 7. þm. Reykn. og fyrrv. forsrh. að hann hefði gert. Hann hefði boðið Evrópubandalaginu samninga. Það er mikill munur á þessu. Ég held að hæstv. sjútvrh. verði að gæta sín að taka ekki svona strákslega til orða og vanda sig þegar hann er að endursegja hluti sem gerast á fundum þar sem hann var ekki viðstaddur. Því að hann var þá í hvíld eftir að hans eigin ríkisstjórn hafði sprungið með eftirminnilegum hætti og endurhæfingu sem hefði þurft að standa lengur.
    Svo vil ég segja um það sem hæstv. sjútvrh. hafði hér uppi um útreikning um jafngildi veiðiheimilda og studdist þar við stuðla og neitaði að horfast í augu við raunveruleikann. Þetta minnir mig mjög á reiknimeistarann Sölva Helgason. Hann hafði þá kenningu að reikningarnir væru mikilvægari en veruleikinn, að útkoma reikningsdæmisins væri réttari en staðreyndirnar. Þetta er nákvæmlega eins hjá hæstv. sjútvrh. Hann er eins og Sölvi Helgason að reyna að segja okkur það að einhverjar reikningsformúlur séu réttari en raunveruleikinn.