Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:17:45 (4642)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Þessi athugasemd hv. 3. þm. Vesturl. byggist á þeim misskilningi að það sé sjálfgefið að Íslendingar eigi þessa loðnu. Við erum að ræða hér um veiðar úr sameiginlegum stofni. Þegar við fáum hluta af kvóta Grænlendinga hlýtur það að vera til hagsbóta fyrir íslensk skip, sem fá þann kvóta, að fá að veiða hann innan íslenskrar lögsögu ef loðnan gefur sig betur þar. Allt annað er takmörkun á því og væri gegn hagsmunum íslenskra skipa sem fá þennan kvóta. Ég hélt að það ætti að liggja alveg í augum uppi og furða mig á því að hv. 3. þm. Vesturl. skuli ekki koma auga á þetta jafnglöggur maður og hann er og jafngóða þekkingu og hann hefur á málefnum sjávarútvegsins í landinu.