Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:22:39 (4647)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi staðsetningartækin, þá vil ég einnig gagnrýna það eða ítreka þá gagnrýni sem ekki var svarað að það var ekki leitað til Landhelgisgæslunnar við undirbúning þessa máls. Þetta er ámælisvert.
    Varðandi löndunarhafnirnar er hæstv. sjútvrh. áreiðanlega heldur ekki að heyra það í fyrsta skipti að það hefur verið töluverð gagnrýni á þessar löndunarhafnir einmitt vegna íslenskra skipa og svo að ég lesi nú bara úr blaði úr kjördæmi hæstv. ráðherra, þá segir Sigurbjörn Hilmarsson fiskverkandi, stærsti kaupandi á fiskmarkaði Vestmannaeyja: ,,vigtun erlendis skrípaleikur`` og telur að þarna sé alls ekki um fullnægjandi eftirlit að ræða. Þetta er í blaðinu Fréttir frá 17. des. sl. og ef ég tala hér öðru sinni, þá er ég fús til að rekja þetta nánar.