Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 10:37:27 (4657)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur ýmislegt komið fram í þessari síðari umræðu sem gerir það að verkum að ástæða er til þess að víkja að málinu nokkrum orðum og enn fremur það að hæstv. utanrrh. hefur ekki séð ástæðu til að svara spurningu sem ég lagði fyrir hann í umræðu um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem lýtur óvefengjanlega að þessu máli, svo samtengd sem þessi tvö mál eru og fram kemur m.a. í skjölum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ég ítreka því spurningu mína til hæstv. utanrrh. og vil fara um hana nokkrum orðum og leitast við að fá einhver svör við henni. Því verður ekki trúað að hæstv. ráðherra, svo skeleggur sem hann er í svörum þegar fréttamenn eiga í hlut, geti ekki haft sig upp í ræðustól til að svara þeim spurningum sem til hans hefur verið beint af þingmönnum, jafnvel þótt mér sé ljóst að þingmenn séu ekki í sérstöku uppáhaldi hjá hæstv. ráðherra og hann kýs að ræða mál sín fremur við aðra en þá og á öðrum vettvangi en hér í þingsölum.
    Það sem ég hafði vakið athygli á er að á fundi Evrópustefnunefndar með varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, Henning Christophersen, sem haldinn var í september 1990, þá kom það fram hjá varaforsetanum að vissulega hefðu Íslendingar opnað sína markaði fyrir iðnvarningi frá Efnahagsbandalagslöndunum án þess að fá í staðinn fríverslun með fisk og fiskafurðir. Þar þyrfti því að nást jafnvægi á þessu sviði eða með öðrum orðum viðskiptin og samningar á milli aðila væru þannig að það væri ójafnvægi Íslendingum í óhag og þyrfti því að rétta þetta ójafnvægi sem yrði þá gert væntanlega með því móti að Evrópubandalagið legði eitthvað á móti af sinni hálfu til að ná jafnvægi. Jafnframt kom fram hjá varaforseta framkvæmdastjórnarinnar að spurningar um fisk og fiskveiðiréttindi yrðu ekki þær erfiðustu í samningaviðræðunum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ég vil í ljósi þessarar afstöðu varaforseta framkvæmdastjórnarinnar, sem ég tel að hljóti að túlka viðhorf manna þar innan dyra þó að í sjálfu sér verði ekki um það fullyrt, en ég tel afar líklegt að hann túlki viðhorf framkvæmdastjórnarinnar í þessu efni, óska eftir því við utanrrh. að hann útskýri fyrir okkur í hverju þessir samningar tveir gæfu okkur þetta jafnvægi sem fyrir lá að var ekki fyrir hendi.
    Ég sé að hæstv. utanrrh. hefur ekki mætt til þingfundar, virðulegi forseti, og ég vænti þess og þarf raunar ekki að spyrja að því að forseti hlýtur að hafa kvatt utanrrh. til fundar svo ég vænti þess að hann komi áður en ég lýk ræðu minni.
    Ég hlýt að velta því fyrir mér: Er það í þessum samningi, um fiskveiðiréttindi, um fiskveiðimál og lífríki hafsins eins og það heitir fullu nafni, sem verið er að rétta þetta ójafnvægi? Það hefur mátt skilja á hæstv. utanrrh. að samningurinn sá, sem hér er til umræðu væri okkur hagstæður, að hann færði okkur meira en það sem við létum af hendi í staðinn. Er það því þessi samningur sem veitir Íslendingum það sem á vantaði til þess að jafnvægi væri í viðskiptum milli EB og Íslands að mati varaforseta framkvæmdastjórnar EB?
    Ég hef líka tekið eftir því að hæstv. sjútvrh. er ekki sammála hæstv. utanrrh. um þetta mat, heldur hefur hæstv. sjútvrh. teygt sig lengst þannig að samningurinn sjálfur væri í jafnvægi, þ.e. við bærum ekkert meira úr býtum í þessum sjávarútvegssamningi en við látum af hendi. Það ætti ekki að mati sjútvrh. að jafna það ójafnvægi sem fyrir er með þeim samningi sem hér liggur fyrir. Ráðherrarnir eru greinilega ósammála um gildi eða þýðingu þessa samnings fyrir Íslendinga.

    Þá eru það fáein atriði sem fram komu í ræðu sjútvrh. í gær sem ég tel rétt að staldra aðeins við.
