Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 12:50:11 (4670)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér fannst þetta nokkuð merkileg ræða hjá hv. 3. þm. Suðurl. Hann kemur, eftir því sem ég kemst næst, upp fyrstur stjórnarliða og segir að þessi sjávarútvegssamningur sé raunverulega neyðarbrauð. Hann sé gerður vegna EES-samningsins og menn neyðist til að gera hann. ( ÁJ: Ekki sagði ég það.) Ég er ekki að hafa orðrétt eftir þingmanninum. En ég er að orða þann skilning sem ég lagði í ræðu hans eftir á. Ég get ekki tekið það til baka.
    Ég tel að hann hafi verið að segja okkur það að a.m.k. hann líti þannig á að þessi sjávarútvegssamningur sé neyðarúrræði sem við þurfum að taka á okkur vegna EES-samningsins. Hann var að rökstyðja að EES-samningurinn styrkti fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og þess vegna ættum við að gera sjávarútvegssamninginn líka. Þetta er mjög merkilegt vegna þess að hæstv. sjútvrh. og aðrir þeir sjálfstæðismenn sem hér hafa talað hafa lagt mikið á sig við að reyna að rökstyðja það fyrir þingheimi að hér sé um að ræða jafnvægi í þessum samningum.
    Ég verð að segja það alveg eins og er að oft hefur mér fundist það ganga út í öfgar hvað menn hafa reynt að leggja mikið á sig til að bera saman alls ósambærilegar veiðiheimildir sem þarna er um að ræða. En það hafa þeir gert í ljósi þess að þeim finnst svo mikilvægt að Íslendingar hafi raunverulega gert góðan samning og telja að með því að tala nógu lengi um hvað hann sé góður geti hann orðið það. Það virðist vera það sem a.m.k. þinginu og þjóðinni er boðið upp á.