Samningar við EB um fiskveiðimál

99. fundur
Mánudaginn 11. janúar 1993, kl. 15:40:10 (4652)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Vegna ummæla hv. 7. þm. Reykn. vil ég gera hér nokkrar athugasemdir. Fyrst í tilefni af ummælum hans um fund hans og hæstv. utanrrh. í apríl 1990 með framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins.
    Ég hygg að það sé alveg kórrétt að hæstv. ráðherrar hafi farið á þennan fund til þess að ræða almennt um stöðuna í EES-samningunum og sérstaklega um sérstöðu Íslands. Ég hef aldrei haldið því fram að á þeim fundi hafi hv. 7. þm. Reykn. gengið frá samningi um gagnkvæm fiksveiðiréttindi en ég hef haldið því fram að hann hafi á þeim fundi sem forsrh. Íslands lýst því yfir að hann væri reiðubúinn að ganga frá slíkum samningi og hef ekki heyrt hv. þm. mótmæla því fyrr að hann hafi tekið þetta fram á þeim fundi. Það væri vitaskuld eðlilegast að hann gengist fyrir því að birta þá fundargerð sem um þennan fund var gerð. Þá kæmi hið rétta í ljós hvað hver hefði sagt á þessum fundi. En það hefur oft komið til umræðu áður og ekki í fyrsta skipti nú við þessa umræðu að einmitt á þessum fundi þáv. forsrh. og utanrrh. með framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hafi þessum vilja verið lýst yfir og því hefur ekki fyrr verið mótmælt af þeim sem þann fund sátu.
    Ég vil líka minna á að ég man ekki betur en það hafi verið tekið fram æðioft af ráðherrum fyrrv. ríkisstjórnar að samningar um fiskveiðimálefnin ættu að koma síðast í umræðunum og það var af hálfu fyrrv. ríkisstjórnar talið sterkast fyrir Ísland að tefla þeim málum fram í lok viðræðnanna. Þetta kom oft til umræðu á síðasta kjörtímabili hvenær ætti að láta reyna á sjónarmið Íslands. Og þá var þessu jafnan haldið fram af hálfu þáv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Þess vegna þarf það ekki að koma á óvart þó að frá þeim hluta samninganna hafi ekki verið gengið undir lokin.
    Hitt stendur auðvitað að þetta skref var stigið af Íslands hálfu á þessum fundi að opna fyrir það að frá slíkum samningum yrði gengið og frá því getur hv. þm. Reykn. ekki hlaupið hversu oft sem hann kemur hér upp í þennan ræðustól.
    Hann ræddi svo um það hvort þessi samningur fæli ekki í raun og veru í sér hótun Evrópubandalagsins um að EES-samningurinn kæmi ekki til framkvæmda nema þessi samningur yrði gerður. Ég ætla auðvitað ekki að svara fyrir Evrópubandalagið í því efni. Við höfum frá öndverðu haldið því fram að þessum samningum um samskipti á fiskveiðisviðinu og hugsanleg skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum yrði að halda til haga í sérstökum samningi og sú hefur verið afstaða okkar. Því er hins vegar ekkert að leyna að Evrópubandalagið hefur fyrir sitt leyti talið nauðsynlegt að ljúka þessum málum áður en það gerði við okkur samninga á öðrum sviðum. Og ég tel að þær viðræður sem fram fóru í tíð fyrri ríkisstjórnar bæði af hálfu hv. 7. þm. Reykn. og hálfu 1. þm. Austurl. sýni að Framsfl. var í þeirri ríkisstjórn reiðubúinn til þess að gera slíka samninga ef þeir yrðu ásættanlegir. Nú má það vel vera að menn komist að því síðar að samningarnir séu ekki ásættanlegir. Það er eitt. En hitt að halda því fram að í tíð fyrri ríkisstjórnar hafi þetta aldrei komið til álita og þeir sem nú séu að gera slíka samninga séu að glata sigrinum í landhelgismálinu er auðvitað alveg fráleitt, enda hefur komið mjög glögglega í ljós í þessari umræðu að það er ekki samhengi á milli ummæla formanns og varaformanns Framsfl. í þessu efni. Hv. 1. þm. Austurl. tók mjög skýrt fram í sinni ræðu að það hefði alltaf verið talið hugsanlegt að til einhverra slíkra samninga gæti komið ef það takmarkaði ekki umsvif íslenskra skipa. Ég held að hv. þm. sé mjög samkvæmur sjálfum sér í þessu efni. Hann getur síðar komið fram með þau sjónarmið að á lokastigi hafi samningarnir að hans mati ekki orðið þess eðlis að hann gæti stutt þá og það hefur hann gert hér. Þó að ég telji þau rök ekki fullgild, þá er það út af fyrir sig sjónarmið. En hitt er algerlega fráleitt sem hv. 7. þm. Reykn. heldur hér fram að slík skipti hafi aldrei komið til greina og hafi ekki verið rædd af fyrrv. ríkisstjórn við Evrópubandalagið. Það er gersamlega út í hött, enda stangast hér á fullyrðingar þessara tveggja hv. þm., formanns og varaformanns Framsfl.
