Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 11:09:31 (4660)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að virða athugasemdir mínar svars og ég held að við getum verið allnokkuð sammála. Ég heyri að hann ber sama ugg í brjósti og ég. Þegar talað er um að íslensk flutningafyrirtæki verði gerð samkeppnisfær hljóta þau að fara fram á sömu kjör og önnur slík. Ætli ástæðan til þess að menn hafa kosið að sigla undir þægindafána sé ekki sú að geta ráðið fólk sem ekki nýtur sömu kjara og fólk í eigin löndum og gera þannig þessa útgerð samkeppnisfæra? Það er nákvæmlega það sem ég óttast, að krafa þeirra verði að njóta sömu kjara og þægindafánarnir hafa veitt með því að flagga EURO-fána sem leyfir nákvæmlega það sem þægindafánarnir hafa leyft.
    Þetta er það sem ég óttast og þess vegna þótti mér full ástæða til að benda á þetta. Ég held að það verði afar erfitt fyrir íslenska skipaútgerð, hvort sem eru farskip eða fiskiskip, að hafa strangari reglur en önnur Efnahagsbandalagsríki og önnur EFTA-ríki. Auðvitað hljótum við að þurfa að gera sömu kröfu og þá erum við komin í það sem við viljum helst varast. Þess vegna sá ég ástæðu til að minnast á þetta.