Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 12:44:06 (4669)

     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Það má segja að það sé að berja höfðinu við steininn að ætlast til að hægt sé að vírbinda til fullkomins jafnræðis verðmæti fisktegunda eins og sumir hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa ætlast til í umræðum hér, þ.e. þá í umræðunum um þessi 3.000 tonn af karfa annars vegar og 30.000 af loðnu hins vegar sem er niðurstaða sjávarútvegssamningsins í tengslum við EES. Verðmæti rokka til á svo mörgum mismunandi forsendum að það er erfitt að geirnegla á þennan hátt eins og menn hafa gjarnan viljað og má segja að þar séu menn að teygja lopann. Í upphafi samninganna um Evrópska efnahagssvæðið höfðu menn auðvitað uppi vonir um það að ekki þyrfti að koma til samninga um veiðiheimildir erlendra skipa, en það átti ekki að koma neinum á óvart að ganga yrði til þeirra samninga á lokastigi og það átti auðvitað ekki heldur að koma hv. þm. Steingrími Hermannssyni á óvart nú í ársbyrjun 1993 að hafa á fundi með framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins í Brussel 1990 boðið viðræður um veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu.
    Óþarft er að fjölyrða mjög um niðurstöðurnar sem nú liggja fyrir því þótt vissulega hefði verið æskilegast að losna við 3.000 tonna ákvæðið er niðurstaðan vel ásættanleg, enda magnið tiltölulega lítið þegar á heildina er litið. Það eru ákveðnir þröskuldar í sókninni og strangt og örugglega skilvirkt eftirlit sem skiptir miklu máli. Ráðherrar núv. ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórnar hafa að því er best verður séð staðið vel í ístaðinu varðandi hagsmuni Íslands í þessum samningaviðræðum og niðurstöðuna verður að líta á fyrst og fremst sem gildi í miklu stærra dæmi.
    Það er verið að gera samninga sem styrkja Ísland, styrkja fyrst og fremst fjárhagslegt sjálfstæði Íslands og möguleika til hagvaxtar og atvinnusköpunar, en slík þróun er auðvitað grundvöllur fyrir menningu og sjálfstæði landsins.
    Þegar menn hafa lagt saman það neikvæða og jákvæða sem fylgir þessum samningum er augljóst að íslenskt þjóðfélag hefur ekki efni á að hafna niðurstöðunni sem liggur fyrir og enn síður að standa utan við Evrópska efnahagssvæðið þegar til lengri tíma er litið. Það er þó full ástæða til þess í tilefni þeirra umræðna sem hafa átt sér stað um sjávarútvegssamninginn að skora á hv. þm. Steingrím Hermannsson að beita sér fyrir því að birta fundargerð þá sem hefur orðið nokkurt ásteitingsefni í umræðunum, fundargerðina frá fundi fyrrv. forsrh. og utanrrh. með framkvæmdastjórn EB í Brussel 1990, og fá þar svart á hvítu fram samkvæmt fundargerð hvað kom fram á þeim fundi. Þeim hefur ekki borið saman, hæstv. sjútvrh. og fyrrv. forsrh. Því vil ég skora á hv. þm. Steingrím Hermannsson að ljá máls á því að beita sér fyrir því að þessi fundargerð verði birt. Tilvitnanir í þennan fund eru orðnar svo viðamiklar í þessum umræðum að það er mjög rík ástæða til að það komi fram berlega sem þar er.