Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 12:02:48 (4666)

     Guðjón A. Kristjánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson minntist á ræðu sem ég flutti í gær og vitnaði til þess að ef þessum afla yrði landað á Austfjörðum væru ákveðin verðmæti í honum með ákveðnum hætti. Ég sagði hins vegar líka í ræðu minni að það væri líklegra að a.m.k. 20% af þessum karfa yrði selt á erlendum markaði og þá væri verið að tala um annað verð. Meðalverð á síðasta ári fyrir karfa á erlendum markaði var um 100 kr. í Þýskalandi, þannig að það er svo sem hægt að reikna þetta. Ef við gæfum okkur að þetta væru um 600 tonn og reiknuðum það niður og færum með það niður í 80 kr. verð þegar búið er að draga frá tolla og sölukostnað sem er ekki óeðlilegt, það er a.m.k. sú viðmiðunarregla sem er notuð fyrir skip almennt sem selja í Þýskalandi, þá erum við að tala um verðmæti upp á 54 millj. fyrir þessi tonn og þá er hægt að halda áfram að reikna hitt á innanlandsverðinu.
    Það sem ég sagði einfaldlega í gær var það að ég ætlaði ekki að gerast dómari í því hvort menn

væru að tala um meiri eða minni verðmæti. Það verð sem ég vitnaði til á Austfjörðum er ekkert einsdæmi hér á landi. Það er í gildi bæði á Norðurlandi, Vestfjörðum og mörgum fleiri svæðum. Markaðsverðið var sennilega í kringum 42 kr. á mörkuðum hér á síðasta ári, meðalverðið, þannig að menn geta svo sem reiknað þetta og dregið frá 4% kostnað og annað slíkt.
    En eftir stendur um loðnuna og karfann, landað á föstu verði, að sú tala sem ég nefndi í gær er 105 millj. annars vegar fyrir karfann og hins vegar 120 millj. fyrir loðnuna. Ég held að menn geti ekkert mælt því á móti að hún er rétt þannig reiknuð. Ef menn fara hins vegar með 20% á erlendan markað eru þetta sennilega 138 millj. og þá er mínus upp á svipaða upphæð og er á hinn veginn. Ég ætla svo ekki að gerast dómari um hvort þessi verðmæti eru jafngild eða ekki, en svona liggur þetta.