Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:23:55 (4648)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er að sjálfsögðu alltaf eðlilegt að fylgjast sem best með því hvernig eftirlitinu er hagað, en það hafa ekki verið færð fram fyrir ráðuneytið upplýsingar sem gefa tilefni til þess að það megi ekki treysta því eftirliti sem ráðuneytið hafði viðurkennt í þessu efni, í þessum tilteknu höfnum.
    Varðandi staðsetningartækin þá er ástæðulaust að hafa um þau mörg orð. Ég geri ekki ráð fyrir því að það verði erfitt að sækja þessar kröfur því að eins og ég hef greint hér frá áður, þá hefur framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins verið að gera kröfu um það gagnvart sínum bandalagsríkjum að setja slík staðsetningartæki um borð í fiskiskipin til þess að hafa betra eftirlit með þeim. Það segir hins vegar ekki aðra sögu en þá hvar skipin eru staðsett á hverjum tíma, ekki hvað þau eru að veiða eða hvernig samsetning aflans er.