Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 11:14:36 (4663)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Til að koma í veg fyrir að þessi umræða fari út og suður vil ég ítreka að ég ætla ekki að gera farskipin að megininntaki máls míns heldur óttast ég að íslenska fiskiskipaútgerðin lendi í þeirri klemmu að hún verði að krefjast hins sama og leyfist innan farskipaútgerðarinnar. Það er mergurinn málsins. Þetta held ég að menn hafi lítt hugsað um, en ég held að það sé eins gott að sjómannasamtökin séu þarna á verði því þróunin er ör þegar einu sinni er komið inn í þetta efnahagssvæði og þá eigum við ekki marga kosti á að vera með sérstöðu eins og menn halda. Menn treysta því alltaf að Íslendingar geti sett sérkröfur í öllum málum. Það er ekki svo. Samningurinn snýst um að sömu lög gildi alls staðar og hin fullkomna frjálsa samkeppni ríki. Þá gera menn auðvitað kröfu um sama samkeppnisumhverfi. Þar held ég að fiskiskipaútgerðin verði ekkert undanskilin. Þess vegna vildi ég vara við svo að menn hefðu a.m.k. auga á því sem hér er verið að gera.
    Ég vil að lokum, hæstv. forseti, undrast dálítið að í samningi sem þessum skuli varla vera minnst á fólkið sem vinnur þessi störf. Sjávarútvegur á Íslandi er lífsmáti, það er menning, og slíkur samningur á ekki og má ekki vera eingöngu tölur á blaði. Hann varðar líka það fólk sem vinnur í sjávarútvegi á Íslandi.