    Það fyrsta sem kom fram hjá ráðherranum var að líklega yrði kvóti íslenskra skipa ekki skertur í karfaheimildum sem næmi þeim kvóta sem ætlunin er að veita flota Evrópubandalagsins. Ég vil fá fram afdráttarlausari svör um þetta mál, það hlýtur að liggja fyrir ákvörðun af hálfu sjútvrh. um þetta, og óska því eftir því að ráðherra upplýsi það afdráttarlaust hvort svo verður að sá karfakvóti sem Evrópubandalagið má veiða verði hrein viðbót við úthlutaðan kvóta eða hvort það verður dregið af kvóta íslenskra skipa síðar. Það er ekki nægjanlegt í þessari umræðu af hálfu hæstv. sjútvrh. að svara því til að líklega verði þetta viðbótarkvóti. Hér þarf að svara afdráttarlaust þannig að staðreyndir liggi fyrir.
    Þá flutti ráðherrann langt mál með undarlegum rökstuðningi um verðmætastuðla sem gáfu honum þá niðurstöður sem hann vildi fá, en þar kom m.a. fram að það þyrfti að leiðrétta þessa stuðla með hliðsjón af því að karfi er meira fluttur út óunninn en þorskur vegna mismunandi stýringar á útflutningi á þessum tveimur tegundum. Ráðherrann gat þess einnig að það verð sem fengist hefði á Þýskalandsmarkaði fyrir óunninn karfa, sem er, að því er mig minnir, á síðasta ári 101 kr. á kíló á meðalverði ársins, hefði fengist fram vegna stýringarinnar, að Íslendingar hefðu takmarkað framboðið og stýrt því inn á þennan markað til að ná fram sem hæsta verði.
    Ég hlýt því að vekja athygli á því að ef það er ætlun Íslendinga eða sjútvrh. að bæta þessum 3.000 tonnum af karfa við það sem á að veiða hlýtur meira magn að koma inn á þessa markaði og að líkindum lækka meðalverðið. Ef við skoðum listann yfir löndunarhafnir má sjá að það er ekki ólíklegt að afar mikið af þessum karfa fari einmitt inn á þessa sömu markaði og við höfum verið að selja okkar karfa á.
    Ég hlýt líka að benda á það í öðru lagi að með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið erum við í reynd að afsala okkur þeim möguleika að stýra útflutningi á óunnum fiski. Það atriði líka getur leitt til þess að útflutningurinn verði með þeim hætti að það lækki meðalverðið. Þessi tvö atriði, afnám stýringar og aukið magn, geta orðið til þess að skaða þann útflutning á karfa sem verið hefur héðan á þessa markaði.
    Það kom fram hjá ráðherra að 28% af þeim karfa sem íslensk skip veiða hefðu verið flutt út á markað sem ísfiskur. Nær allt það magn, eða 22% minnir mig að hafi komið fram, hafi farið á Þýskalandsmarkað. Það er ekkert lítið í húfi ef Íslendingar eru að stíga skref sem leiða til þess eða geta leitt til þess að meðalverðið lækki, ekki bara á þeim afla sem Evrópubandalagið fengi að veiða, þessum 3.000 tonnum þeirra, heldur líka á þeim afla sem íslensku fiskiskipin hafa verið að senda út fram til þessa og munu gera áfram. Það væri fróðlegt að fá fram mat á því, ef einhver er til þess bær, hvað þessi áhrif gætu orðið mikil. Ég býst við að það geti enginn slegið neinu föstu um það, en bæði þessi atriði, stýringin eða afnám hennar og aukinn afli, eru líkleg til þess að valda lægra fiskverði á karfa á Þýskalandsmarkaði. Ef það gerist er um að ræða tjón fyrir íslenska hagsmuni.
    Ég vil líka benda á það atriði, fyrst hæstv. ráðherra heldur sig dálítið mikið við það að gera mun á því hvort menn eru að miða við verðmæti karfa á innlendum markaði eða erlendum, að það skiptir máli við mat á því hversu mikið við erum að heimila Evrópubandalagslöndunum að veiða hér á landi hvar fiskurinn er vigtaður upp úr skipinu. Ef hann er vigtaður í höfn innan lands skömmu eftir veiðar er það allt önnur tala sem við fáum en ef við vigtum karfann upp úr skipi á Þýskalandsmarkaði. Hér hefur komið fram að skip sem siglt hafa með karfann sinn til Þýskalands verða fyrir 10% kvótaskerðingu og sú skerðing er ekkert út í bláinn. Það þarf að gera ráð fyrir rýrnun á fiskinum á þessari leið þannig að það má meta 3.000 tonn af karfa miðað við vigtaðan afla í höfn erlendis sem 3.300 tonna veiðar upp úr sjó hér við land. Í reynd felst í þessum samningi um fiskveiðimál meira sem erlend fiskiskip mega veiða af karfa upp úr sjó en látið hefur verið í veðri vaka.