    Að því er varðar sjónarmið hv. 7. þm. Reykn. um jafngldi veiðiheimildanna, þá var hann ekki viðstaddur umræðuna hér áðan þegar ég gerði grein fyrir mínum sjónarmiðum í þessu efni. Það er auðvitað alveg rétt þegar verið er að meta saman verðhlutföll í karfa og þorski að hvorki allur karfinn né allur þorskurinn er seldur á innlendum markaði. En menn mega heldur ekki gleyma því þegar verið er að búa þessi verðhlutföll til eða meta þessi verðhlutföll að það á við um báðar þessar tegundir að hluti af þeim er seldur á erlendum markaði og hluti af þeim var unninn úti á sjó. Og þegar verið er að fjalla um heildarverðmætastuðla Þjóðhagsstofnunar, þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að þar er verið að hluta til að meta fisk sem búið er að vinna og að hluta til er verið að fjalla um fisk sem seldur er á erlendum mörkuðum við hæsta verði af því að við takmörkum framboðið inn á þessa markaði. Þannig liggur það fyrir að um það bil 50% af karfanum eru annaðhvort seld á þessum mörkuðum eða unnin um borð í skipunum en aðeins 20% af þorskinum. Og þetta hlýtur að hafa áhrif á það mat sem menn lesa út úr þessum heildarverðmætastuðlum.
    Það er alveg kórrétt hjá hv. 7. þm. Reykn. að að öllum líkindum munu Evrópubandalagsskipin selja þennan karfa á erlendum markaði. Það gæti alveg verið áhyggjuefni fyrir okkur að slíkt viðbótarframboð hefði einhver áhrif á verðið á þeim markaði. Það er fyllilega efni til nokkurrar umræðu og það er fullkomlega eðlilegt að menn velti því fyrir sér því að auðvitað getur það gerst. En ég hygg að hér sé um svo lítið magn að ræða að það geti aldrei velt þungu hlassi í því efni. En aðalatriðið er að það er ekki hægt eins og hv. þm. setur sitt mál fram að miða verðmæti karfans við þennan takmarkaða markað. Í Þýskalandi eru um 22% af karfaaflanum seld á uppboðsmarkaði þar og taka það hæsta verð sem þar fæst og segja að út frá því eigi að miða heildarverðmætin. Það er gersamlega út í bláinn og fær ekki staðist. Þannig að eftir stendur þrátt fyrir þessa ræðu og þær sem áður hafa verið fluttar að skásti mælikvarðinn sem við höfum í þessu efni og sá eini sem við getum í raun og veru stuðst við eru verðmætastuðlar sjútvrn. en þeir eru ekkert hárnákvæmir eða ekki heilagir eins og hv. 1. þm. Austurl. vill orða það og ég hef margsinnis sagt að ég er alveg sammála honum í því. Það er einfaldlega ekki hægt að búa til verðmætastuðla eða mælistiku sem er alveg óyggjandi og án nokkurra skekkjumarka. Ég hygg að það sé ekki nokkur leið að gera. En þessir verðmætastuðlar komast næst því að sýna eðlilegt mat á milli þessara tegunda.