Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:31:22 (4650)


     Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Því miður missti ég af ræðu hæstv. sjútvrh. en mér skilst að hún hafi verið mjög athyglisverð og mun hann ekki síst hafa rætt um fund þann sem hæstv. utanrrh. og ég áttum í Brussel 18. apríl 1990. Í ræðu hæstv. sjútvrh. mun hafa komið fram að þar hafi ég boðið upp á samninga. Ég sé mér ekki annað fært en leiðrétta enn einu sinni hæstv. sjútvrh. Ég vil nú gjarnan spyrja hann: Hvernig dettur honum í hug að við höfum getað boðið upp á samninga? Upp á hvaða samninga gátum við boðið? Staðreyndin er sú að hæstv. utanrrh. og ég fórum til Brussel. Við áttum þar fyrst fund með Delors. Á þeim fundi vorum við tveir og sendiherra Íslands í Brussel. Þar gerðum við Delors grein fyrir sérstöðu okkar Íslendinga og nauðsyn þess að við þyrftum að fá ýmsum sérkröfum fullnægt og jafnframt gerðum honum grein fyrir stöðu mála í samningaumleitunum almennt og ekki síst þá innan EFTA-ríkjanna. Í framhaldi af því var haldinn fundur með framkvæmdastjórninni þar sem hún var mestöll mætt. Mig minnir að þeir hafi verið einir 10 eða 11 þar mættir. Á þeim fundi hóf sá framkvæmdastjóri, sem hafði þá með sjávarútvegsmál að gera, Marin, að ræða að það þyrfti að ganga frá sjávarútvegssamningi eins og heitið hefði verið með samningnum 1972 sem kom til framkvæmda 1976. Um þetta urðu nokkrar umræður og ég lýsti því þar að hann væri að sjálfsögðu velkominn til Íslands og við skyldum halda áfram að reyna að tala um þá hluti. Hins vegar hefðum ekki upp á mikið að bjóða. Ég spurði jafnframt að því hvar þeir vildu bjóða okkur og fengust engin svör við því, engin. Á þessum fundi urðu töluverðar umræður og m.a. voru þar menn sem sýndu mikinn skilning á málstað okkar Íslendinga eins og t.d. dr. Bangeman og fleiri. Ég man ekki nöfnin á þeim öllum. Ég hef ekki haft tíma til að fara út á skrifstofu og sækja þá skýrslu sem ég hef um þennan fund.
    Í framhaldi af því átti síðan aðalsamningamaður Íslands, Hannes Hafstein, viðræður við Marin og út úr þeim viðræðum kom akkúrat ekki neitt því að við töldum okkur ekki geta boðið neinn fiskstofn sem væri fullnýttur á Íslandsmiðum. Og kolmunninn var eitthvað nefndur í því sambandi en hann sætti sig ekki við það. Kannski er besta sönnun á því að þarna var ekkert boðið að blessaður maðurinn kom aldrei til Íslands, þáði aldrei boðið. Og ég veit ekki betur en þáv. hæstv. sjútvrh., núv. 1. þm. Austurl. hafi ítrekað það að við skyldum ræðast við en það varð aldrei úr því. Ég spurði eftir því síðar hvers vegna og þá var svarið það að hann vildi ekki koma til Íslands því honum væri ljóst af þeim upplýsingum sem hann hefði fengið hjá okkur að við mundum ekki vera tilbúin að semja um neitt. Það var svarið sem ég fékk nokkru síðar þegar enn var borið við að ekki væri búið að ganga frá þessum samningum svo að það er vitanlega alger misskilningur eða rangfærsla, hvað menn vilja kalla það, að þarna væri boðið upp á samning. Því fer svo víðs fjarri. Það þarf að svara kröfunni um það að frá samningi yrði gengið. En þótt við byðum Marin að koma til Íslands þótti honum ekki í boðinu felast neitt það sem umræðuvert væri. Þetta er staðreynd málsins og hann kom aldrei til Íslands.
    Fyrst ég er staðinn upp þá vil ég aðeins segja örfá orð um það sem ég heyrði hér áðan. Vitanlega er það rétt hjá síðasta hv. ræðumanni að verðgildið á karfanum og á loðnunni fer nokkuð eftir því og mjög eftir því hvar er landað. Hins vegar held ég að öllum hljóti að vera ljóst að þeim karfa sem hin erlendu skip munu veiða verður ekki landað hér og því er viðmiðun við þann karfa ekki nema ein og hún er verð fyrir karfa á erlendum mörkuðum og það höfum við. Annars hélt ég að það þyrfti lítið um þetta að deila lengur svo mörg eru vitnin orðin sem hafa sagt sannleikann í þessu máli og gefið upp verðhlutfall sem sýnir eins og reyndar segir í nál. meiri hluta utanrmn. að verðið mun eitthvað liggja nær því að vera 1:2, þ.e. okkur Íslendingum í óhag í þessu sambandi. Ég held að þetta liggi nú svo fyrir að menn ættu ekki að vera að deila um það og spurningin þá nánast sú hvort menn ætla er að gera þennan samning til þess að ekki verði úr hótun EB að undirrita ekki samninginn um Evrópska efnahagssvæðið án þess að svona samningur sé gerður. Við höfum lýst því sem höfum andmælt þessum samningi að þarna sé miklu fórnað og þarna er kannski því mest fórnað sem er áþreifanlegt, getum við sagt, að hleypt er skipum Evrópubandalagsins aftur inn í íslenska fiskveiðilögsögu og hvað mun fylgja? Menn mega ekki færa sig upp á skaftið. Í þessu sambandi hefur verið bent á að belgískir togarar hafa leyfi til að veiða hér. Þeir munu vera 3 eftir af 12 og eru síðutogarar mjög gamlir sem fengju leyfi vegna þess að þeir veiddu hér áður og Belgar veittu okkur mjög ákveðinn stuðning við útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Það er vitanlega allt, allt annað mál. Um þetta var samið þegar við fengum þennan stuðning sem við mátum mjög mikils. Mér dettur ekki í hug og ég reyndar tek undir það, ég held að a.m.k. hæstv. utanrrh. hafi lýst því yfir, að ekki komi til greina að segja þeim samningi upp. Það væru svik við það sem þá var um samið. Þetta er allt annað mál. Hér er brotið í blað. Hér er togurum og fiskiskipum Evrópubandalagsins almennt, án þess að við höfum nokkurt vald á því hvaðan þau fiskiskip koma, hleypt inn í íslenska fiskveiðilögsögu.
    Annars er búið að þaulræða þetta mál, en af því að þetta kom hér sérstaklega m.a. í kjölfar minnar ræðu og ég hef m.a. minnst á það hér aftur, þá vildi ég sérstaklega geta þess. En fyrst og fremst stóð ég upp, virðulegi forseti, til þess að gera grein fyrir því sem gerðist í Brussel og ef menn óska að deila um það áfram, þá vek ég sérstaklega athygli á þeirri staðreynd að Marin þáði ekki boðið, taldi ekkert boðið. Og það náttúrlega hlýtur að sanna það betur en flest annað að við buðum ekki upp á samning í Brussel.