    Þetta eru þau atriði, virðulegi forseti, sem ég vildi koma á framfæri og spurningar sem vöknuðu í framhaldi af ræðu hæstv. sjútvrh. Ég sé ekki að hæstv. utanrrh. hafi ómakað sig inn í þingsal og er það út af fyrir sig hyggilegt af hans hálfu að vera ekki mikið að flækjast í sölum Alþingis, a.m.k. ekki að tala mjög mikið, en ég óska samt eindregið eftir því að hann svari þeirri spurningu sem ég hef ítrekað lagt fyrir hann, að hann útskýri fyrir okkur hvar jafnvægið er, í hverju jafnvægið næst sem upplýst er af varaforseta framkvæmdastjórnar EB að er ekki fyrir hendi í viðskiptum Íslendinga við EB. Hæstv. sjútvrh. telur fiskveiðisamninginn vera í jafnvægi þannig að við náum ekki að ,,ballansera`` ójafnvægið með honum. Ég tel að utanrrh. skuldi þinginu skýringar á því hvar þetta jafnvægi fæst í þessum samningum.
    Eins og þetta horfir við mér lítur málið þannig út að samningsniðurstaðan er sú að sjávarútvegssamningurinn er ekkert annað en útflutningsuppbætur fyrir tollalækkanir í EES-samningnum. Miðað við reynslu okkar síðustu sex árin er um að ræða allt að 3 milljarða kr. sem við erum í fiskveiðisamningnum að afhenda Evrópubandalaginu sem útflutningsuppbætur fyrir þær tollalækkanir sem veittar eru í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Þannig horfir málið við mér. Það fer auðvitað eftir því á næstu tíu árum hvernig loðnuveiðar þróast. Verði þær eins og verið hefur undanfarin sex ár eru hinar gagnkvæmu veiðiheimildir sem við eigum að fá í þessum samningi einskis virði þannig að við erum ekki þiggjendur í samningnum heldur einungis veitendur og þá er um að ræða útflutningsuppbætur upp á 30.000 tonn af karfa miðað við vigtaðan afla í löndunarhöfn erlendis sem þýðir um 33.000 tonn upp úr sjó, veitt hér. Miðað við meðalverð á Þýskalandsmarkaði eru þetta um 3 milljarðar kr.

    Ég fæ ekki annað séð en Íslendingar hafi samið þannig að þeir hafi fallist á að ójafnvægið væri okkar hagur og EB í óhag og það þyrfti að slétta út ójafnvægið með því að færa Evrópubandalaginu eitthvað á móti sem er þvert á það sem fram kemur af hálfu varaforseta framkvæmdastjórnar EB sem fullyrti á fundi með Evrópustefnunefnd í september 1990 að það ójafnvægi sem fyrir hendi er sé Íslendingum í óhag. Ég kalla það ekki klóka samningamenn sem fá slíka yfirlýsingu í samningaferli tiltölulega snemma, koma síðan heim með samning sem snýr þessum hlutum á hvolf. Það eru ekki góðir samningar, virðulegi forseti. Og utanrrh. skuldar okkur skýringar á því hvernig honum tekst svo ótrúlega til að koma með samning sem snýr fullyrðingu varaforseta Evrópubandalagsins á hvolf. ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. þm. vegna fjarveru hæstv. utanrrh. að það hefur staðið yfir ríkisstjórnarfundur, en honum er u.þ.b. að ljúka, ef honum er ekki lokið, þannig að væntanlega má búast við að hæstv. utanrrh. komi innan skamms tíma.) Ég þakka forseta fyrir upplýsingarnar, en ég sé þá ástæðu til að spyrja forseta hvort sjútvrh. sé ekki í ríkisstjórninni því hann hefur verið hér undir minni ræðu. ( Forseti: Forseti á kannski ekki að svara fyrir hæstv. sjútvrh., en hæstv. sjútvrh. fór út af fundinum til að vera við upphaf þessarar umræðu.)
    Hæstv. forseti. Ég hef í raun lokið mínu máli og komið því á framfæri sem ég hafði hugsað mér í þessari umræðu málsins, en ég fer fram á að utanrrh. svari spurningu minni, ekki einungis vegna þess að það sé eðlilegt eðli máls samkvæmt heldur vegna þess einnig að þetta er í annað skipti sem ég ber þessa spurningu fram og fékk ekki svar við henni í fyrra sinnið. Ég fer þess því eindregið á leit við forseta að umræðunni ljúki ekki fyrr en hæstv. utanrrh. hefur lagt leið sína hingað niður í Alþingi, einhvern tímann í dag, og að honum verði gert viðvart um að óskað er svars við þessari tilteknu spurningu og hann svari henni áður en umræðu lýkur. Ég mun gera athugasemd við það, forseti, ef hæstv. utanrrh. mun ekki svara spurningunni við þessa umræðu.