Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:14:09 (4639)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er rétt að Grænlendingar geta selt Norðmönnum veiðiheimildir. En það gilda um það reglur hvernig Norðmenn mega veiða innan okkar lögsögu og ég vil vekja athygli á því að þeir mega aðeins veiða 35% af bráðabirgðakvótanum og þeir mega ekkert veiða eftir 15. febr. og það fer að koma að því að sá dagur renni upp.
    Út af þessari deilu um verðmætastuðlana, þá held ég að það sé alveg ljóst að við verðum að líta á hvers virði þessi karfi væri ef við gætum veitt hann. Miðað við að hér er um fullnýttan stofn að ræða, þá gætum við veitt þessi 3 þús. tonn. Ég er þess fullviss að engum mundi detta í hug sem fengi þær veiðiheimildir að landa honum eingöngu á innlendum markaði. Það er staðreynd sem ekki verður á móti mælt og skiptir þar engu máli þótt meiri hluti sjútvn. og hæstv. ríkisstjórn líti á þessa stuðla sem heilagan sannleika. Að vísu er hæstv. sjútvrh. farinn að draga nokkuð í land og það er vel en það hefur ekki heyrst áður á Alþingi af þeirra hálfu.